03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4525 í B-deild Alþingistíðinda. (4279)

308. mál, iðnaðarstefna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og nú stendur á er varla tími til að fjalla um þetta mál nema í örfáum orðum, því þannig er komið tíma hv. Alþingis að menn verða að nota hlé á milli þingfunda í nefndastörf. Raunar er varla ástæða til að flytja hér langa ræðu vegna þess, hve frsm. hefur fjallað nákvæmlega og vel um þessa till. um iðnaðarstefnu. Hann hefur auðvitað dregið fram sínar skoðanir, og er ekkert við það að athuga, og hefur greint þær vel frá öðrum hluta ræðu sinnar.

Það er auðvitað kjarni málsins, að við fögnum því að geta nú loksins eygt möguleika á því að koma iðnaðarstefnunni út úr þinginu þannig að við eigum iðnaðarstefnu sem hefur verið samþykkt af Alþingi, en ekki aðeins till. til hennar.

Till. til iðnaðarstefnu hefur legið hér alllengi fyrir, borin fram á nokkrum þingum, en ekki náð fram að ganga. Sú till., sem hæstv. iðnrh. lagði fram, var lögð til grundvallar þegar hv. þm. Friðrik Sophusson og fleiri sömdu sína till., og sýndust þær býsna líkar. Hitt er svo annað mál, að augljóslega gátu skoðanir hæstv. ráðh. ekki fyllilega fallið saman við skoðanir þeirra sjálfstæðismanna. Bjóst enginn við því, enda ekki óeðlilegt að þar sé mismunur á milli. En í stað þess að afgreiða tvær till. um iðnaðarstefnu úr nefndinni eða aðra hvora þeirra með skiptum álitum settust menn niður og veltu fyrir sér hvort nokkur möguleiki væri að samræma þessar tillögur. Ég held að ég verði að segja að nm. lögðu talsverða vinnu í að ná þarna saman, því að viss atriði, sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur nefnt, voru býsna ólík og áherslur mismunandi á ýmsum stöðum. Ég sé ekki ástæðu til að nefna þessa staði, en aldrei næst samkomulag nema einhver láti eitthvað af sínu og allir láti eitthvað af sínu raunar. Eftir miklar umr., athuganir og tos á milli aðila náðist sem betur fer samkomulag um eina iðnaðarstefnu og er það vel. Vinnubrögð af þessu tagi ættu einmitt að vera til fordæmis varðandi meðferð á ágreiningsmálum, að menn reyni í lengstu lög að nálgast hver annan þannig að hugsanlegur friður geti myndast um efnið.

Herra forseti. Auðvitað er það svo, að ekki eru allir fullkomlega ánægðir með niðurstöðuna. Það er ég ekki heldur og gæti haft ýmislegt við þetta að athuga, þó ekki sé í stórum atriðum. En eftir atvikum er ég ánægður með niðurstöðuna, þó að mér finnist að ég hafi fengið heldur lítinn hlut úr samningunum, enda mennirnir hinum megin við borðið feiknduglegir samningamenn.