03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4500 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Vegna þeirra aths., sem hér hafa komið fram, vil ég segja það, að ég hef ekki tekið eftir því í umsögn hagsýslustofnunar, að þar sé neitt sem mæli gegn þessu máli. Varðandi það, að upplýsingar skorti, er auðvitað hægt að veita margháttaðar upplýsingar um þetta mál sem eðlilegt er að veita þeirra þingnefnd sem fær það til meðferðar.

Það hefur komið fram, að meðalframleiðsla graskögglaverksmiðja í landinu á síðustu árum er um 9100 tonn á ári og hefur mest farið í um 11 þús. tonn. Það má geta þess, að fóðurinnflutningur var á síðasta ári um 60 þús. tonn, og árið 1979 hygg ég að fóðurinnflutningur hafi verið mestur eða um 84 þús. tonn. Með aðgerðum, sem gripið hefur verið til, hefur verið dregið úr fóðurinnflutningi. En ljóst er að það eru markaðslegar forsendur fyrir því að nýta meira innlenda framleiðslu, innlent fóður, en við gerum og höfum gert síðustu áratugi.

Varðandi birgðasöfnun, sem hafi orðið á árunum 1978 og 1980, er það rétt sem fram kom, að þær birgðir, sem ekki voru seldar í maí, setdust næstu mánuði, enda nota t.a.m. ýmsir mjólkurframleiðendur grasköggla fyrir mjólkurkýr, m.a. til að draga úr sveiflum sem verða af því að taka kýr af heyfóðri og gefa þeim grængresi, þannig að þessi framleiðsla hefur selst upp. Ég hygg að nú sé a.m.k. um það bil framleiðsla síðasta árs seld. Það er nokkuð langt síðan framleiðsla allra verksmiðjanna nema einnar var uppseld. Ég hygg að það sé a.m.k. mjög nálægt því, að framleiðslan frá verksmiðjunni í Flatey sé einnig uppseld.

Það er sagt, að það sé í óvissu hvort verð á framleiðslu frá nýjum verksmiðjum standist samanburð við hinar eldri, og það er sagt, að fjármagnskostnaður sé óljós. Auðvitað verður alltaf nokkru erfiðara að reka nýjar verksmiðjur, en það veltur þó að nokkru á því, hversu miklu hlutafé er varið til stofnunar slíkra fyrirtækja. Það háfa ekki verið sett inn í frv. ákvæði sem ákvarða hlutafjáreign, en það má geta þess, að t.a.m. í undirbúningsfélagi um graskögglaverksmiðju í Vallhólmi í Skagafirði hefur verið gert ráð fyrir að hlutafé væri um 60% af stofnkostnaði, sem er mjög hátt, og það er gert með tilliti til þess að draga úr fjármagnskostnaðinum. Það er til að mæta þeim mismun sem hér er vakin athygli á að geti orðið á framleiðslukostnaði nýrra verksmiðja samanborið við eldri verksmiðjur. Það er einnig rétt að upplýsa það hér, að gert er ráð fyrir að ríkissjóður eigi um 75% af hlutafé sem lagt verður fram, en heimaaðilar 25%, og hlutaféð verði um 60% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Um þetta eru ekki ákvæði í frv. Þessum fyrirtækjum verða settar stjórnir og undirbúningsstjórnir eru starfandi. En eðlilegt er að nokkurt svigrúm sé í meðferð þessara mála. Þess verður og að vænta, að hverju sinni hljóti fulltrúar ríkisins, þ. á m. skipaðir af fjmrh., að gæta hagsmuna ríkisins í þessum efnum.

Það er sagt að óljóst sé hvort ekki henti betur að stækka eldri verksmiðjur en byggja nýjar. Það má út af fyrir sig velta því fyrir sér, kannske árum saman, án þess að fá örugga niðurstöðu. Það er ljóst að stærri rekstrareiningar eru hagkvæmari en smærri að tilteknu marki sem ákvarðast af vegatengdum þegar þarf að flytja hráefni til verksmiðjanna. En hitt er einnig mjög afgerandi, að flutningskostnaður á þessari vöru vex því meir sem flutningaleiðir framleiðslunnar lengjast, og það veldur þeim erfiðleikum að tæplega er hægt án sérstakra aðgerða að nota framleiðslu þessara verksmiðja í fjarlægum landshlutum. Á síðustu tveimur árum hefur verið gripið til nokkurrar verðjöfnunar á flutningi á þessari vöru, en það verður að skoða sem sérstakt millibilsástand meðan slíkar verksmiðjur eru ekki til í heilum landshlutum.

Það er sagt að óljóst sé um stærðarmörk eða stofnkostnað. Gert er ráð fyrir að t.a.m. verksmiðjan í Skagafirði hafi, eins og það er orðað, um 5 tonna eimingargetu eða geti framleitt sem svarar 2500–3000 tonnum. Verksmiðja af þeirri stærð þarf um 600–800 hektara af landi. Það eru skilyrði til að hafa stærri verksmiðju en þetta í Suður-Þingeyjarsýslu. Land er þar meira, sem um er að ræða, en það ræðst m.a. af markaðshorfum og öðrum atriðum hvort ráðist verður í að hafa þá verksmiðju stærri en sem þessu nemur. Þetta er sambærileg stærð og er á verksmiðjunum bæði í Gunnarsholti og á Stórólfshvoli.

Það leikur nokkur vafi á hagkvæmni þess að nota innlenda orkugjafa. Enn hefur ekki sýnst hagkvæmt að nýta raforku til að knýja þurrkara þessara verksmiðja, en þess má geta, að jafnvel þó að notuð sé svartolía er svartolíubrennsla ekki dýrari en það, þó að orkukostnaðurinn sé mjög afgerandi um rekstur verksmiðjanna, að það er a.m.k. ekki langt síðan orkukostnaður var um 16–17% af framleiðslukostnaði. Mjög margar og ítarlegar upplýsingar liggja fyrir um þessi mál, og hv. þm. Friðrik Sophusson getur fengið að kynna sér þær upplýsingar miklu nánar en hægt er að koma við í þingræðu.

Ég lít svo á, að ekki séu svo lausir endar í þessu máli að ekki sé sjálfsagt að Alþingi fallist á það eða ekki sé a.m.k, mjög jákvætt fyrir Alþingi að fallast á afgreiðslu þessa frv. Ég endurtek að það hefur til þessa verið gert ráð fyrir að byggja þessar tvær verksmiðjur, sem ákveðið var að reisa á Norðurlandi 1972, upp sem ríkisfyrirtæki. Ég tel að Alþingi ætti heldur að greiða fyrir því að mæta áhuga heimamanna sem vilja taka það á sig að leggja fram fjármagn og taka á sig ábyrgð. Það held ég að sé hyggileg stefna, og það kæmi mér mjög á óvart ef hv. Alþingi vildi bregða fæti fyrir þá stefnu.

Ég held að ef engar upplýsingar lægju fyrir um þetta mál væri ekki hægt að ætla hv. deild að afgreiða það á 1–2 dögum, eins og hér var nefnt. Frv. var hins vegar flutt í febrúarmánuði og hefur auðvitað gefist rúmur tími fyrir Alþingi til að fjalla um þetta mál og afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Þrátt fyrir að ekki séu sett hér mörk um hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði og rekstri hefur það komið fram, að gert er ráð fyrir að fyrirtæki af þessu tagi þurfi að hafa hlutafé sem næst í kringum 60%. Af því hlutafé hefur verið gert ráð fyrir, varðandi a.m.k. aðra þeirra verksmiðja sem hér er um talað og lengst eru komnar, að ríkissjóður leggi fram 75%, en heimaaðilar 25%. Þetta er gert með tilliti til þess að draga úr fjármagnskostnaði og draga úr þeim mismun sem verður á framleiðslukostnaði hjá nýjum verksmiðjum miðað við eldri fyrirtæki.