03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (4291)

57. mál, staða og rekstrargrundvöllur félagsheimila

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Níels Á. Lund, sem verið hefur varamaður fyrir hæstv. menntmrh., flutti hér till. ásamt þrem flokksbræðrum sínum um að skipuð yrði nefnd til að kanna stöðu og rekstrarmöguleika félagsheimila, og veitir sannarlega ekki af. Ég hygg að sá tími verði talinn í tugum ára nú sem þessi heimili hafa búið við bág skilyrði þannig að þau hafa naumast getað staðið undir nafni. Þær tilraunir, sem hið opinbera hefur gert til að efla menningarstarf í slíkum heimilum með yfirstjórn að ofan, hafa því miður lognast út af flestar hverjar, þó að alltaf sé eitthvað gert í þá átt. Á hinn bóginn hafa sveitirnar náttúrlega notað þessi heimili fyrir sig og má m.a. benda á þá miklu leiklistarstarfsemi áhugafólks sem fram fer víðs vegar um landið.

Allshn. hefur rætt þessa till. á nokkrum fundum sínum og orðið ásátt um að mæla með samþykkt till. með svofelldum breytingum, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar kanna stöðu og rekstrargrundvöll félagsheimila. Í því sambandi ber sérstaklega að hafa í huga:

a) hvernig efla megi Félagsheimilasjóð þannig að hann geti staðið að greiðslum til félagsheimilanna svo sem honum er ætlað að gera samkv. lögum,

b) með hvaða hætti styrkja megi rekstrargrundvöll félagsheimilanna, m.a. með tilliti til skattlagningar hins opinbera, hitunarkostnaðar og fleiri atriða, sem rekstur félagsheimilanna varða.“

Fyrirsögnin verði: „Tillaga til þingsályktunar um að kanna stöðu og rekstrargrundvöll félagsheimila.“

Í dag var útbýtt þskj. frá fjh.- og viðskn. Nd. þar sem lagt er til að skattlagning hins opinbera verði leiðrétt eins og þar er mælt fyrir um. Er við því að búast að Alþingi verði við samþykkt nefndarinnar og að sú leiðrétting geti orðið á þessu þingi, nema hæstv. fjmrh. setji fótinn fyrir þá breytingu. Önnur atriði þarf að athuga jafnframt.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ítreka að nefndin mælir með samþykkt breytingarinnar eins og ég hef gert grein fyrir.