03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (4272)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Með samþykkt þessarar till. eru framkvæmdir hafnar við hina svokölluðu lífshættulegu vegi. Ég hygg að það sé út af fyrir sig mjög mikilvægur áfangi þótt átakið hefði svo sannarlega mátt vera meira.

Ég ætla ekki að fara að skattyrðast hér við hv. 4. þm. Austurl. Hann má baða sig í sinni dýrð í nafni Framkvæmdastofnunar ef hann vill. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að það fjármagn, sem Framkvæmdastofnunin hefur boðið ríkissjóði að láni til slíkra framkvæmda sem vegáætlunar, er að mestu lánsfé þó að 20 millj. séu það ekki. Vitanlega gæti ríkissjóður tekið sjálfur að láni með nákvæmlega sömu kjörum, ef ekki betri, og það allt endurgreiðir ríkissjóður. Allt er það vitanlega háð því, að samkomulag náist um það í ríkisstj. að nýta sér þá lánsheimild sem Framkvæmdastofnunin hefur í þessu sambandi. Ég sé því enga ástæðu út af fyrir sig að vera að þakka það. Hins vegar vil ég þakka fyrir þær 20 millj. sem stofnunin býður sem framlag. Það er allt annað mál og það er rausnarlega gert. Ég er sammála hv. þm. um að vegirnir út af fyrir sig eru það mikið byggðamál að það er alls ekki að ófyrirsynju að Byggðasjóður láti það til sín taka á þann hátt.

Það er rangt að ekki sé staðið við það sem till. gerði ráð fyrir, sú sem samþykkt var hér á síðasta þingi um langtímaáætlun, því að till. gerði ráð fyrir að 2.1% færu til vegamála í ár, síðan yrði hlutfallið hækkað upp í 2.2 og smám saman upp í 2.4. Ég fór fyrir örfáum dögum yfir þessi mál með vegagerðarmönnum og þetta stenst fyllilega. 2.1% af þjóðarframleiðslu fara til vegamála í ár. Það skal viðurkennt að það stafar að vissum hluta af því, að þjóðarframleiðslan eykst ekki, heldur dregst saman, að möguleikar íslensku þjóðarinnar til að verja fjármagni til vegagerðar eru minni. Þjóðartekjur dragast saman. Sú viðmiðun var tekin upp og var talið eðlilegt að miða við þjóðartekjur og ég veit ekki betur en allir þm. hafi verið sammála um það. En ég get upplýst hv. þm. um að miðað við síðustu spá um þjóðarframleiðslu stenst það fyllilega að 2.1 % renni til vegamála. Hins vegar hefur oft verið höfð önnur viðmiðun og það má gjarnan, þ.e. hvort tekst að ljúka þeim áföngum sem gert er ráð fyrir í vegáætlun. Það hefur þó iðulega gengið illa. Það er rétt hjá hv. þm. að ekki tekst að ljúka að fullu þeim áföngum sem að var stefnt með gerð vegáætlunar, en m.a. vegna þess að óvissa ríkir í okkar verðbólguþjóðfélagi um slíkt var tekin sú ákvörðun við gerð síðustu vegáætlunar að láta töluverðu fjármagni óráðstafað.

Sömuleiðis vil ég taka það fram, að sá niðurskurður, sem ákveðinn var á fjárlögum, lenti að sjálfsögðu einnig að nokkru á vegagerðinni. Þó varð samkomulag um að sá niðurskurður á vegagerðinni yrði töluvert minni en á öðrum framkvæmdum. Niðurskurðurinn var 6% almennt, en varð 3.6% á vegagerðinni, m.a. með tilliti til þess að samþykkt hafði verið hér sérstök tillaga um átak í vegamálum og m.a. í þeirri viðleitni að standa við þessi 2.1% af þjóðarframleiðslu. Það var sem sagt af vegagerðinni tekinn rétt rúmlega helmingur eða 7.5 millj. í staðinn fyrir rúmlega 14, sem hefði átt að skera niður. Þannig hafa ýmsir fleiri komið að þessu máli en Framkvæmdastofnun og hv. þm.

Það kann vel að vera að hv. þm. þyki átak í vegamálum ekki stórt. En ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég tel að t.d. sú mikla aukning, sem hefur orðið á bundnu slitlagi, sé sannarlega þakkarverð hverjum þeim sem hefur að þessu komið. Á s.l. ári voru lagðir 142 km af bundnu slitlagi, árið áður 90, en þar áður höfðu mest verið lagðir 40. Nú er gert ráð fyrir að í sumar verði lagðir um 160 km af bundnu slitlagi. Ég tel einnig að það átak, sem gert er ráð fyrir í langtímaáætluninni, sé mjög stórt. Þar er gert ráð fyrir að lagðir verði 2200–3000 km. af bundnu slitlagi, eftir því hvernig óráðstöfuðu fjármagni verður ráðstafað.

Það er rétt að líklega er vafasamt að tími vinnist til að tala fyrir langtímaáætlun. Hún er prentuð og henni verður líklega útbýtt í dag, þannig að menn hafa hana til upplýsingar. Hins vegar er ætlunin að taka hana fyrir með vegáætlun, sem lögð verður fram í haust tímanlega, þannig að hún fái meðferð á þingi með fjárlögum, sem hefur ekki oft gerst, og þá einnig með langtímaáætlun. En þar sem vegamál eru hér til umr. sé ég alveg sérstaka ástæðu til að þakka þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, sem hafa tekið þátt í að móta þessa langtímaáætlun og eiga mikinn þátt í því að náðst hefur um hana samkomulag. Og það er illt verk að mínu mati, ef menn eru að stofna til deilna um langtímaáætlun sem þannig hefur verið að unnið. Um hana náðist fullkomin samstaða fulltrúa allra þingflokka.