03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4504 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

228. mál, barnalög

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Við Ólafur Þ. Þórðarson, hv. 5. þm. Vestf., stöndum að minnihlutaáliti frá hv. allshn., og þar leggjum við til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Þessar breytingar eru, eins og raunar kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. n., hugsaðar af því að það kann að orka tvímælis, án þess að það sé rangt með einum eða neinum hætti, að þetta frv. sé flutt sem breyting við barnalög, m.a. vegna þess að þessir efnisþættir falla þá undir mismunandi rn. Í framhaldi af því flytjum við brtt. við 1. gr. um að orðin „a) Á eftir 6. mgr. 35. gr. laganna komi ný mgr. er hljóði svo“ falli burt og enn fremur að fyrirsögn frv. orðist svo: Frumvarp til laga um fjölskylduráðgjöf.

Þetta, herra forseti, þýðir að lagt er til að lagagreinin sé samþykkt óbreytt eins og hún var flutt af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Matthíasi Bjarnasyni og Níels Á. Lund, en að þetta verði sérstakt frv. til I. um fjölskylduráðgjöf.

Ég vil svo í örstuttu máli gera grein fyrir því, af hverju við leggjum þetta til.

Það er ljóst að hér er orðinn til svolítill vísir að þessari starfsemi, og ég held að það sé allra manna mat að þessi starfsemi hafi gefið mjög góða raun, hún hafi leyst úr erindum fjölmargra sem á slíku hafa þurft að halda. Hér er í raun og veru alls ekki verið að leggja til miklar breytingar og ekki verið að leggja til neitt endanlegt form á þessari starfsemi, heldur aðeins verið að styrkja stoðir undir starfsemi, sem þegar er til, og koma málum svo fyrir að þessi starfsemi eigi frekari framtíð fyrir sér, en um það hygg ég að allir séu sammála og þar með taldir þeir í meiri hl. allshn. sem þó leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. Enn fremur hefur komið fram að í undirbúningi er frekari löggjöf um þessi efni. Hvenær nákvæmlega hún kann að koma fram eða hverjar niðurstöður kunna að verða er auðvitað ógerlegt að gera sér grein fyrir — a.m.k. tímamörkum — að svo stöddu.

Þegar allt þetta er skoðað og lagt saman sýnist okkur vera sjálfsagt skref að stíga að vísir að þessari ráðgjöf, eins og er lagt til í þskj. 417, verði til.

Með þessum rökstuðningi ítreka ég að við leggjum til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef gert grein fyrir.