03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (4250)

178. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem er 178. mál þessarar deildar, virðist vera hér á leið — og það meira að segja nokkuð hraðri leið gegnum hv. deild og kemur hér væntanlega til atkvgr. á eftir. Ég hlýt að taka það fram, að það hefur ekki verið haft samráð við fjmrn. eða mig um afgreiðslu þessa máls. Það er mín skoðun að þetta mál þurfi miklu nánari athugunar við en fram hefur farið.

Ég held að það verði að segjast eins og er, að þetta er býsna dýrt mál, kannske miklu dýrara mál en flesta grunar. Spurningin hlýtur auðvitað að vera sú, hvort ekki sé betur varið með öðrum hætti en hér er lagt til fjármunum til þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda, og er þá einkum átt við þá aðila sem nefndir eru í grg. frv., þ.e. fólk sem leitar menntunar úr fjarlægum byggðarlögum og þarf að leggja í mikinn kostnað þess vegna.

Það er skemmst af að segja að samkv. þeim lauslegu útreikningum, sem gerðir hafa verið á vegum fjmrn., kostar framkvæmd þessa frv. á þessu ári 25 millj. og aðra eins upphæð fyrir sveitarfélögin í landinu. Ég hygg að það séu allverulega miklu hærri fjárhæðir en flm. höfðu í huga þegar frv. var flutt. Ég vil því taka það fram, að ég greiði ekki þessu frv. atkv.