03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4530 í B-deild Alþingistíðinda. (4289)

224. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta mál er einfalt í sniðum. Þm. Vestfjarðakjördæmis með 1. þm. þess, Matthías Bjarnason, í fararbroddi hafa lagt fyrir Alþingi svohljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að láta framkvæma undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum í Árneshreppi í Strandasýslu og gera kostnaðaráætlun um þessar framkvæmdir og tillögur til fjáröflunar til að standa undir þeim, og verði stefnt að því, að vinna geti hafist vorið 1983.

Þessar aðgerðir verði þær fyrstu af hálfu ríkisvaldsins nú til þess að treysta og efla byggð í nyrsta hreppi Strandasýslu. Kostnaður við þessa hönnun og undirbúning framkvæmda greiðist úr ríkissjóði.“

Nefndin varð sammála um að mæla með samþykki þessarar till., þó með þeirri breytingu að síðari málsgr. falli niður, eins og þskj. 700 ber með sér.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Forsenda fyrir því, að byggð geti viðhaldist í Árneshreppi, er að sjálfsögðu sú, að búendur þar geti jöfnum höndum lifað af sauðfjárrækt og sjósókn og þær framkvæmdir, sem hér er lagt til að gerðar verði, eru forsenda þess, að þessi nyrsti hreppur þessarar sýslu rísi á ný. Þessi hreppur á sér merka sögu og má muna sinn fífil fegri, svo að það er sannarlega tilraunarinnar virði að reyna að snúa byggðaþróun þar við og stuðla að því, að menn geti hafst þar við við sómasamlegar aðstæður.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en nefndin mælir sem sagt með að fyrri mgr. þessarar till. verði samþykkt.