03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4478 í B-deild Alþingistíðinda. (4233)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um neyðarbirgðir olíu o.fl. Frv., sem lagt hefur verið fram í kynningarskyni og ég mæli nú fyrir, varðar aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. Þarf löggjöf til að tryggja framkvæmd samningsins um alþjóðaorkuáætlun, er starf stofnunarinnar grundvallast á, ef Ísland gerist aðili. Ég mun stikla á stóru, en vísa um nánari skýringar til frv. sem er í meginatriðum byggt á skýrslu nefndar til að kanna málefni Alþjóðaorkustofnunarinnar. Sú skýrsla er þingflokkunum kunn. Tölur hafa breyst vegna þróunar olíumála á Íslandi að undanförnu, og skilyrði, sem sett verða ef til aðildar kemur, hafa verið ákveðin.

Með því að koma Alþjóðaorkustofnuninni á fót vildu aðildarríkin treysta stöðu sína í orkumálum, einkum þó olíumálum, en viðbúnaðarkerfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar hafði brugðist í olíuneyðinni á árunum 1973 og 1974. Er ég þeirrar skoðunar, að heppilegt sé fyrir Ísland að treysta stöðu sína í orkumálum á svipaðan hátt og nágrannalönd okkar, og það verði best gert með aðild að Alþjóðaorkustofnuninni. Mun ég nú víkja að skipulagi og starfi stofnunarinnar með sérstöku tilliti til aðildar Íslands.

Alþjóðaorkustofnunin er ekki alþjóðastofnun sem stendur aðildarríkjum ofar, en í samningnum um alþjóðaorkuáætlun er að finna víðtæk réttindi og skyldur. Kemur samspil réttinda og skyldna gleggst fram í olíuneyðarkerfi stofnunarinnar. Einn þáttur neyðarkerfisins er sá, að aðildarríkin skuli eiga neyðarbirgðir olíu til 90 daga. Það jafngildir 129 þús. tonnum samanlagt af þremur helstu olíuvörum Íslendinga: gasolíu, svartolíu og bensíni. Miðað við birgðarými olíufélaganna um þessar mundir, 228 þús. tonn, er ekki þörf á að auka birgðarými hér á landi til að rúma 90 daga birgðir. Skapar aðild því ekki kostnað að þessu leyti. Hefur birgðarýmið aukist að undanförnu samhliða því sem notkun olíu hefur minnkað. Sé gengið út frá að íslensk stjórnvöld telji 90 daga neyðarbirgðir eðlilegar, hvort sem Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni eða ekki, yrði út af fyrir sig ekki um að ræða aukakostnað vegna aukins birgðahalds samfara aðild Íslands að stofnuninni. Það er skoðun mín að eðlilegt sé að miða við 90 daga markið eins og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar. Sumar þeirra liggja reyndar iðulega með mun meira af olíu auk hernaðarbirgða. T.d. voru birgðir til 130 daga notkunar í ársbyrjun 1981 og 1982 í ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu. En með tilliti til þess, að Ísland er eyja, allafskekkt, virðist sérstök ástæða til að huga að olíubirgðum, og einnig með tilliti til þess, að íslenskir atvinnuvegir eru með þeim hætti að við verðum mjög að treysta á olíuna sem orkugjafa.

Það er nokkuð útbreidd skoðun, að besta ráðið til að tryggja hér á landi nægar olíubirgðir sé að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Birgðahald olíu hefur aukist talsvert á undanförnum misserum og voru meðalbirgðir áranna 1980–1981 95 þús. tonn af þremur helstu olíuvörunum. Jafngildir það 74% af því sem þarf eða 66 daga birgðum. Með hliðsjón af þessu þyrfti Ísland að auka birgðahald sitt um 34 þúsund tonn til að ná 129 þúsund tonna markinu og yrði 50% vaxtakostnaður vegna þess 42.7 millj. kr. á ári miðað við útreikninga hinn 26. mars s.l. Samsvarar þetta 1.6% hækkun verðs á gasolíu, svartolíu og bensíni til notenda.

Það gæti auðveldað lausn á þessu máli að tollgeymsla yrði heimiluð á bensíni þannig að verðtollur yrði allur greiddur við sölu, en ekki við innflutning. Þyrftu þá notendur ekki að greiða allan kostnað af aukningu birgðahaldsins, hér er aðeins verið að tala um brúttókostnað, ef talið væri að minna birgðahald dygði en samkv. reglum Alþjóðaorkustofnunarinnar. Hagræði af auknum olíusparnaði kæmi t.d. hér á móti. Þess má geta, að meðalbirgðir í janúar–mars 1982 voru miklu mun meiri en á sama tímabili árin 1980 og 1981, 129 þús. tonn eða 90 daga birgðir. Meðalbirgðir á þessum árstíma eru þó ekki marktækar um meðalbirgðir viðkomandi árs. Voru þær t.d. 10 þús. tonnum meiri en meðalbirgðir áranna 1980 og 1981.

Skylda til að takmarka eftirspurn eftir olíu og úthluta henni þegar minnkun verður á aðdráttum til hópsins, þ.e. aðildarlanda stofnunarinnar, og skylda til að úthluta olíu þegar minnkun verður á aðdráttum til einhvers aðildarríkis geta ýmist verið kostur eða galli, eftir því hvernig á stendur í olíumálum einstakra landa. Draga má úr hugsanlegum erfiðleikum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að hnika til hlutföllum innan ramma 90 daga heildarbirgða, eiga sem sé meira en 90 daga birgðir af þeirri olíu, sem erfiðast er að spara, eða úthluta enn minna en 90 daga birgðum af annarri olíu, og í öðru lagi með því að eiga einhverjar birgðir umfram 90 daga, en það hefur aukakostnað í för með sér.

Ekki hefur komið til takmörkunar á eftirspurn eftir olíu né olíuúthlutunar frá því að Alþjóðaorkustofnuninni var komið á fót árið 1974. Vilja aðildarríki stofnunarinnar eðlilega komast hjá því að þurfa að grípa til takmörkunar á eftirspurn sem veldur fremur óþægindum en nokkru sinni úthlutun. Aðildarríkin ráða því þó sjálf, til hvaða ráðstafana þau grípa til að takmarka eftirspurn eftir olíu í almennri olíuneyð. Ekki er annað sjáanlegt en að upplýsingaskylda sú, sem hvílir á aðildarríkjum Alþjóðaorkustofnunarinnar til að tryggja árangursríka framkvæmd neyðarráðstafana, sé íslendingum viðráðanleg ef af aðild verður. Sú skylda er þó aðeins þáttur í upplýsingamiðlun um alþjóðlega olíumarkaðinn sem aðildarríkin, t.d. Danir og Svíar, telja mikið gagn að, m.a. vegna upplýsinga um verðlag á olíu. Í langtímasamstarfi aðildarríkja Alþjóðaorkustofnunarinnar í orkumálum er stefnt að því að gera aðildarríkin óháðari olíuinnflutningi til að fullnægja heildarorkuþörf sinni. Þessi viðleitni getur skipt ríkin miklu máli fjárhagslega, stuðlað að gjaldeyrissparnaði með minni kaupum á dýrri olíu. Er nauðsynlegt að fylgjast sem best með þróun mála á þessum vettvangi, en af hálfu aðildarríkjanna er lögð mest áhersla á orkusparnað, þróun annarra orkugjafa en innfluttrar olíu og orkurannsóknir og almenna þróun.

Ef Íslendingum tekst að auka olíusparnað vegna upplýsinga á vettvangi stofnunarinnar og aðhalds frá henni getur orðið mikið hagræði að því. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að innflutningur á olíu skiptir miklu máli í heildarinnflutningi Íslands. Þannig var flutt inn olía til Íslands á árinu 1981 fyrir hvorki meira né minna en tæpar 1 200 millj. kr., sem jafngilti tæpum 16% af heildarinnflutningi landsmanna. Á árinu 1979 var innflutningur olíu rúmlega 19% af heildarinnflutningi Íslendinga.

Stofnunin lætur einnig annars konar orkusparnað en olíusparnað til sín taka. Næðist aukinn árangur á því sviði, t.d. varðandi notkun heits vatns og rafmagns, yrði það til hagsbóta, m.a. vegna minni viðbótarfjárfestingar og lægri kostnaðar við framleiðslu iðnvarnings í samkeppni við útlendinga. Að því er varðar þróun annarra orkugjafa en innfluttrar olíu má m.a. nefna að Alþjóðaorkustofnunin leggur áherslu á aukna notkun kola. Íslendingar geta haft gagn af orkurannsóknarverkefnum á vegum Alþjóðaorkustofnunarinnar og geta stungið upp á einstökum rannsóknarverkefnum. Ekki er veitt fé á fjárhagsáætlun stofnunarinnar til einstakra verkefna, heldur er útgjöldum jafnað niður á þau lönd, sem taka þátt í verkefnum, í þeim hlutföllum sem þau samþykkja samhljóða sín á milli. Allsherjarathugun á orkustefnum og orkuáætlunum aðildarríkja, sem beinist að orkusparnaði, þróun annarra orkugjafa en innfluttrar olíu og orkurannsóknum, skapar aðildarríkjunum aðhald og er eflaust gagnleg.

Ég hef áður minnst á kostnað við aukið olíubirgðahald, hvort sem hann stafar af aðild að Alþjóðaorkustofnuninni eða ekki, en þessi kostnaður er umtalsverður miðað við birgðahald á undanförnum árum. Ýmis kostnaður kemur til, eins og við aðild að alþjóðastofnunum almennt, þ.e. vegna framlags til stofnunarinnar og meira starfs af hálfu hins opinbera. Þá má búast við að kallað verði á aukin fjárframlög hér á landi til orkurannsókna og fleiri verkefna sem tengd eru starfsemi stofnunarinnar.

Ef heimild verður veitt til þess, að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni, sýnist mér að marka ætti formlega sérstöðu Íslands um fimm atriði:

1. Ísland fer fram á fimm ára aðlögunartíma til að auka olíubirgðahald í áföngum við hagkvæmar aðstæður og jafnframt olíugeymarými ef nauðsynlegt reynist.

2. Ísland telur að V. kafli í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um áætlun um langtímastarf hafi að geyma almennar meginreglur sem séu ekki lagalega bindandi. Vill Ísland í þessu sambandi undirstrika að það hefur rétt til að eiga og ráða yfir náttúruauðlindum sínum og efnahag, svo og vernda umhverfi sitt og öryggi þegna sinna, og mun framkvæma V. kaflann á þann hátt sem samræmist íslenskri orkustefnu, m.a. í fjárfestingarmálum.

3. Varðandi 8. meginreglu í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um hópmarkmið og meginreglur orkustefnu skal tekið fram að Ísland á mikla ónýtta vatnsorku og jarðhitaorku og mun því ekki stefna að hagnýtingu kjarnorku né taka virkan þátt í þeim málum sem snerta kjarnorku á vettvangi stofnunarinnar.

4. Varðandi 10. meginreglu í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um hópmarkmið og meginreglur orkustefnu skal tekið fram að Ísland hyggst halda áfram rannsóknum vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu undir forustu íslenskra stofnana og stjórnvalda. Við rannsóknir og hugsanlega nýtingu auðlinda verði gætt fyllstu varúðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, fyrst og fremst til að tryggja að hinar tifandi auðlindir hafsins verði ekki fyrir skaða. Áskilja íslensk stjórnvöld sér rétt til að mæla fyrir um hraða rannsókna og hugsanlegrar nýtingar, m.a. með þau sjónarmið í huga.

5. Áratugum saman hefur Ísland flutt megnið af sinni olíu inn frá einum aðila, 60–70% af heildarinnflutningi olíunnar á síðustu árum. Ísland getur ekki úthlutað þessari olíu á olíuneyðartímum andstætt hefðbundnum ákvæðum gildandi olíukaupsamninga. Hugsanleg úthlutun af hálfu Íslands yrði af þeirri olíu, sem flutt væri enn frá öðrum aðilum, eða með samþykki að öðrum kosti.

Ætla má að öll þessi atriði séu stofnuninni aðgengileg. Skilyrðin varðandi ákvarðanir stjórnarnefndarinnar eiga sér reyndar fordæmi að því er snertir aðild Norðmanna.

Ég hef fyrir mitt leyti verið hlynntur því, að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Hér er, eins og í öðrum vestrænum löndum og reyndar um allan heim, lögð aukin áhersla á orkumál og nauðsyn virkra aðgerða. Ættum við sem nágrannaþjóðir okkar að geta haft hag af samstarfi á vettvangi Alþjóðaorkustofnunarinnar.

Í stofnuninni er um að tefla frekari útfærslu á samstarfi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem Íslendingar hafa tekið þátt í. Samvinna um hin ýmsu atriði samningsins um alþjóðaorkuáætlun er Íslendingum ávinningur. Vegna samhjálpar aðildarríkjanna í olíumálum á friðartímum fæst aukið olíuöryggi, sem ekki næst með einhliða birgðaaukningu. Kostnaður við meira birgðahald kemur til hvort sem hann stafar af aðild að stofnuninni eða ekki, en eðlilegt virðist að miða við 90 daga birgðir. Aðildin hvetur til áætlunargerðar um viðbúnað á neyðartímum. Upplýsingar frá stofnuninni gætu hjálpað Íslendingum til að ná hagstæðum samningum í olíukaupum. Má telja samstarf sem þetta mjög mikilvægt fyrir land þar sem olíukaup og verðlagning hafa mjög víðtæk áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Þá má fá upplýsingar um orku- og efnahagsstarf nágrannalandanna og Ísland getur miðlað fróðleik, t.d. í jarðhitamálum, og stungið upp á nytsamlegum samstarfsverkefnum á því sviði.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frv. til l. um neyðarbirgðir olíu o.fl. sem lagt hefur verið fram nú svo að þm. gefist kostur á að kynna sér skipulag og starfsemi Atþjóðaorkustofnunarinnar með sérstöku tilliti til aðildar Íslands. Mín skoðun er sú, að aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni horfi til framtíðarheilla fyrir land og þjóð.

Ég hef ekki alveg gert mér grein fyrir því, herra forseti, til hvaða nefndar á að gera till. um að vísa þessu máli. Ég geri að till. minni að málinu verði vísað til hv. iðnn.