03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það er ekki nema rétt og skylt að menn geri grein fyrir málum, en hitt er spurning, hvort menn þurfa að endurflytja það sem þeir sögðu áður vegna þess að þm. hafi almennt ekki tekið eftir því sem skyldi.

Ég gat um það í upphafi máls míns, að það hefðu verið miklar annir í atvmn., og vænti ég að það komi engum á óvart. Ég gat þess einnig, að ég teldi að þetta mál hefði ekki verið athugað sem skyldi. Í því orðalagi felst ekki að málið hafi ekki verið athugað, þó það hafi að mínu viti ekki verið lögð í það nægilega mikil vinna. Ég dreg enga fjöður yfir það og ég teldi ekki rétt að segja deildinni ósatt til um þau efni. Þetta er mitt mat á því.

Það kom fram jafnframt, að ég hefði gjarnan viljað að till. hefði verið afgreidd með ákveðnara orðalagi en nefndin gerði, en slíkt hefði varla verið gerlegt nema fengist hefði nægilega mikill tími til að kynna sér jafnviðamikið mál og hér er á ferðinni. En hitt vil ég atveg sérstaklega undirstrika, ef menn telja að það hefði ekki átt að afgreiða málið úr nefndinni, sem mér skilst hálft í hvoru að séu spurningarmerki víð hjá sumum aðilum sem hér hafa verið að tala, að með því hefði verið unnið gegn málinu. Ég barðist mjög ákveðið fyrir að þessi till. yrði ekki svæfð í nefndinni, eins og verður nú um mörg góð mál, heldur yrði hún afgreidd þrátt fyrir það, eins og ég gat um áðan, að nefndin hefur vegna anna ekki haft tíma til að athuga þetta mál sem skyldi.

Það má vel vera að menn hafi eitt og annað við það að athuga, en ég vona samt að það fari ekki milli mála, að menn hafi tekið eftir því sem ég sagði hér um þetta mál.