03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4541 í B-deild Alþingistíðinda. (4314)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða ekki til þess að lengja þessa umr. um of, einkum og sér í lagi af því að ég á von á frekar skemmtilegri ræðu um vandamál landbúnaðarins á eftir og vil því ekki draga það mjög á langinn. Hins vegar fer ekki hjá því, að afgreiðslan á þessari till. í atvmn. gefi tilefni til umr. af því tagi sem nú fara hér fram.

Ég held þó að gleymst hafi í þessari umr. að geta þess, sem a.m.k. mér finnst einn höfuðgaltinn á störfum nefnda Alþingis, hversu seint nefndir taka við sér. Ég hef orðið vitni að því, að nefndir á hina háa Alþingi safna saman málum sem síðan eru send út í einu lagi til umsagnar og umsagnir berast í stórum stíl, hlaðast upp og síðan er ráðist á málin þegar fer að nálgast þinglokin með þeim afleiðingum að þau fá ekki þá afgreiðslu sem þeim ber að fá. Svo einfalt er þetta mál.

En ég get líka tekið undir þá skoðun, sem hefur komið fram í þessari umr., að með þessum vinnubrögðum er verið að gera þáltill.-formið ómerkilegt og ómerkt að mörgu leyti. Ég benti á það áðan í ræðu minni, að tillgr. væri t.d. gerð nánast alveg marklaus í afgreiðslu nefndarinnar.

Það er svo önnur hlið á þessu máli, en ný, að þáltill. fer nú mjög fjölgandi hér á hinu háa Alþingi. Þetta er form á málflutningi sem þm. temja sér í æ ríkara mæli. Þingreyndir menn segja mér að fyrir örfáum árum eða um það bil einum áratug hefði mátt telja þáltill. á fingrum beggja handa. Nú skipta þær orðið mörgum tugum og eru greinilega eitt þægilegasta formið sem þm. hafa fundið á því að koma málum sínum á framfæri. Ekki ætla ég að segja að það sé vegna þess að þm. finni ekki leið til að koma mátum sínum í frumvörp, heldur er hér um þægilega aðferð að ræða. Oft og tíðum tekur maður eftir því við afgreiðslu á þáltill., að þar gætu verið á ferðinni till. sem t.d. kosta stórfé í framkvæmd, þó ekki sé annað en að skipa sjö manna nefnd til að gera hitt og gera þetta eða að fá einhverja sérfræðinga til að vinna úr rannsóknum og skýrslum til að athuga hvort þar sé verkefni við hæfi sem ríkisstj. ætti að beita sér fyrir.

Það er t.d. mjög eftirtektarvert við þær þáltill., sem yfirleitt eru fluttar hér, að það fylgja þeim yfirleitt engar kostnaðaráætlanir þó að þar sé um að ræða tillögur sem fela í sér að þær kosti mikla fjármuni. Auðvitað ætti þingið að gera það að skyldu, að ef þm. vitja með þáttill. stofna til verulegs kostnaðar fyrir ríkissjóð ættu þeir í þessum tillögum að gera einhverja kostnaðaráætlun. Ég vil í þessum efnum minna á sið sem franska þingið hefur í sambandi við lagafrv. sem eru til kostnaðarauka. Þm. verða að gera svo vel að koma með tillögur um tekjulið á móti.

Ég skal ekki þæfa þetta lengur, herra forseti. Ég vil bara segja það, að mér er nokkuð sárt um þessa till., þó að ég eigi ekkert í henni, þó að hún komi frá öðrum flokki. Þetta er gagnmerk till. og mér þykir það heldur fúlt, svo að ég noti orðalag sem tíðkast hér utan dyra a.m.k., að till. af þessum toga skuli fá þá afgreiðstu sem hún hefur fengið í hv. atvmn. Það kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni áðan, að till. barst til nefndarinnar 2. mars. Nefndin hafði þá a.m.k. allan marsmánuð til að senda hana til umsagnar því að annir þessarar ágætu nefndar hófust ekki fyrir atvöru fyrr en í aprílmánuði. Það er því til lítillar afsökunar að bera við önnum.

Úr því sem komið er, herra forseti, er auðvitað útilokað að standa gegn afgreiðstu þessarar till. Hún er það merk að ég vona að ríkisstj. hafi vit og áræði til að hrinda henni í framkvæmd. En ég er nánast sannfærður um að það hefur ekki tekið hv. atvmn. nema um það bil 10 mínútur að afgreiða till. á þann hátt sem við sjáum hér á pappírum frá nefndinni, og þykir mér það mjög slæmt.