04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (4329)

251. mál, hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjöldum ÍSALs

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það, sem hv. 2. þm. Reykn. hefur sagt hér í sambandi við álgjaldið til Hafnarfjarðarbæjar, og taka undir það sem fram hefur komið, að það er enginn vafi á því, hvernig þetta skal reiknað út. Og það sem meira er, það hefur komið fram að í viðræðum fulltrúa fjmrn. og iðnrn. og fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar var fullt samkomulag um það, hvað út úr dæminu ætti að koma samkvæmt þeim reikniaðferðum sem við skyldi hafa. Hæstv. forsrh. sagði að vilji væri fyrir hendi til þess að fá þetta mál leyst. Hann hefur haldið upp á setninguna: Vilji er allt sem þarf. Við skulum vona að það reynist hér.