04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (4330)

378. mál, stöðuveiting stöðvarstjóra Pósts og síma á Ísafirði

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 610 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um stöðuveitingu stöðvarstjóra Pósts og síma á Ísafirði. Fyrirspurnin er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„1. Hvaða ástæður liggja að baki þeirri ákvörðun samgrh. að ráða í starf stöðvarstjóra Pósts og síma á Ísafirði umsækjanda sem hefur skemmri starfstíma að baki en tveir aðrir umsækjendur sem starfsmannaráð hafði einnig mælt með?

2. Telur ráðh. ekki umhugsunarefni þegar starfsmaður segir upp starfi sínu vegna þess að honum er misboðið við veitingu starfs innan stofnunarinnar, eftir 30 ára starfstíma, og er hér ekki um skýlaust brot að ræða á lögum nr. 78/1976 um jafnan rétt karla og kvenna?“

Forsaga þessa máls er sú, að 6. nóv. 1981 var í Lögbirtingablaðinu auglýst laus staða stöðvarstjóra Pósts og síma á Ísafirði. Umsóknarfrestur var til 24. nóv. Sex umsækjendur sóttu um starfið, fjórar konur og tveir karlar. Það hefur komið fram að póst- og símamálastjóra var sent málið til umsagnar og einnig að starfsmannaráð Póst- og símamálastofnunarinnar hafði verið beðið um tillögur. Starfsmannaráðið veitti þremur umsækjendum atkvæði sitt, tveimur konum, Lilju Jakobsdóttur og Ingu Þ. Jónsdóttur, og einum karli, Kristmanni Kristmannssyni. Póst- og símamálastjóri lagði til að einum þessara þriggja umsækjenda yrði veitt staðan. Hæstv. samgrh. veitti Kristmanni Kristmannssyni stöðuna. Þó höfðu þær Lilja og Inga báðar 10 árum lengri starfsferil að baki en Kristmann.

Það verður að líta svo á, eins og málið horfir við almenningi, að eðlilegt hefði verið að ráða aðra hvora konuna til starfsins. Inga hefur starfað við stofnunina í um 30 ár og var áður stöðvarstjóri í Hnífsdal, en sú stöð hefur verið lögð niður. Lilja hefur svipaðan starfsaldur, um 30 ár, og er nú ritari umdæmisstjóra. Það kom einmitt í hennar hlut að setja Kristmann inn í starfið eftir að hann var ráðinn.

Það er því eðlilegt að Jafnréttisráð hafi krafið hæstv. samgrh. um skýringar, sem það gerði með bréfi dags. 18. febr. s.l., og spurt hvers vegna hann velur af þremur hæfum umsækjendum þann sem hefur stystan starfsaldur. Í svarbréfi hæstv. samgrh. til Jafnréttisráðs kemur fram að allir umsækjendur séu hæfir til að gegna téðu starfi. Svar hæstv. samgrh. til Jafnréttisráðs kemur fram í niðurlagi bréfs hans. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Við umfjöllum starfsmannaráðs fengu þrír umsækjendur atkvæði, þau Lilja Jakobsdóttir, Kristmann Kristmannsson og Inga Þ. Jónsdóttir. Í bréfi til rn., dags. 4. jan. þ.á., leggur póst- og símamálastjóri til að einum þeirra umsækjenda, sem atkvæði fengu í starfsmannaráði, verði veitt staðan, það var mat samgrh., að allir þessir umsækjendur væru hæfir til að gegna téðu starfi.“ Og síðan kemur svarið: „Að vandlega athuguðu máli ákvað samgrh. að skipa Kristmann Kristmannsson í stöðu stöðvarstjóra Póst- og símamálastofnunarinnar á Ísafirði.“

Svo mörg voru þau orð. Ég get tekið undir orð Lilju þegar hún segir í viðtali við Morgunblaðið 4. apríl s.l. að svar hæstv. ráðh. sé marklaust, hann hefði alls ekki svarað því sem hann hefði verið spurður um. Samkvæmt lögum um Jafnréttisráð ber því að bregðast við slíkum málum og gæta hagsmuna kvenna sem karla ef um misrétti kynjanna er að ræða varðandi stöðuveitingar. Fram að þessu hafa slík mál fyrst og fremst komið niður á konum, Jafnréttisráð hefur skrifað tvö bréf til hæstv. samgrh., það síðara til að ítreka spurningar sínar frá fyrra bréfi sem ekki var svarað á viðhlítandi hátt.

Það var þetta með vandlega athugaða málið. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Síðara bréf Jafnréttisráðs er dagsett 22. mars. Svar hefur ekki borist ráðinu enn þó að nú sé liðið á annan mánuð síðan það bréf var ritað.

Alþingi setur lög, og það er lágmarkskrafa að þeir, sem þar starfa, þm. og eða ráðherrar, lítilsvirði ekki eigin verk og hundsi lög eins og hæstv. ráðh. gerir í þessu tilviki. Alþingi á kröfu á að hæstv. samgrh. gefi viðhlítandi svör við þeirri spurningu sem Jafnréttisráð hefur lagt fyrir hann, að ekki sé minnst á þá aðila sem málið varðar. Því eru þessar fyrirspurnir lagðar fram.