03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4304)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um innlendan lífefnaiðnað. Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til að þáltill. verði samþ. með því orðalagi sem hér greinir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði.“ Allmiklar annir hafa verið hjá atvmn. og vissulega hefðum við kosið að þetta mál fengi meiri umfjöllun í nefndinni en raun varð á þannig að við hefðum getað haft orðalag ákveðnara en hér er, því að engum dylst að hér er um mjög athyglisverða tillögu að ræða og vel unna með miklum upplýsingum um möguleika á þessu sviði. En eins og ég gat um taldi nefndin rétt að koma málinu frá sér þó að henni hefði ekki gefist tími til að veita því þá vinnu sem eðlilegt hefði verið miðað við mikilvægi málsins.