04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

251. mál, hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjöldum ÍSALs

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. forsrh. Ég tók eftir því, að hann lýsti yfir að fullur vilji væri af hálfu ríkisstj. að taka upp viðræður á ný við Hafnarfjarðarbæ. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að það náðist samkomulag á milli fulltrúa ríkisstj., þ.e. fulltrúa iðnrn. og fjmrn. sem tilnefndir voru í þessar viðræður, og fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar um það, hvernig ætti að reikna þær breytingar sem hér um ræddi. Hins vegar töldu fulltrúar ríkisins í þessum samningaumræðum sig ekki hafa umboð til að taka afstöðu til kröfu Hafnarfjarðarbæjar.

Ég tel augljóst að endurskoðunarákvæði nú, sem krafa Hafnarfjarðarbæjar byggist á, sé ætlað að tryggja að sú samsvörun, sem var milli skatta, fasteignaskatta og teknanna sem Hafnarfjarðarbær fékk, haldist. Ég held að það sé enginn vafi á því, að þegar samkomulagið var gert á sínum tíma var við þetta miðað. Það má reyndar sjá í blöðum frá þessum tíma hugmyndir sem lagðar voru fram á viðræðufundum Hafnarfjarðarbæjar með iðnrn. á þessum tíma þar sem þetta kemur mjög glöggt fram. Þar segir: „Fari svo að framreiknað fasteignamat, eins og það er lagt til grundvallar við álagningu fasteignaskatta, breytist til hækkunar umfram breytingar á gengi bandaríkjadollars gagnvart krónunni skal heimilt að endurskoða fjárhæð þá, sem kemur í hlut Hafnarfjarðarbæjar af gjaldinu óskiptu, með hliðsjón af breytingum eftir 1. jan. 1976 á framreiknuðu fasteignamati annars vegar og gengi bandaríkjadollars hins vegar.“ Ljósara getur þetta ekki verið.

Ég tel að það sé þess vegna augljóst hvernig framkvæma skuli þessa endurskoðun, það liggur fyrir. Samningamennirnir komust líka að niðurstöðu um það, hvernig þetta ætti að gerast. Það, sem til þarf, er vitji ríkisstj. til þess að fara eftir ákvæðum samkomulagsins frá því í maímánuði 1976.

Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því, að þessar viðræður verði nú teknar upp að nýju og þessi endurskoðun verði framkvæmd í samræmi við samkomulagið frá því í maímánuði 1976. Það hefur enn fremur verið ósk Hafnarfjarðarbæjar, að lagaleg staðfesting fengist á því samkomulagi sem hér var gert, m.a. vegna þess að annað veifið hafa fulltrúar fjmrn. vitnað til þess, að slíka lagalega staðfestingu skorti. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. sé mér sammála um að það sé bæði rétt og eðlilegt að slík lagaleg staðfesting fáist. Og ég vænti þess, að hann muni í framhaldi af því, að þessi endurskoðun eigi sé nú stað, beita sér fyrir lagasetningu af þessu tagi.

Ég tel, herra forseti, að óheyrilegur dráttur hafi orðið á því, að ákvæði samningsins milli iðnrn. og Hafnarfjarðarbæjar frá því í maímánuði 1976 væri fullnægt að því er endurskoðunina varðaði, óheyrilegur dráttur hafi orðið á því, að þessi endurskoðun yrði framkvæmd. Það er náttúrlega óviðunandi með öllu fyrir Hafnarfjarðarbæ. Verður að vænta þess, í samræmi við það sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að hann beiti sér fyrir því, að nú verði frá þessu máli gengið.