03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4482 í B-deild Alþingistíðinda. (4234)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég get heils hugar tekið undir þau orð hæstv. viðskrh., að þetta frv. eða öllu heldur framkvæmd þess muni horfa til heilla fyrir land og þjóð. Það held ég að sé alveg hárrétt mat. Ég vil hins vegar vekja athygli á því orðalagi sem hæstv. ráðh. viðhafði í upphafi ræðu sinnar. Hann tók þannig til orða, að þetta frv. væri lagt hér fram í kynningarskyni. Ég kannast ekki við að í þingskapalögum séu nein ákvæði um að frumvörp séu lögð fram í kynningarskyni. Þegar frumvörp eru lögð fram eru þau auðvitað lögð fram til samþykktar og það sérstaklega þegar um stjfrv. er að ræða. Hins vegar er það annað mál, hvort þingmönnum muni endast sá skammi tími, sem væntanlega lifir þessa þings, til þess að kanna þetta mál svo sem vert væri, og þess vegna óttast ég að það muni ekki hljóta afgreiðslu á þessu þingi, því miður.

Ég vil aðeins fagna því, að þetta frv. skuli fram komið, og minna jafnframt á till. til þál. sem við nokkrir þm. Alþfl. fluttum á fyrstu dögum þessa löggjafarþings, en sú till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni.“ Nú er sem sagt efni þessarar till. í þann veginn að ná fram að ganga, því að þó svo þetta frv. heiti ekki „Frumvarp til laga um aðild Íslands að Alþjóðastofnuninni,“ þá felur það efnislega í sér það sem þáltill. okkar Alþfl.manna gerir ráð fyrir.

Þegar till. okkar kom til umræðu í Sþ. fyrr í vetur urðu þar býsna harðar umræður sem stóðu heilan dag, — ef ég man rétt. Af hálfu hv. þm. Alþb. var næsta hart barist gegn tillögunni. Það var svo sem ekki ný bóla, vegna þess að hér er um að ræða samstarf við vestrænar þjóðir og Alþb. hefur ævinlega litið á það sem eitt af meginhlutverkum sínum á Alþingi að berjast gegn öllu samstarfi við vestrænar þjóðir. Í þessu máli var þar engin undantekning gerð. Þar hafði ekki einn, ekki tveir, heldur fleiri af hv. þm. þess flokks uppi mjög harða gagnrýni á tillöguna, án þess þó að veruleg efnisrök gegn því, sem hér er um að ræða, kæmu þar fram.

Ég vil aðeins fagna því, að hæstv. viðskrh. skuli hafa tekist að beygja ráðherra Alþb. í ríkisstjórn til stuðnings við þetta mál, því að svo verður að líta á, enda þótt hann hafi orðið að láta í minni pokann með nafni frv. þar sem það heitir Frumvarp til laga um neyðarbirgðir olíu o.fl. En það skiptir ekki höfuðmáli. Það er auðvitað efnisinnihald frv. sem er meginmálið.

Hér er sem sagt fallist á þá tillögu sem við Alþfl.-menn lögðum fram í upphafi þings. Raunar kom þá strax í ljós að hún átti þingmeirihluta. Hins vegar lítur sá minni hl., sem beitti sér gegn henni, gjarnan á sig sem meiri hluta og hafandi stöðvunarvald í hinum ýmsu málum. En ég fagna því, að viðskrh. skuli flytja þetta frv. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni í nafni allrar ríkisstj. Þó svo þetta frv. nái ekki fram að ganga á þeim fáu dögum sem eftir eru þings, þá held ég að líta megi á það sem tryggt, hvernig sem allt veltur og hverjir sem verða hér við stjórn á haustdögum, að frv. um þetta efni muni þá verða lagt fram að nýju og muni hafa þingmeirihluta og muni hljóta afgreiðslu.