03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4478 í B-deild Alþingistíðinda. (4231)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hv. Nd. gerði smávægilega breytingu á frv. því til I. um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu sem Ed. hafði fjallað um fyrr í vor. Þessi breyting er ekki stór. Hún er fólgin í því, að felld eru burt orð í 1. gr. frv., 5. gr. laganna, þar sem stendur: „Allar húseignir og lausafé, sem í þeim er geymt, þar með taldar vörubirgðir“ o.s.frv. Samkv. tillögu Nd.-nefndarinnar er gert ráð fyrir að orðin „sem í þeim er geymt“ falli brott. Sú skýring fylgir með þessari breytingu, og vafalaust mun það rétt athugað, að þetta gæti valdið misskilningi eins og það stendur upphaflega í frv., það mætti hugsanlega skilja sem svo, að lausafé væri eingöngu tryggt svo fremi það væri geymt í húsi. Rétt þótti að koma í veg fyrir misskilning sem af þessum orðum gat leitt. Því var lagt til að orðin „sem í þeim er geymt“ féllu brott.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en mæli með að hv. Ed. leggi blessun sína yfir frv. eins og það nú liggur fyrir eftir afgreiðslu Nd.