03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4545 í B-deild Alþingistíðinda. (4321)

289. mál, söluerfiðleikar búvara

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skipun nefndar vegna söluerfiðleika búvara. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skipuð skuli nefnd til að gera tillögur um, með hvaða hætti beri að bregðast við þeim vanda, sem íslenskur landbúnaður stendur nú frammi fyrir vegna söluerfiðleika hefðbundinna búvara á erlendum mörkuðum.

Hver þingflokkanna um sig tilnefnir einn mann í nefndina, en landbrh. skipar formann án tilnefningar. Nefndin skili áliti fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“

Á þessum næðingssömu vordögum eru viðhorf í landbúnaði í meiri óvissu en verið hefur um langa tíð. Ekki bætir það úr að Alþingi er að ljúka störfum og sú von, sem e.t.v. einhverjir bændur hafa alið með sér, að héðan bærust þær fréttir að tekið yrði á málum landbúnaðarins með nokkurri festu og hulu óvissu og aðgerðaleysis vikið til hliðar, hefur brugðist. Frá ríkisstj. og Alþingi hafa enn engar þær fréttir borist sem markað geta spor til sóknar né heldur varnar fyrir bændur þessa lands. Þótt sú umræða, sem nú á sér stað varðandi söluerfiðleika landbúnaðarvara, sé undirrót þessarar óvissu eru ástæðurnar þó miklu víðtækari. Þau neikvæðu viðhorf, sem nú gætir svo mjög í stjórnarathöfnum er landbúnað snerta, eru augljós og án efa leiða þau til nokkurra efasemda varðandi afkomu bænda og framtíð íslenskra sveitabyggða. En það sem gerir, að menn hafa nú hrokkið við, eru þær fréttir sem nýlega hafa borist, að ef unnt eigi að vera að verðbæta útfluttar landbúnaðarvörur samkv, áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins þurfi til þess 81 millj. kr. umfram hinn lögboðna útflutningsbótarétt. Sé litið til hliðstæðra talna aftur til ársins 1977 hefur þessi upphæð 16 faldast miðað við verðlag hvers árs, en 2.3 faldast séu tölur færðar til sambærilegs verðlags. Á sama tíma hefur útflutningur kindakjöts minnkað úr 522 tonnum árið 1977 í tæp 3000 tonn, eins og hann er áætlaður nú í ár. Varðandi mjólkurframleiðsluna eru þessar breytingar enn gagngerðari, þannig að útflutningur er að magni til ca. helmingi minni en hann var fyrir sex árum. Þannig eru áhrif efnahagsstefnu síðustu vinstri stjórna á hag íslensks landbúnaðar. Þannig hefur það pólitíska umhverfi síðustu ára leikið landbúnaðinn.

Fyrir liðlega tveimur áratugum, þegar samkomulag var gert við bændur um núverandi verðlagskerfi búvara, gaf erlendi markaðurinn um 3/4 hluta þess verðs sem fékkst fyrir búvörurnar á innanlandsmarkaði. Að meðaltali hefur þetta hlutfall þessi ár verið um 50%, en nú er svo komið að ekki fæst fyrir útfluttar landbúnaðarvörur nema ca. 1/4 hluti þess verðs sem innlendi markaðurinn gefur. Þessi verðlagsþróun er meginorsök þess vanda sem nú er við að fást í framleiðslumálum landbúnaðarins. Auðvitað getur menn greint á um hvort mál hafi þróast með öllum hætti eðlilega eða hvort á einhverjum tíma hefði þurft að víkja til hliðar og taka gleggri mið af því umhverfi sem verðlagsþróunin í þessu landi hefur verið að keyra landbúnaðinn í. Hitt hljóta menn að vera sammála um, að ekki verður hjá því komist að meta staðreyndir og þá með það fyrir augum að landbúnaðarframleiðslan verði að magni til innan þeirra marka sem heimildir til útflutningsbóta taka mið af.

Núv. ríkisstj. hefur verið óspör á yfirlýsingar um nýja stefnu í landbúnaðarmálum, og margháttuð loforð um nýjungar í landbúnaði hafa leikið mjúkt á tungu talsmanna ríkisstj. Í fyrsta boðskap ríkisstj., sem birtist íslensku þjóðinni, stjórnarsáttmálanum sjálfum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefnan í málefnum landbúnaðarins verði mörkuð með ályktun Alþingis og við það miðað að tryggja afkomu bænda, sporna gegn byggðaröskun og fullnægja þörfum íslensku þjóðarinnar fyrir búvörur til neyslu og iðnaðar. Lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt í því skyni að tryggja stefnuna í framkvæmd.“

Þannig hljóðaði boðskapurinn 8. febrúar 1980, en svo leið sá vetur og sumarið reyndar líka. Nefnd starfaði, bréf voru send út um allar byggðir Íslands, upplýsingum safnað og tölvur spurðar. Forustumenn bænda biðu vonglaðir, boðskapur hins nýja tíma var á næsta leiti.

Þegar þar kom í upphafi einnar októbernætur, að bjöllum var hringt á dyrum alþm. og boðskapur forsrh. afhentur þeim, kom í ljós að talað var enn sömu mjúku tungunni um málefni landbúnaðarins. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu Alþingi mun landbrh. leggja fram af hálfu ríkisstj. till. um stefnu í landbúnaðarmálum og munu væntanlega fylgja henni lagafrumvörp er miða að breytingum á landbúnaðarlöggjöfinni, m.a. í þá átt að ákvarðanir um verðlagningu á búvörum verði teknar með beinni aðild fulltrúa ríkisins.“

Hver gat nú verið í vafa um að boðskapur hins nýja tíma hugrakkra drengja væri alveg í nánd? En svo leið sá vetur og sumarið sem honum fylgdi og enn bárust engar fréttir um stefnu hins nýja tíma, stefnu ríkisstj. Mönnum lék því nokkur forvitni á að heyra boðskap hæstv. forsrh. sem hann flutti þjóð og þingi 22. okt. s.l., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stefnt er að því, að framleiðsla sauðfjárafurða byggist áfram að hluta til á útflutningi, eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.“ Og enn fremur segir í stefnuræðu forsrh.: „S.l. tvö ár hefur verið unnið að eflingu annarra búgreina, einkum fiskræktar, loðdýraræktar, garðræktar og ylræktar ásamt aukinni nýtingu hlunninda og annarra landgæða. Áfram verður haldið á þessari braut.“

Engin leið er að misskilja þessa framsetningu. Sauðfjárræktin skyldi vera óbreytt, ný viðfangsefni í íslenskum sveitum bæri að efla. En fréttir bárust víðar að. Þótt keisarinn væri ekki enn kominn í nýju fötin sín mátti hverjum vera ljóst að mikið stóð til. Í umr., sem fram fóru á Alþingi 21. febr. árið 1980 um lántökuheimild til handa Framleiðsluráði landbúnaðarins, komst hæstv. landbrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel að í þessu frv. birtist t.a.m. á engan hátt stundleg friðþæging, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson orðaði það. Hér er verið að greiða úr máli sem er m.a. erfðasynd þessa hv. þm. þegar hann var ráðh. Það er nauðsynlegt, að áður en ný stefna tekur að verka í landbúnaði sé búið að gera nokkurn veginn hreint borð miðað við það ástand sem nú ríkir.“

Það þurfti sem sagt aðeins að bera af borðum og færa upp í skápa og hillur það sem nothæft var, en auðvitað að fjarlægja með öllu stærsta hlutann af því dóti sem Alþfl. skildi eftir á borðum ráðh. Það mátti enginn óþrifnaður vera nálægt þegar nýja stefnan kæmi. Þá gæti svo farið að áhrif hennar yrðu allt önnur en stóru fyrirheitin segðu fyrir um.

Við framhald umr. um lántökuheimildina, sem fram fór 10. mars árið 1980, brugðu menn enn fyrir sig töfrabrögðum nýrrar heildarstefnu í landbúnaði. Þá komst hæstv. landbrh. þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Leitað verði samkomulags um viðunandi lausn á fyrirsjáanlegum vanda vegna halla á útflutningi búvara á þessu verðlagsári í tengslum við heildarstefnumótun í landbúnaði.“

Vandinn skyldi leystur með samkomulagi við bændur í tengslum við heildarstefnu í landbúnaði. Snoturt orðalag það!

En víðar að bárust bergmál boðskapar hins nýja tíma. Síðan núv. ríkisstj. tók við völdum hefur Búnaðarþing verið tvívegis kvatt saman, Stéttarsamband bænda þrisvar haldið aðalfund sinn, till. okkar sjálfstæðismanna um stefnu í landbúnaði þrisvar verið flutt og rædd á Alþingi. Við öll þessi tækifæri hefur landbrh. tilkynnt að á næstu grösum væri ný stefna ríkisstj., — stefna sem bera ætti með sér nýjan og ferskan blæ hins nýja tíma í málefnum landbúnaðarins. Allt er þá þrennt er, segir máltækið, og því hefur reyndar tengst af verið trúað. En nú kemur annað í ljós því að landbrh. hefur ekki einungis boðað stefnu sína tvívegis, heldur öllu fremur a.m.k. þrisvar sinnum, og þá loksins er stefnan komin á blað, eins og síðar verður að vikið.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að þeir, sem landinu stjórna, þ.e. meiri hluti Alþingis og ríkisstj., fylgja ákveðinni stefnu, og þegar svo er komið að stjórnarathafnir taka yfir þrjú ár, eins og nú er raunverulega, þarf ekki lengur að hlýða á yfirlýsingar né heldur bíða tillöguflutnings, — stefnan liggur fyrir.

Í lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í landbúnaði hefur fjárfesting farið minnkandi undanfarin tvö ár og er enn gert ráð fyrir nokkrum samdrætti á þessu ári. Samkv. spánni fyrir árið 1981 verður landbúnaðarfjárfesting svipuð og á árinu 1971, en um fimmtungi minni en hún hefur verið að meðaltali árin 1972–1980. Þessi samdráttur á m.a. rætur að rekja til þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið í landbúnaði að undanförnu, að draga úr framleiðslu búfjárafurða.“

Viðmiðunarárið, sem valið er, árið 1971, er þriðja lægsta framkvæmdaár í landbúnaði síðan árið 1965, aðeins tvö erfið kalár eru þar lægri, og skýrt er frá sagt að enn á að draga úr umbótum og það ráð á að nota til að draga úr búfjárframleiðslu.

Um það, hversu mikilvægt hagtæki til stjórnunar á landbúnaðarframleiðslu fjárfesting í landbúnaði er, er hægt að flytja langt mál. Sannleikurinn er nefnilega sá, að séu heildarstærðir fjárfestingar og framleiðslu bornar saman er ekki auðvelt að finna samræmi þar á milli, jafnvel þótt til lengri tíma sé litið. Umbætur í landbúnaði hverju sinni eru hins vegar innlegg til framtíðarinnar sem auðvelda þeim störf, er við taka, og styrkja þannig íslenskar sveitabyggðir, enda liggja, ef betur er að gáð, fyrir heimildir um að nálega öll fjárfesting í landbúnaði er nú til endurnýjunar á fjármunum í þeim atvinnuvegi. En allt um það, hin tilvitnuðu orð hér að framan skýra viðhorf ríkisstj. í þessum efnum.

Önnur mikilvæg heimild um stefnu ríkisstj. í landbúnaðarmálum eru fjárlög. Á valdatíma ríkisstj. hafa þrenn fjárlög verið afgreidd og þar af leiðandi mörkuð stefna að því er fjárlagagerð varðar til þriggja ára. Sé litið til fjárveitinga vegna búfjárræktarlaga, — og ég fagna því nú alveg sérstaklega að hæstv. fjmrh, skuli vera staddur hér og geta þannig fylgst með orðum mínum og staðreyndum í þeim efnum, — kemur í ljós að ógerlegt er að framkvæma þau verkefni, sem lögin ákveða og unnið er að, vegna þess að fjárveitingar eru ekki fyrir hendi. Þessi vöntun nam um síðustu áramót 449 291 kr. og á fjárveitingu samkv. fjárlögum þessa árs skortir 2 millj. kr. svo unnt sé að halda í horfinu. Eru þá enn ótalin mikilvæg verkefni sem falla undir búfjárræktarlögin, eins og hreinræktun Galloway-kynsins í Hrísey sem þörf er á að framrækta í landi.

Þá er ekki síður athyglisvert að líta á fjárveitingar til Búnaðarfélags Íslands. Ég hef fengið hagsýsluna til að reikna út fjárveitingar til félagsins, en þar kemur fram að þær hafa að raungildi farið sífellt minnkandi og er nú svo komið að einungis eitt ár á síðustu tíu árum er jafnlág fjárveiting til Búnaðarfélagsins og nú er á fjárlögum. Í þessum tveimur dæmum kemur fram mikilvæg afstaða ríkisstj. til félagsmála landbúnaðarins. Líklega er ekkert félagskerfi hér á landi eins fastmótað og félagasamtök í landbúnaði. Þar hafa bændur landsins byggt upp brjóstvörn ekki einungis til sóknar, heldur líka til varnar. Þar hafa fengist ráð til að móta, störf, áform og stefnur, fella viðfangsefni að nýjum aðstæðum og viðhorfum eftir þörfum íslenskrar þjóðar og hætti hins nýja tíma. Með því að þrengja að félagssamtökum bænda með sama hætti og gert er er í tvísýnu teflt með að þetta afl verði til staðar, og þá er sannarlega hætta í nánd. Einn árangursríkasti kostur, sem fyrir hendi er til að ná fram jafnvægi í framleiðslumálum landbúnaðarins og til að byggja upp nýjar búgreinar, ný viðfangsefni í sveitum landsins, er að beita félagsafli bændanna og skapa því svigrúm til að takast á við þau viðfangsefni. Að þrengja kosti þeirra samtaka væru hroðaleg mistök sem leiða mundu til mikils ófarnaðar.

Þegar lítið er til fjárveitinga til hagræðingar — og nú sé ég að hv. formaður þingflokks Framsfl. gengur í salinn og þykir mér það ánægjuefni. — og nýrra búgreina skýrist stefna ríkisstj. enn betur. Með breytingum á jarðræktarlögum árið 1979 var ákveðið að framlag samkvæmt þeim yrði verðtryggt miðað við fjárveitingar áranna 1978 og 1979. Ég hef fengið mjög nákvæma útreikninga frá Búnaðarfélagi Íslands um hvernig þessi fyrirheit hafa staðist í reynd. Þar kemur m.a. fram: Árið 1980 var hagræðingarfé til ráðstöfunar 4 millj. 964 þús. kr. Þá vantaði 130 þús. kr. til að lögunum væri framfylgt. Sambærilegar tölur fyrir árið 1981 voru til hagræðingar 7 millj. 600 þús., en það, sem á vantaði, voru 3 millj. 476 þús. kr. Árið 1982 eru til hagræðingar aðeins 1 millj. 127 þús. kr., en það, sem á skortir, eru 12 millj. og 1 þús. krónur. Þannig vantar 15 millj. 607 þús. kr. þessi þrjú ár til að staðið sé við fyrirheitin um hagræðingu og stuðning við nýjar búgreinar í landbúnaði.

Herra forseti. Nú legg ég til að hver og einn hv. alþm. rifji upp með sjálfum sér þær tilvitnanir sem að framan eru greindar í stjórnarsáttmála, stefnuræðu forsrh., yfirlýsingum landbrh. og reyndar mörgum fleiri yfirlýsingum sem tengdar eru stefnu núv. ríkisstj., og þá spyr ég: Dettur nokkrum lifandi manni í hug að taka mark á blaðri ríkisstj. um ný fyrirheit í landbúnaði, þeirrar sömu ríkisstj. sem hefur afrekað það í þessum málum að þurrka nálega út hagræðingarfé til þessara verkefna?

Afstaða Framsfl. til þessara fjárveitinga hefur vakið mikla athygli. Hinn orðvari formaður Framsfl. hefur a.m.k. tvívegis lýst því yfir að loforðin frá 1979 um hagræðingarfé til landbúnaðarins bæri að halda og fjárveiting samkv. fjárlögum ætti að vera sú sama og þá var ákveðið. Á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðið verði að fullu við lagaákvæði um fjármagn til nýrra búgreina og hagræðingar í landbúnaði.“

Fyrir aðalfundinn var enn til nokkurt fé til þessara verkefna. Með síðustu aðgerðum ríkisstj. varðandi niðurskurð fjárlaga var hagræðingarfé nálega þurrkað út. Fulltrúar á aðatfundi miðstjórnar Framsfl. hafa því fengið sitt svar. Ekki má heldur gleymast að allur þingflokkur Framsfl. greiddi atkv. á móti till. minni um að fjárveiting til hagræðingar í landbúnaði væri í samræmi við ákvæði laga og loforð frá árinu 1979. En spurningin er: Hvaða tala verður á næstu fjárlögum og hvernig falla atkvæði þá? Það verður gagnlegt fyrir fulltrúa á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. að fylgjast með því.

Í fjárlögum hefur ríkisstj. komið stefnu sinni víðar að. Árið 1979 skortir fyrst á að farið sé að lögum um fjárveitingar til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Nam sú vöntun þá 812 636 kr., árið 1980 vantaði 4 486 688 kr., árið 1981 vantaði 8 868 704 kr., og á þessu ári vantar 11.3 millj. Alls nemur niðurskurðurinn á fjárlögum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins þessi fjögur ár 25,7 millj. kr.

Það var ekki að ástæðulausu að búnaðarþingsfulltrúar hrykkju við þegar Gunnar Guðbjartsson fyrrv. formaður Stéttarsambands bænda skýrði svo frá, að því aðeins hefði af bænda hálfu verið fallist á þau lánakjör, sem tekin voru upp árið 1979, þ.e. fulla verðtryggingu, að ekki yrðu skertir tekjustofnar deildarinnar. Til þess að öruggt væri að rétt væri farið með orð þess heiðursmanns Gunnars frá Hjarðarfelli hef ég fengið útskrift úr bókun sem fyrir liggur, og staðfestir hún að hér er í einu og öllu rétt frá sagt.

Fyrir einu ári fór fram umræðuþáttur í sjónvarpi þar sem formaður Framsfl. var meðal þátttakenda. Þar lýsti hann því yfir, að það væri honum sérstakt ánægjuefni að sú stefna, sem hann hefði mótað meðan hann var landbrh., væri enn lögð til grundvallar málefnum landbúnaðarins. Hér sagði formaður Framsfl. rétt frá. Það var hann sem mótaði þessa stefnu. Það er stefna Framsfl. sem ræður í málefnum íslensks landbúnaðar.

Eins og áður er að vikið gerðust þau undur á síðasta degi aprílmánaðar, þeim hinum sama degi sem ríkisstj. hafði áformað sem lokadag þessa þings, að landbrh. lagði fram margboðaða till. um stefnumörkun í landbúnaði. Um efni hennar verður auðvitað fjallað þegar till. kemur til umræðu hér á Alþingi. Læt ég því að þessu sinni aðeins fá orð um till. nægja.

1. Margt í þessari till., bæði að því er varðar markmið og leiðir, er að stofni til það sama og till. okkar sjálfstæðismanna um stefnu í landbúnaði kveður á um. Sérstaklega fagna ég tveimur mikilvægum stefnumiðum, en þau komu fyrst fram í umr. um landbúnaðarmál í tillöguflutningi okkar árið 1979. Hér á ég við að tekið verði upp svæðaskipulag framleiðslunnar er lúti forsjá bændasamtaka í viðkomandi byggðarlögum og einnig að verðtryggingarheimildir verði ekki einvörðungu bundnar við útflutning á búvörum, eins og nú er, heldur verði jafnframt heimilað að nýta það fjármagn til að draga úr kostnaði við framleiðsluna innanlands eða annarra hliðstæðra þarfa.

2. Töluverðan fróðleik, m.a. um sölu og framleiðslu búvara, er að finna í skýringum með till., sem er gagnlegt að hafa á einum stað þegar um málefni landbúnaðarins er fjallað.

3. Verulega skortir á að skýringar um þróun þess umhverfis, er landbúnaðurinn býr við innan hagkerfisins, séu fullnægjandi, en ómögulegt er að vera án þeirra þegar móta á stefnu í landbúnaði til lengri eða skemmri tíma. Af þessu leiðir að ýmsar mikilvægar ábendingar og tillögur byggjast á röngum forsendum, en það veikir tillögugerðina í heild.

4. Við mat á till. út frá pólitískum og félagslegum viðhorfum er augljóst að verulega er vikið frá grundvallarskilningi og stefnu Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum. Hér á ég m.a. við þá tilhneigingu að auka áhrif stjórnvalda, en draga að sama skapi úr sjálfsögðum rétti bændanna sjálfra til ákvörðunar í eigin starfi.

Mikið vantar á og mörgu þarf að breyta í till. eigi Sjálfstfl. að geta léð henni stuðning, enda mála sannast að till. okkar sjálfstæðismanna um stefnu í landbúnaði er bæði víðtækari, skýrari og jákvæðari í garð landbúnaðarins. Frá þeim stefnumiðum, sem þar eru fram sett, mun Sjálfstfl. ekki víkja.

Tillöguflutningi ríkisstj. um stefnu í landbúnaðarmálum ber hins vegar að fagna. Við umfjöllun um hana skýrist hvort leiðir skilja varðandi málefni í íslenskum landbúnaði. Auðvitað er það vilji meiri hl. Alþingis sem þar ræður sem í annan tíma. En fari svo að honum verði í þessu máli beitt verður það landbúnaðarstefna vinstri aflanna á Alþingi sem samþykkt verður. Sjálfstfl. hefur bæði rétt og skyldur til að skýra stefnu sína í kosningum til Alþingis og þá gefst bændum sem og öðrum kjósendum kostur á að fella sinn dóm.

Þótt eðlilegt sé að meta stefnu ríkisstj. eins og hún hefur verið gagnvart landbúnaðinum og einnig að gá til veðurs, þegar til framtíðar er litið, eru þó sölu- og framleiðslumál landbúnaðarins og lausn þess vanda það nærtækasta í málefnum hans. Nauðsynlegt er að fá skýringar á yfirlýsingum hæstv. landbrh., sem hann hefur viðhaft á nýliðnum vetri. Í ávarpi sínu við setningu Búnaðarþings komst ráðh. að orði m.a. á þessa leið:

„Það hefur verið alveg skýrt, hver stefnan hefur verið í framleiðslumálum landbúnaðarins tvö s.l. ár, þ.e. að mjólkurframleiðslan miðist víð þarfir innanlandsmarkaðar og að framleiðsla sauðfjárafurða verði með svipuðum hætti og verið hefur.“

Þessa skoðun staðfestir ráðh. svo í viðtali í Ríkisútvarpinu skömmu eftir að Búnaðarþingi lauk, en þar komst ráðh. svo að orði:

„Ég hef þó talið að það séu ekki forsendur fyrir því enn þá að hverfa frá þeirri stefnu, sem við höfum haft í framleiðslumálum sauðfjárins, þannig að fara að draga verulega saman sauðfjárframleiðslu bænda eins og nú standa sakir, meðan ekki er reynt á markaðsöflun frekar en gert hefur verið.“

Ég hef hér að framan rakið yfirlýsingar ríkisstj. allt frá því að hún birti íslensku þjóðinni stjórnarsáttmála og til þess boðskapar er frá henni hefur borist á þessum vetri. Ég hef enn fremur borið þessar yfirlýsingar saman við gerðir ríkisstj. þann tíma sem hún hefur farið með völd í landinu. Það er óumdeilanleg staðreynd, að orð og efndir stangast á. Það dylst ekki nokkrum einasta manni sem á því mikla láni að fagna að vera gæddur heilbrigðri hugsun. Þessi er m.a. ástæðan fyrir þeim ábyrgðarlausu yfirlýsingum sem frá ríkisstj. hafa komið um að engra breytinga þurfi við m.a. í sauðfjárræktinni.

Í grg. með till. er lögð áhersla á nokkra efnisþætti sem á vissan hátt leggja grundvöll að ákvörðun um endanlega hagkvæmni í sauðfjárrækt. Hér er m.a. átt við framleiðslukostnað, skipulag framleiðslunnar og markaðsmál. Það starf, sem hér er lagt til að unnið verði, miðar að því að leggja grundvöll að þeim ákvörðunum sem taka verður í haust, ef spá framleiðsluráðs um framleiðslu og sölu kindakjöts rætist. Í þessu sambandi er fróðlegt að íhuga hina ýmsu kostnaðarþætti við framleiðslu kindakjöts samkvæmt verðlagi þess 1. mars s.l. Þar kemur í ljós að hlutur bænda er einungis 33% af útsöluverði kindakjöts, annar framleiðslukostnaður nemur 39.7%, slátur- og heildsölukostnaður 17.9%, smásölukostnaður 7.6% og sjóðagjöld 1.8%. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst, að það er að ýmsu fleira að hyggja en bara launum bóndans. Ég endurtek, herra forseti: Það er að ýmsum fleiri kostnaðarþáttum að hyggja en einungis launum bóndans þegar þessi mál eru metin og um þau fjallað.

Hér verða engir dómar um það felldir, hvort sá kostnaður, sem fellur á framleiðsluvörur sauðfjárafurða frá síðasta handtaki bændanna þar til varan er komin á disk þess sem neytir, sé of mikill. En hitt segi ég hiklaust að ef og þegar þarf að skerða skilaverð er mjög langt frá því að það sé sjálfsagt að slíkt komi einungis niður á framleiðendum vörunnar og allir aðrir fái sinn hlut að fullu bættan. Á þetta legg ég áherslu og þá m.a. í trausti þess, að sláturleyfishöfum og raunar verslunar- og viðskiptaaðilum verði gerð grein fyrir því í tæka tíð, að þeim kostnaðarþáttum, sem falla á vöruna í vinnslu, dreifingu og sölu, verði haldið innan ákveðinna marka. Fyrirmæli hér að lútandi verða að liggja fyrir í tæka tíð svo að þessir aðilar geti aðlagað rekstur sinn slíkum aðstæðum.

Hér að framan hefur verið fjallað um vanda þessa árs. Ég á alveg eins von á að þær mótbárur heyrist hér á eftir, að ýmsu því, sem þar er tilgreint, sé hægt að ráða til lykta án þess að um það fjalli nefnd skipuð af þingflokkunum. Hitt er aftur á móti augljóst, að ef þau viðhorf, sem nú blasa við í útflutningsmálum búvara, breytast ekki verulega til betri vegar verður ekki hjá því komist að taka á hausti komanda ákvarðanir sem snerta framleiðslu sauðfjárafurða á árinu 1983, þ.e. ef menn ætla ekki að láta þessi mál öll reka á reiðanum. Slíkar ákvarðanir snerta ekki nema að nokkru stjórnartímabil núv. ríkisstj., þar sem því lýkur í síðasta lagi á næsta ári. Þess vegna m.a. er auðvelt að finna ráð til að spyrna boltanum út af eða bjarga í horn, framlengja vandann, fresta ákvörðun. Það er líka augljóst, að í lok kjörtímabils, lok stjórnarsetu, eru miklir annmarkar á fyrir hvaða ríkisstj. sem er að gera markvissar ráðstafanir í málum sem þessum, m.a. vegna þess að auðvitað hljóta þær ætíð að orka tvímælis og eru þess vegna oft og tíðum haldgott tækifæri til að ná höggi á andstæðing í kapphlaupi um atkvæði þegar kosningar eru í nánd. Þessi er í raun meginorsök fyrir flutningi till. á þskj. 629. Menn kunna e.t.v. að segja að till. sé of seint fram komin til að unnt verði að afgreiða hana á þessu þingi. Auðvitað væri ákjósanlegt ef till. gæti hlotið eðlilega umfjöllun og afgreiðslu. En nefndaskipun eins og till. gerir ráð fyrir er hægt að koma á þótt formlegt samþykki Alþingis sé ekki fyrir hendi. Í því sambandi er vert að benda á samkomulag þingflokkanna frá því fyrir ári um skipun nefndar sem fjallaði um landgræðsluáætlun þá sem nýlega var afgreidd.

Herra forseti. Með flutningi till. á þskj. 629 um skipun nefndar vegna erfiðleika í sölu búvara hefur Sjálfstfl. lýst skyldum sínum og vilja gagnvart bændunum í þessu landi. Sjálfstfl. er reiðubúinn að starfa að úrlausn þeirra mála á þeim grundvelli sem þar er lagt til. Verði því hafnað er ábyrgðin á höndum ríkisstj. Af hennar till. og fyrirætlunum er Sjálfstfl. hvergi bundinn.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. atvmn.