03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4545 í B-deild Alþingistíðinda. (4319)

199. mál, efling innlends iðnaðar

Frsm. meiri hl. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Atvmn. hefur rætt þáltill. á allmörgum fundum, en ýmsar aðrar tillögur, sem varða iðnað, hafa verið þar til umfjöllunar og skarast efni þeirra á allmörgum sviðum, eins og eðlilegt er, þótt mismunandi áherslur séu á hinum einstöku þáttum. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. hennar var sammála um að mæta með till. nokkuð breyttri, eins og fram kemur á þskj. 833, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að efla innlendan iðnað og styrkja stöðu hans. Aðgerðir þessar hafi það að meginmarkmiði að auka atvinnu í iðnaði, stuðla að aukinni sölu og markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og auka iðnað í hinum dreifðu byggðum landsins.“

Fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Halldór Ásgrímsson.