03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4538 í B-deild Alþingistíðinda. (4311)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan, og raunar höfum við einstaka sinnum rætt þessi mál, að þetta form, þáltill.-formið, er auðvitað orðið ónýtt þegar tillögurnar eru orðnar ein og hálf lína. Það segir nákvæmlega ekki neitt og er á stundum, að ég hygg, verra en ekki neitt að standa þannig að málum, t.d. um þá till. sem hér um ræðir. Fyrstu tvær línur hennar hljóðuðu upphaflega svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót öflugum innlendum lífefnaiðnaði.“ Hvernig verður þetta svo? Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Alþingi ályktar að'fela ríkisstj. að kanna, hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði“ — og segir nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég beindi hér spurningum til frsm. nefndarinnar hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, og það kom í ljós að ég hafði heyrt alveg rétt. Nefndin telur sig ekki hafa haft tíma til að fjalla um till. (Gripið fram í: Áttirðu von á öðru?) Já, ég átti von á öðru, vegna þess að satt best að segja fundust mér þau ummæti sem hv. þm. hafði um nefndarstörfin og afgreiðslu nefndarinnar svo ótrúleg að engu tali taki í rauninni. Það er furðulegt þegar nefnd leggur til, að till. skuli afgreidd með þessum hætti, og tekur jafnframt fram, að hún hafi ekki haft tíma til að athuga till. almennilega. En ég vil vekja athygli á því, að þessari till. var vísað til atvmn. 2. mars. Ég veit að atvmn. hefur haldið býsna marga fundi undanfarna 10 daga. En hvað skyldi hún hafa haldið marga fundi frá 2. mars og þangað til um miðjan apríl? Ég held að tímaskortur sé ekki afsökun, en þetta eru auðvitað óafsakanleg vinnubrögð, sérstaklega þegar um er að ræða góð mál og stór mál eins og hér er um að ræða.