03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (4247)

178. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að láta í ljós ánægju yfir því, að fjh.- og viðskn. skuli þó fást til þess að afgreiða frá sér eitthvert af þeim frumvörpum, sem til hennar hefur verið vísað, um tekju- og eignarskatt eða ýmis mál önnur, sem hún hefur átt að fjalla um í vetur. Ég ætla að í þessari nefnd liggi nú 8–9 frumvörp um breytingar á þessum sömu lögum. Sum þessara frumvarpa voru lögð fram á Alþingi fyrir áramót og var vísað til nefndar jafnvel í nóvember- og desembermánuði. Önnur hafa farið þangað í febrúarmánuði. En öll eiga þessi frumvörp það sameiginlegt að sofna Þyrnirósarsvefni í þessari nefnd, hversu góð mál sem þar hefur verið um að ræða.

Ég álít að frv. það, sem hér liggur fyrir, eigi rétt á sér og sé góðra gjalda vert, en minni á hinn bóginn á að eins og hin frv. lýtur það að því að auka frádráttarliði við tekjuskattinn og ætti þess vegna að vera mikil flís í holdi formanns nefndarinnar, þótt hann af einhverjum ástæðum hafi látíð undan þrýstingi ritara deildarinnar um að afgreiða þetta sérstaka mál.

Nú vil ég, um leið og ég geri athugasemd við þennan doða nefndarinnar, beina þeirri fsp. til formanns hennar, hvort við því sé að búast að fleiri frumvörp til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt verði afgreidd á þessu þingi, hvort frv. um breytingu á söluskattslögum ásamt með ýmsu öðru, sem telja mætti upp, verði afgreidd frá nefndinni, eða hvort hann ætti að hafa þá starfshætti til þingloka að líta einungis eða fyrst og fremst á þau mál sem ríkisstj. flytur, en setjast á mál stjórnarandstöðunnar.

Þegar frumvörp eru flutt ár eftir ár eiga flm. rétt á því að Alþingi fjalli um þau, afgreiði þau, felli eða samþykki. Ég hlýt að mælast til þess fyrir hönd okkar, sem eigum um sárt að binda, að nefndin taki nú á sig rögg og sendi fleiri mál frá sér svo að menn megi sjá hvaða hugur stendur til þeirra mála.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins gera athugasemd við vinnubrögð nefndarinnar og þann hátt sem þar hefur verið hafður á afgreiðslu mála.