03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4553 í B-deild Alþingistíðinda. (4322)

289. mál, söluerfiðleikar búvara

Landbrh. (Pálmi Jónson):

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm. hefur mælt fyrir till. til þál. um skipun nefndar vegna söluerfiðleika búvara. Í ræðu sinni fór hv. frsm. nokkuð vítt yfir landbúnaðarmálin, en fjallaði að litlu leyti um það efni sem till. greinir. Ekki varð heldur vart í máli hans að fram kæmu neinar tillögur um viðbrögð við þeim vanda, sem við er að etja í þessum málum, utan það að skipa til þess nefnd að fjalla um þetta viðfangsefni. Er þó þessi vandi ærinn og ætla hefði mátt að hv. þm. hefði myndað sér einhverjar skoðanir um á hvern hátt væri vænlegast að mæta þessum vanda.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um ræðu hv. flm. þessarar till. í löngu máli. Ég vil þó í örfáum orðum drepa á nokkur þeirra atriða sem hann kom inn á í ræðu sinni, án þess að ég sjái ástæðu til þess á þessum kvöldfundi og svo síðla þings að hefja almenna umræðu um landbúnaðarmál.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að dregist hefði að leggja fram till. til þál. um stefnumörkun af hálfu ríkisstj. Þetta er út af fyrir sig rétt. Þetta hefur dregist sumpart vegna þess að þeir, sem að ríkisstj. standa, hafa ekki nákvæmlega sömu skoðun á öllum þeim málum sem taka þarf á í till. af þessu tagi, en einnig vegna þess að viðhorf og möguleikar íslensks landbúnaðar hafa verið að breytast. Þess vegna hefur þurft að bregðast víð nýjum viðhorfum í gerð slíkrar till., og á það sinn þátt í að hún er seint fram komin. Þessi till. liggur þó fyrir og verður væntanlega ekki tekin til afgreiðslu á þessu þingi, en hún liggur þó fyrir öllum hv. alþm.

Hv. þm. sagði um þessa þáltill, að um margt væri hún í samræmi við stefnu Sjálfstfl. í þessum málum, en Sjálfstfl. hefur flutt till. til þál. um stefnu í landbúnaði nokkrum sinnum. Þetta er kannske ekki neitt einkennilegt vegna þess að ég var 1. flm. að þeirri till., sem Sjálfstfl. flutti á sínum tíma, og eru kjarnaatriðin öll sótt þangað í þeirri till. sem hv. 11. landsk. þm. hefur verið 1. flm. að nú að ég hygg tvívegis eða kannske þrívegis. Þess vegna þarf þetta ekki að koma mjög á óvart. Hvort till. sjálfstæðismanna eins og hún liggur nú fyrir, sé skýrari og víðtækari skulum við ekki dæma um í kvöld og ekki fara að ræða það sérstaklega, en ég lít þó svo á að a.m.k. sumt, sem varðar útfærslu þeirrar till., standist tæpast eins og aðstæður eru og leggja þurfi meiri áherslu á annað en þar er sums staðar gert að höfuðatriðum. Þó eru grundvallaratriðin þar hin sömu um margt og í þessari till., og þau grundvallaratriði hygg ég að flestir, sem vilja veg íslensks landbúnaðar, geti sameinast um og þurfi ekki að vera ágreiningur um það milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga.

Hv. þm. fór hér með tölur varðandi búfjárræktarlög, hagræðingarfé og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég tel að hv. þm. hefði vel mátt minnast þess, að það hefur verið mikill hali óuppgerður á grundvelli búfjárræktarlaga á undanförnum árum, en þessi hali var að heita mátti gerður upp fyrir síðustu áramót. Varðandi hagræðingarfé hygg ég að sé best að láta sjá þegar lengra líður á árið hvað miklu fé verður varið í þessu skyni. Skal ég geyma mér að svara því frekar þangað til þeir tímar koma. Varðandi Stofnlánadeildina er öllum ljóst að frá 1979 hafa verið skert framlög ríkisins til fjárfestingarsjóða í landinu og gildir það um Stofnlánadeild landbúnaðarins eins og aðra fjárfestingarlánasjóði. Það er þess vegna ekki uppí nein sérstefna varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins hvað þetta snertir, heldur er þetta algild regla við afgreiðslu fjárlaga varðandi stofnlánasjóðina, eins og kunnugt er. — Þessi atriði vildi ég taka fram og þarf raunar ekki fleira að taka fram um meginhluta af þeirri ræðu sem hv. þm. flutti hér.

Hann sagði að vísu að alvarlegir söluerfiðleikar væru á landbúnaðarafurðum. Það hefði átt að vera meginmál í hans máli, miðað við þá till. sem hann var að mæta fyrir. Það er rétt, að samkvæmt áætlun framleiðsluráðs er gert ráð fyrir að 81 millj. kr. skorti til þess að fullt verði náist fyrir framleiðslu þessa verðlagsárs. Þetta er fyrsta áætlun, og stundum hefur borið við að þær áætlanir hafa ekki reynst nákvæmar. Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi. Þetta er mikil upphæð, en það hefur stundum borið við að sú fjárhæð hefur orðið lægri en fyrstu spár hafa sagt til um.

Ég ætla ekki að greina neitt frá því á þessu stigi, á hvern hátt þessum vanda verði mætt. Hitt liggur fyrir, að varðandi síðasta verðlagsár var útvegað lánsfé sem nemur 20 millj. kr. til að greiða verulegan hluta af því sem þá vantaði eftir að útflutningsbótafé var fullnýtt. Þá komu einnig til verulegar fjárhæðir úr kjarnfóðursjóði, sem drógu úr þeim vanda sem við var að fást, þannig að aðeins skorti liðlega 10 millj. kr. til þess að gera upp þannig að fullt verð gæti náðst. Hver niðurstaðan verður varðandi þetta verðlagsár ætla ég ekki að spá um. En ég vek athygli á því, að það hafa ekki verið lagðar fram tillögur til að mæta þessum vanda fyrr en sést í raun, þegar lengra líður á verðlagsárið, hver niðurstaðan muni verða, og það hygg ég að ekki sé að fullu ljóst enn þá. Það er ekki enn þá að fullu ljóst hvað útflutningsuppbætur verða háar, hvað útflutningsbótarétturinn verður mikill, og það er ekki enn að fullu ljóst hvað það verður mikið sem skortir á að það verð náist sem gert er ráð fyrir. Hér er aðeins um áætlun að ræða og sú áætlun er vissulega alvarleg.

Hv. þm. taldi að ýmislegt í störfum núv. ríkisstj. hefði farið í öfuga átt varðandi þau viðhorf sem við væri að etja í þessum efnum. Hann taldi að þeirri stöðu í markaðsmálum, sem við búum við, hefði verið mætt m.a. með því að fjárfesting hefði dregist saman, það hefði verið dregið úr búfjárframleiðslu. Hann taldi að það væri hneigð til þess, að afskipti ofan frá yrðu meiri og bændur væru ekki eins sjálfráðir og áður. Mjög æskilegt hefði verið að hv. þm. hefði bent á eitthvað annað sem hefði átt að koma í staðinn til þess að ráðast gegn þeim vanda sem vissulega er við að etja. Vill hv. þm. að fjárfesting í landbúnaði sé aukin, að það sé reynt að auka fjárfestingu í landbúnaði til að mæta of mikilli framleiðslu eða meiri framleiðslu en við höfum góðan markað fyrir? Vill hv. þm. að losað sé um þau tök sem gert er ráð fyrir að unnt sé að hafa á framleiðsluþróun miðað við framleiðsluráðslög og beitt hefur verið ýmist að frumkvæði og gersamlega undir stjórn bændasamtakanna sjálfra eða að frumkvæði stjórnvalda með sérstakri löggjöf sem síðan hefur verið framkvæmd af bændasamtökunum? Vill hann hverfa frá þessu eða hvað er það sem hann á við? Ég verð að játa það, að enda þótt hv. þm. eigi sjálfsagt því stóra láni að fagna, svo notuð séu hans eigin orð, að eiga heilbrigða hugsun, þá skildi ég ekki hvað hann var að fara.

Ég skal ekki draga úr því, að við mikinn vanda er að eiga. Við höfum tekið á þessum vanda á undanförnum árum þannig að við höfum dregið saman mjólkurframleiðsluna þannig að hún er sem næst við hæfi innlenda markaðarins. Að vísu er nú aukning í mjólkurframleiðslu miðað við það sem var á síðasta ári, en ekki er enn vitað hvort þar er um árstíðabundna sveiflu að ræða eða varanlega framleiðsluþróun. Ég tel að það hafi ekki verið um annað að ræða en að ná þessu marki — og það tókst. Við náðum því marki að mjólkurframleiðslan er sem næst við hæfi innlenda markaðarins. Ég tel að það séu ekki markaðsleg skilyrði til þess, því miður, að við getum aukið mjólkurframleiðsluna fram yfir þetta mark. Þá gerist annað tveggja að við verðum að hlíta því, að verulega vanti á verðið eða grípa verður til annarra ráða eða frekari ráða en beitt hefur verið til þessa til að hafa hemil á framleiðslumagni. Því miður eru markaðsaðstæðurnar þannig varðandi mjólkurframleiðsluna.

Ég hef haldið því fram, að víð þyrftum að halda sauðfjárframleiðslunni sem næst í svipuðu horfi og hún hefur verið. Sauðfjárframleiðslan hefur þó dregist verulega saman. Sauðfjáreign í landinu hefur dregist saman um nálega 100 þús. fjár og er það sem svarar um 1500 tonnum af kindakjötsframleiðslu. Ég tel að við getum þolað að kindakjötsframleiðsla dragist eitthvað meira saman, en ég hef ekki enn gert það að stefnuatriði. Vel má vera að ekki verði undan því vikist, ef okkur tekst ekki að finna markaði. Það stendur yfir vinna í því efni og vonandi tekst okkur að finna markaði sem verða nýtanlegir til þess að selja það framleiðslumagn sem nú er eða sem næst því.

Vegna þess að hv. þm. fór raunar ekkert inn á þessi efni málsins er engin ástæða fyrir mig að vera að flyt ja hér um það mikla ræðu. En ég tel að hér sé um stórkostlegt mál íslensks landbúnaðar að ræða, hvort okkur tekst að halda mörkuðum eða finna nýja markaði þannig að framleiðslumagn landbúnaðarins geti sem mest staðist miðað við það magn sem verið hefur síðustu tvö árin. Ef þetta tekst ekki verðum við að taka því.

Það er svo annað mál, að við höfum einnig mætt þessu ástandi með eflingu annarra búgreina. Í till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði eru þeim málum gerð allítarleg skil, á hvern hátt þurfi að stefna að því marki. Ég tel að sérstaklega loðdýraræktin, refaræktin, virðist lofa góðu. Það þarf að bæta stöðu hennar og er gerð grein fyrir því í stefnumörkun ríkisstj. á hvern hátt það skuli gert. Víð skulum minnast þess, að fyrstu refabúin eftir langt hlé voru stofnuð haustið 1979, örfá til tilrauna, en á þessu ári verða veitt leyfi fyrir 50–60 nýjum refabúum og á þessu ári verður væntanlega varið fjármagni, sem nemur um 14 millj. kr., til að efla þessa grein. Á sama hátt hefur á undanförnum árum, sérstaklega síðustu tveimur árum, verið varið verulegu fjármagni til að efla fiskrækt og fiskeldi. Enn fremur þurfum við að huga að öðrum þeim greinum sem náttúra landsins sjálfs og þau skilyrði, sem landið býr yfir, geta lagt til til að standa undir lífskjörum fólksins um dreifðar byggðir landsins. Þar með er athliða nýting hlunninda og að halda á þeim málum þannig að unnt sé að fá af þeim meiri afrakstur. Þar eru greinar sem vissulega þarf að líta vel eftir og nýta til tekjuöflunar.

Ég tel að í þessum málum sé margt að gerast og mikil vinna sé í gangi. Við höfum sérstaka nefnd, markaðsnefnd, til að sinna þeim mikla vanda sem við er að fást í markaðsmálunum. Ég er ekki að segja að markaðsnefnd, eins og hún er skipuð, leysi allt. Það er ekki mögulegt. Hún vinnur þó gott starf. Ég tel að það þurfi að athuga gaumgæfilega fleiri þætti til markaðsöflunar en hún getur af hendi leyst. Að því er stefnt. Hvort árangurinn verður nægilega góður verður reynslan að leiða í ljós, en við megum ekki láta undir höfuð leggjast að sinna þeim málum á þann hátt að gengið sé úr skugga um, eftir því sem mögulegt er, hverjir möguleikar okkar eru á þessum sviðum.

Varðandi það meginefni þessarar till., að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til að fjalla um þau, hefur Alþingi sjálfsagt stundum kosið nefnd af minna tilefni. Eigi að síður tel ég ekki að það mundi leysa sérstakan vanda, og miðað við þá ræðu, sem hv. 1. flm. þessarar till. flutti hér, þar sem ekki varð vart neinna hugmynda, ekki einnar einustu hugmyndar um á hvern hátt skyldi á vandanum tekið, fæ ég ekki séð að það séu neinar bendingar í þá átt, að kosning slíkrar nefndar mundi skila árangri umfram þá vinnu sem nú er í gangi varðandi þessi mál.