03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (4292)

57. mál, staða og rekstrargrundvöllur félagsheimila

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessari þáltill. Þetta er að mínu mati, eins og kom fram réttilega h já hv. frsm. í ræðu hans, hv. 7. landsk., þýðingarmikið mál. Félagsheimili gegna mikilvægu hlutverki í landinu og hafa gert lengi. Þau eru víða eiginlega grundvöllur þess, að byggð geti haldist, og gegna þýðingarmiklu hlutverki í menningarlífi og öllum samskiptum fólks á landsbyggðinni. Ég þakka sem sagt nefndinni fyrir að hafa afgreitt þessa þáltill. sem var hér flutt til að vekja athygli á þessu máli og til að reyna að fá á því gerða úttekt hvernig hægt er að koma þessum málum í betra horf en þau eru í.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. 7. landsk. þm. sagði áðan í sambandi við skattamálin. Hér hefur legið fyrir Alþingi frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt að því er varðar félagsheimilin. Eins og fram hefur komið hefur sú óöld gengið yfir, að skattayfirvöld í landinu hafa verið að elta uppi rekstur félagsheimila víðs vegar um landið með óeðlilegri skattlagningu sem gerir það að verkum að þeir, sem eru að reyna að halda uppi rekstri félagsheimila, að vísu í litlum sveitarfélögum, gefast upp ef þeir eiga yfir höfði sér enn frekari skatta á þessa starfsemi. Ég geri ráð fyrir að þegar nál. frá fjh.- og viðskn. um tekjuskatt og eignarskatt í sambandi við félagsheimili kemur hér fyrir til umr. muni ég kveðja mér hljóðs. Þetta er eigi að síður réttileg ábending frá hv. 7. landsk. þm. og þarf að fylgja því eftir hér á Alþingi. En erindið var að þakka fyrir afgreiðslu málsins.