03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4537 í B-deild Alþingistíðinda. (4310)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Vegna þeirra umr. sem hér hafa farið fram vil ég láta í ljós sjónarmið sem ég hef þegar kynnt á fundum með formönnum þingflokkanna og forsetum Sþ.

Á allra síðustu árum hefur borið á því, að nefndir, sérstaklega í hv. Sþ., tækju upp þau vinnubrögð að afgreiða þáltill. með þeim hætti áð þær verða nánast marklausar eða marklitlar þegar þær hafa verið afgreiddar. Tillögurnar eru í upphafi e.t.v. með nokkuð almennu orðalagi, en þegar nefndirnar afgreiða till. frá sér er orðalagið orðið svo almennt að þær kveða í raun og veru aðeins á um að efla skuli þetta eða hitt, ríkisstj. skuli vinna að þessu eða hinu, en síðan segir ekkert um með hvaða áherslum, með hvaða hætti eða neitt annað sem marktækt getur talist sem vegvísir að því sem breyta skal.

Á því þingi, sem nú stendur, einnig á síðasta þingi, en þó einkum og sér í lagi nú síðustu vikurnar, hefur þessi þróun að mínum dómi nálgast að verða þinginu til lítils sóma og ef til vill mjög hæpið fyrir álit þingsins og marktækni þáltill. almennt, því að hér hafa borist frá nefndum í Sþ. afgreiðslur á þáltill. hverri á fætur annarri sem í reynd eru orðnar þannig að mjög lítið mark er hægt að taka á tillögunum sem vegvísi að vinnubrögðum eða breytingum. Ég tel að með þessum vinnubrögðum nefnda þingsins nú í ár og á allra síðustu árum sé smátt og smátt verið að eyðileggja þáltill.-formið sem áhrifaríkt tæki í okkar stjórnkerfi, vegna þess að smátt og smátt er verið að skapa þann skilning, bæði hjá hv. Alþingi og einnig hjá stjórnkerfinu, að þessar yfirlýsingar séu marklitlar ef ekki marklausar. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, og eins og ég gat um í upphafi hef ég lýst þeirri skoðun á vinnufundum formanna þingflokkanna og forseta Alþingis, að það sé nauðsynlegt að þm. allir athugi það .rækilega á næsta þingi, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka upp breytt vinnubrögð varðandi þáltill., þær séu því aðeins afgreiddar út úr nefndum þingsins að í þeim felist einhver raunverulegur vegvísir að því sem gera skal, en ekki einhverjar útþynntar almennar viljayfirlýsingar sem í raun segja ekki neitt. Það getur vel verið, að tillögumönnum sé einhver hagur að því að fá afgreiðstu á slíkum tillögum, og það getur vel verið, að það sé verið að friða einhver öfl utan þings með því að afgreiða till. með þeim hætti. En ég held, ef litið er yfir lengri tíma og menn sjá hverja afgreiðsluna hlaðast upp á fætur annarri í þessa veru. að niðurstaðan verði sú, að þessi þáttur í vinnubrögðum þingsins verður nánast ónýttur sem áhrifaríkt tæki vegna þess að hvorki þingið sjálft né önnur stjórnvöld taki mark á afgreiðslunni né víti yfirleitt hvað hún merki. Þetta gildir um þá till. sem hér er til umr., en það gildir líka um margar aðrar tillögur sem hafa verið hér til umr. og hafa verið samþykktar nú þegar eða koma til afgreiðstu fyrir lok þessa þings.

Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að mæla hér sérstaklega gegn þessari till. eða tala sérstaklega um þá afgreiðslu sem þessi tillaga hefur fengið. En ég tel þetta vera einkenni sem hafi ágerst svo á allra síðustu árum, og þó sérstaklega á síðustu tveimur þingum, að það sé alveg nauðsynlegt að þingið íhugi vandlega hvort ekki sé rétt að taka upp önnur vinnubrögð varðandi afgreiðslu á þáttill. og afgreiða þá aðeins þær þáltill. sem séu nægilega ítarlegar til að fela í sér einhvern marktækan vegvísi fyrir stjórnvöld og aðra aðila um hvað eigi að gera.

Herra forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri til að koma þessum sjónarmiðum formlega á framfæri hér í Sþ., þó að ég hafi þegar gert það á vinnufundum forseta þingsins og formanna þingflokkanna.