03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (4264)

228. mál, barnalög

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni um þetta mál vitnaði ég til umsagnar félmrn., en sú umsögn er frá 5. apríl 1982. Þessi umsögn er undirrituð af Hallgrími Dalberg og Hólmfríði Snæbjörnsdóttur. Með leyfi forseta vil ég lesa upp úr þessu bréfi þar sem segir:

„Að beiðni rn. hafa verið samin ítarleg drög að lögum um heildarskipulag félagslegrar þjónustu á vegum sveitarfélaga og er þar m.a. beinlínis gert ráð fyrir að skylt sé að veita ráðgjöf í framangreindum málum og mörgum öðrum sem ekki verða tíunduð hér. Félmrn. mun beita sér fyrir að frv. til laga um þetta efni verði lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má.“

Það var m.a. vegna þessa bréfs frá félmrn., sem ég þykist vita að hæstv. ráðh. hafi verið fullkunnugt um, sem meiri hl. n. leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstj., þar sem í bréfinu kemur fram að þessi mál séu til umfjöllunar þar og verið samin ítarleg drög að lögum um heildarskipulag félagslegrar þjónustu o.s.frv. Því koma mér nokkuð á óvart þau ummæli hæstv. ráðh., að það sé mikilli óvissu bundið hvenær þessi drög að frv. til l., mjög svo ítarlegu, verði lögð fram. Meiri hl. n. þótti eðlilegt að efni þessa máls kæmi inn í heildstæð lög um þessi mál frekar en að fara nú að leggja til að sérstakt frv., mjög lítið og kannske ófullkomið að ýmsu leyti, verði samþ. núna, enda var frv. ekki í upphafi samið með það fyrir augum að verða sérstök lög, heldur sem breyting á lögum sem fyrir eru.