09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

69. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég á sæti í þeirri nefnd, sem málið fer væntanlega til, og get kynnt mér það frekar þar. En vissulega er hér um stórt og mikið mál að ræða og sá vandi, sem við blasti í sambandi við loðnuveiðarnar, er hér meðhöndlaður á nokkuð óvenjulegan hátt. Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi fara um nokkrum orðum.

Þegar hæstv. sjútvrh. gerði sjútvn. beggja deilda grein fyrir þessu máli um miðjan okt. s. l. upplýsti hann að miðað við að felld yrðu niður útflutningsgjöld á loðnunni mundi vanta um 40 millj. til viðbótar til að ná endum saman varðandi loðnumálin, ef ég man rétt. Eins og hæstv. ráðh. sagði hér var gert ráð fyrir í samkomulagi að taka lán til að brúa þetta bil. Hæstv. ráðh. sagði að það hefði verið í fullu samkomulagi við sjómenn. Kannske má orða það svo. Ýmis mótmæli hafa þó komið fram vegna þessarar ráðstöfunar, sem ég ætla ekki hér að gera að umræðuefni. Alla vega mun fulltrúi sjómanna, sem þarna átti hlut að máli, hafa fallist á þetta, ef ég veit rétt.

Mín spurning í sambandi við þetta er þessi: Er hér um að ræða væntanlega 40 millj. kr. lántöku til að brúa þetta bil, og hvernig verður með endurgreiðslu á slíkri lántöku? Hvað er hún til langs tíma? Ég sé ekki að gerð sé nein grein fyrir því. Það segir að vísu, með leyfi forseta, í athugasemdum með frv.:

„Jafnframt urðu fulltrúar veiða og vinnslu sammála um, að við þessar óvenjulegu aðstæður yrði að afla fjár í Verðjöfnunarsjóð með lántöku, en endurgreiðsla lánsins yrði þó bundin tiltekinni þróun markaðsverðs“ — hvaða tiltekinni þróun? — „þannig að hagur veiða og vinnslu yrði viðunandi, áður en til greiðslu lánsins kæmi.“

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hvað er verið að gera hér? Liggur fyrir í fyrsta lagi upphæð lánsins? Í öðru lagi: Hvaða kjör eru á þessari lántöku og á hvaða tíma á hún að greiðast, eða er ekki búið að ganga frá því máli?

Þetta vildi ég að kæmi strax inn í umræður við 1. umr. málsins. Vissulega kemur þetta til athugunar þegar málið kemur til nefndar, en ég tel rétt að þetta komi inn í umræður strax á fyrsta stigi.