03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4534 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

127. mál, hagnýting orkulinda

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tala fyrir áliti minni hl. allshn. sem hefur skilað áliti á þskj. 725.

Allshn. hefur athugað till. á nokkrum fundum sínum og varð, eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. telur að þar sem á vegum ríkisstj. sé unnið að athugunum á hagnýtingu orkulinda landsins, m.a. til stóriðju, sé ástæðulaust að taka upp þá stefnu sem till. greinir, en leggur þó til að málinu verði vísað til ríkisstj. Mætti þá hugsa sér að sumir þættir þeirrar stefnu, sem hér er boðuð, kynnu að verða hafðir til hliðsjónar við stefnumótun ríkisstj. á komandi tímum. Að þessu nál. standa hv. 12. þm. Reykv., Haraldur ólafsson, hv. 4. þm. Vesturl., Skúli Alexandersson, sem tók þátt í afgreiðslu málsins í fjarveru hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, sem dvaldist erlendis þegar málið var afgreitt í nefndinni, og svo ég.

Eins og menn hafa glögglega orðið varir hér á Alþingi undanfarna daga hafa hv. alþm. haft mjög um að hugsa hagnýtingu orkulindanna og beislun orkulindanna, sem líka hafa verið mikið viðfangsefni. Í hv. iðnn. Nd. er einmitt eitt mjög tímafrekt viðfangsefni á döfinni þessa dagana, þ.e. hugmyndir um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.