03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4491 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Lárusar Jónssonar, þá er það alveg rétt skilið hjá honum, að það er eindregin afstaða mín í þessum málum að olíukaupastefna Íslendinga eigi að vera með þeim hætti að við verðum ekki háðir í mjög ríkum mæli einum olíuseljanda, í okkar tilviki Sovétríkjunum. Ég hef hvað eftir annað látið þá skoðun í ljós. En eins og ég benti á áðan getur aðild að Alþjóðaorkustofnuninni í sérstökum tilvikum, þegar mikilvægustu ákvæðum samningsins um stofnunina yrði beitt, leitt til þess, að við yrðum háðari Sovétríkjunum. Það er flötur þessa máls sem ég efast um að hafi verið nægilega vel ræddur í hópi þeirra manna sem virðast hafa tekið skilyrðislaust jákvæða afstöðu með aðild okkar. Það er til að fyrirbyggja að við yrðum háðari Sovétríkjunum með þessari aðild sem ég vildi bæta einni setningu við þau skilyrði sem talin eru upp í athugasemdum við 1. gr. frv. Það væri skilyrði á þann veg, að til úthlutunar kæmi í reikningsgrunni eingöngu sú olía sem við kaupum með þeim ákvæðum að hún sé framseljanleg.

Ég fagna því hins vegar, að það kemur fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að hann viðurkennir fyllilega að þetta sé mjög flókið mál, á engan hátt einfalt. Ég get tekið undir hugmynd hans um að sett verði nefnd allra flokka til að athuga þetta mál, vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt að þingflokkarnir fái gott tækifæri til að ræða alla þætti málsins. Það er mikill misskilningur að Alþb. hafi lagst gegn aðild að þessari stofnun. Það er hins vegar rétt, að Alþb. hefur lagst gegn skilyrðislausri aðild.

Alþb. hefur verið, kannske umfram aðra flokka, sá aðili sem knúið hefur á um það að fram færu raunhæfar umræður um það, hver þessi skilyrði ættu að vera. Við kynntum okkur rækilega röksemdir Norðmanna, sem settu skilyrði, og við kynntum okkur einnig rækilega röksemdir Frakka, sem töldu ekki rétt hagsmuna sinna vegna að gerast aðilar að þessari stofnun. Meginefni ræðu minnar hér á þingi fyrr í vetur um þetta mál var að vekja athygli á þessu, að kjarni málsins um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni snýst um skilyrðin að mínum dómi.

Hitt er svo rétt, sem hér kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að upphaf Alþjóðaorkustofnunarinnar fólst í samtryggingarkerfi ríku olíukaupaþjóðanna gagnvart aðgerðum hinna fátækari olíusöluríkja á fyrri hluta þessa áratugs, í olíukreppunni sem þá kom upp. Og af því að hv. þm. Eiði Guðnasyni leiðist ósköp þegar verið er að benda honum á það, að hann geti lesið sér til fróðleiks víða, þá ætla ég ekki nú að benda honum á ýmis ágæt rit þar sem hann gæti kynnst þessu atriði. En ég hélt að allir vissu það, sem um þetta mál hafa fjallað, að fæðing Alþjóðaorkustofnunarinnar gerðist í umræðum um bætta samtryggingu stóru olíukauparíkjanna, Bandaríkjanna, Vestur-Þýskalands og annarra meiri háttar iðnríkja, þegar olíusöluríkin, OPEC-ríkin, fóru að grípa til þess ráðs að tryggja réttindi sín til meira arðs af auðlindum sínum með því að hækka olíuverðið.

Margir settu fram það sjónarmið, þegar Alþjóðaorkustofnunin var fyrst sett á laggirnar, að hún mundi leiða til meiri spennu og hatrammari samskipta milli hinna ríku olíukauparíkja og hinna fátækari olíusöluríkja. Það er alveg rétt sem hv. þm. Stefán Jónsson vék að áðan, að það var ein af meginástæðunum fyrir því, að Frakkar tóku ekki þátt í þessari stofnun, að þeir vildu á sjálfstæðan hátt, óbundnir af skuldbindingum gagnvart Bandaríkjunum og Vestur-Þjóðverjum og öðrum, geta haft samskipti við hin fátækari ríki. Það er þess vegna spurningin fyrir okkur Íslendinga: Teljum við hagsmunum okkar betur borgið sem aðilar að slíkum klúbbi hinna stóru olíukauparíkja? Alþjóðaorkustofnun er það. Atkvæðisréttur innan hennar og öll ákvæði miðast við hagsmuni hinna stóru olíukauparíkja. Teljum við Íslendingar hagsmunum okkar betur borgið að vera þar í félagi heldur en geta einir sem smáríki í Norður-Atlantshafi gert sjálfstæða samninga við Norðmenn, við Breta, við Nígeríumenn, við einhver Arabaríki, við olíuframleiðsluríki í Suður-Ameríku? Það er grundvallarspurning um þá framtíðarstefnu sem lítil þjóð ætlar sér að hafa í olíukaupamálum.

Hitt er svo rétt líka, eins og hv. þm. Stefán Jónsson benti á, að reynslan hefur sýnt það á þeim tæpa áratug, sem liðinn er síðan Alþjóðaorkustofnun var sett á laggirnar, að í framkvæmd hefur hún reynst meira skriffinnskukerfi en raunverulegur stefnumótandi ákvörðunaraðili um olíustefnuna og orkustefnuna í þessum ríkjum. Reynslan af Alþjóðaorkustofnuninni er þess vegna með nokkuð öðrum hætti en lesa má í grundvallarsamningnum um sjálfa stofnunina og þeim samþykktum sem gerðar voru á vegum hennar á fyrstu árunum. Það er þess vegna dálítið erfitt að ákveða við þessa umr. hvort við erum að tala um Alþjóðaorkustofnun í skilningi þess samnings, sem gerður var um hana, og þeirrar stefnuyfirlýsingar, sem hún hefur gert, og í skilningi sumra starfsmanna og stjórnenda stofnunarinnar um hvað felist í aðildinni að henni, eða við erum að tala um hana í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur. (LJ: Er ekki reynslan ólygnust?) Jú, það var einmitt það sem ég ætlaði að koma að. Reynslan hefur einmitt sýnt að það kunna að vera minni hættur fyrir smáríki eins og Ísland að gerast aðili að Alþjóðaorkustofnuninni heldur en samningarnir sjálfir gefa tilefni til að ætla.

Ég fagna því, að sá skilningur hefur komið fram í þessum umr., bæði frá þm. Sjálfstfl., Lárusi Jónssyni, og frá hæstv. ráðh. einnig, að þingflokkarnir þurfi að ræða þessi atriði vel og rækilega. En ég vek þó að lokum athygli á því, að í þeirri ræðu, sem hv. þm. Eiður Guðnason flutti hér áðan, nefndi hann ekki heldur eitt einasta skilyrði sem Alþfl. telur rétt að setja þegar Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Talsmenn Alþfl. hafa aldrei áður í umr. um þetta mál sett fram hver þessi skilyrði eigi að vera, og í ræðum þeirra nú hefur ekki komið fram orð um það, hvort þeir eru samþykkir þeim skilyrðum sem sett eru í grg. frv., öllum eða einhverjum, eða hvort þeir teldu þau eiga að vera fleiri, vegna þess að Alþfl. virðist, ef dæma má af málflutningi flokksins, ekki hafa gert sér grein fyrir því, að kjarninn í umræðunum um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni er hvaða skilyrði er nauðsynlegt að Ísland setji. Ef ræðumenn Alþfl. vilja telja sig höfuðtalsmenn þess hér á Alþingi, að Ísland gerist aðili að þessari stofnun, þá finnst mér tími til kominn að þeir fari a.m.k. að taka á dagskrá í eina mínútu hvaða skilyrði Alþfl. vill setja.