04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4569 í B-deild Alþingistíðinda. (4338)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er árviss þáttur störfum Alþings að hæstv. forsrh. geri grein fyrir þessu vandræðabarni íslenska stjórnkerfisins. En hvað sem má um þetta vandræðabarn segja, þá skal það sagt því til hróss, að sú skýrsla, sem gefin er út árlega, er að því leyti til mikillar fyrirmyndar, að þar eru greindir lánþegar eða styrkþegar þessarar stofnunar, þannig að allur almenningur, sem Morgunblaðið kallar eigenda þessarar stofnunar, getur flett því upp. Að þessu leyti gætu aðrar lánastofnanir tekið sér þessa stofnun til fyrirmyndar. En þá hygg ég líka að það, sem til fyrirmyndar er um stofnunina, sé upp talið og mig langar í örstuttu máli að koma að því.

Í þessari skýrslu, sem dreift var hér fyrir viku eða svo og hæstv. forsrh. hefur nú gert grein fyrir, er í fyrsta skipti inngangur frá forstjóra stofnunarinnar, sem er raunar eins konar pólitísk vörn — apologia — fyrir þessa stofnun. Í þessum inngangi hygg ég, eins og oft vilt verða um pólitískar varnir, einkum fyrir vondan málstað, að beinlínis sé hallað réttu máli. Það er hallað réttu máli á bls. 6, þegar þar er sagt með leyfi hæstv. forseta:

„Það er staðreynd, að Framkvæmdastofnun ríkisins varð aldrei að því bákni sem stjórnarandstæðingar í Alþingi 1971 óttuðust að hún yrði.“

Hér fullyrði ég að rangt er með farið. Þarf ekki annað en vísa í þær umræður sem urðu á Alþingi. Ég vil ekki aðeins nefna flokksbræður mína, jafnaðarmenn. Ég vil nefna fyrrv. hv. þm. Magnús Jónsson frá Mel sem hélt uppi mjög skeleggri gagnrýni á sínum tíma. Hér er sagt að Magnús hafi haft rangt fyrir sér og ekki verið spádómsgáfu búinn. Þetta hygg ég að sé rangt hjá forstjóra Framkvæmdastofnunar. Framkvæmdastofnun er, ef eitthvað er, orðin meira bákn og ískyggilegra en hörðustu gagnrýnendur hennar óttuðust í upphafi. Og mér finnst satt að segja að Magnús Jónsson bankastjóri frá Mel verðskuldi allt annað en þann löðrung sem honum er veittur í þessum inngangi.

Í annan stað er sagt hér og sagt réttilega — ég nefni aðeins þennan inngang vegna þess að þar eru saman dregnar nokkrar veigamiklar athugasemdir um stofnunina — að menn hafi gagnrýnt það upphaflega að verið var að koma á svokölluðu „kommissarakerfi“ þ.e. pólitískum legátum sem færu þar með pólitísk völd langt umfram það sem eðlilegt gæti talist. Það er réttilega sagt hér í inngangi, að þetta hafi verið gagnrýnt í upphafi. Ég held að ég fari rétt með það, að einn af gagnrýnendum hafi verið hæstv. núv. forsrh. Þetta „kommissarakerfi“ var á sínum tíma fólgið í því, að þrír menn frá þremur þáv. stjórnarflokkum voru gerðir að framkvæmdastjórum. En hvað sem má segja um þá stjórn og aðdraganda þessa máls, þá voru þeir þó gæddir því siðferðisþreki, að þeir véku þegar ríkisstj. vék. M.ö.o.: þessi stofnun laut öðru pólitísku valdi eða pólitísku valdi í landinu. Breytingin, sem gerð var 1976, — hér segir að „kommissarakerfið“ hafi verið afnumið, ég segi ranglega, — hún var sú, að „kommissarar,“ sem auðvitað voru nákvæmlega eins og hinir nema frá öðrum flokki, voru æviráðnir. Það er tekin upp sú skipan að æviráða „kommissara,“ sem áður lutu því pólitíska lögmáli að víkja með ríkisstjórn. Ég fullyrði að það er rangt, að hér hafi verið komið til móts við gagnrýni Magnúsar Jónssonar frá Mel frá 1971. Í besta falli er verið að gera hróplegt gys að því, sem hann sagði þá réttilega, með það að „kommissararnir“ — sem eftir sem áður voru þm., þeir voru það þó ekki allir 1971 — voru æviráðnir. Þeir lúta ekki tengur valdahlutföllum á Alþingi. Hér á fyrstu síðu, framan við innganginn, er þess raunar getið með stjörnu, að hinn „kommissarinn“ sé í leyfi, hafi verið veitt það að eigin ósk frá árinu 1980, hvernig sem á því stendur.

Kjarni málsins í þessum efnum er sá, að þessi stofnun gengur á svig við aðra þætti í stjórnkerfinu. Nú skal greint frá því, hvernig það er. Þessi stofnun er í raun eins konar byggðamálaráðuneyti. Hún hefur alla starfsemi ráðuneytis. Gott og vel, við gætum hugsanlega verið sammála um að í landinu eigi að vera byggðamálaráðuneyti sem gegni ákveðnum störfum. (Gripið fram í: Við höfum Framsfl.) Já, það er að vísu rétt að við höfum Framsfl. gott betur og framsóknarmenn víðar en í Framsfl. raunar. En málið er það, að þessu byggðamálaráðuneyti hefur verið komið upp, en byggðamálaráðuneytið lýtur ekki sömu reglum og önnur ráðuneyti. Þar verða engar breytingar þó að kosningar séu og valdahlutföll breytist í kosningum. Gæsalapparáðherrann, sem situr þarna, situr bara áfram þó að hann kolfalli í hvetjum kosningum á eftir öðrum. Hann situr æviráðinn og með 12 mánaða uppsagnarfresti. Það er þetta sem frá stjórnkerfislegum bæjardyrum séð er gersamlega óþolandi, að þessi háttur skuli hafa verið hafður á ráðningu þessara „kommissara“.

Ég hef sagt í mínum árlegu ræðum um þessa skýrslu að hér er auðvitað ekki verið að fjalla persónulega um þann forstjóra sem þarna situr. Það er verið að fjalla um „prinsip“-mál, um mál sem hafa þróast þannig að óþolandi má heita. Það er ekki heldur verið að fjatla um það, hvernig Sjálfstfl. hefur gengið inn í sjálfan sig aftur og aftur. Það er þeirra mál og ætti ekki að koma okkur hinum við.

En hvernig er svo þessi stofnun rekin? Jú, jú, því miður er það svo, að fjórðungur Alþingis ber þarna ábyrgð sem stjórn og varastjórn og framkvæmdastjóri — og gott betur ef sá fjarverandi er talinn með. En síðan gerist það, að í landinu hefur verið með ærinni fyrirhöfn tekin upp verðtryggingarstefna, tekin upp hávaxtastefna. Það þarf ekki að lýsa röksemdum bæði með henni og á móti. Röksemdirnar með henni eru þær t.d., að hún miði að því að koma lágmarksviti í fjárfestingu og lánastarfsemi. Röksemdir á móti henni voru vissulega margar hverjar þungar, einkum að því er varðaði hag húsbyggjenda. Nú er það svo að þessi stofnun, sem lýtur ekki Alþingi nema með óbeinum hætti, og þá á ég við hina æðstu forustumenn þar, þeir hafa virt þessa stefnu að vettugi. Þarna situr fjórðungur Alþingis og skammtar gjafafé alveg eins og fjárhagsráðið gerði hér í gamla daga. Það er þriðja rangfærslan í þessum inngangi, að mönnum hafi virst að nýtt fjárhagsráð væri á ferðinni en annað hafi komið í ljós. Það hefur ekki annað komið í ljós. Hér er gjafafé skammtað til manna sem þessarar fyrirgreiðslu njóta, fjármuna sem menn eiga ekki kost á annars staðar. Og hvernig sem á er litið er þar rangt að staðið hjá þessari pólitísku skömmtunarskrifstofu.

En ég vil enn segja það, að telji menn að það sé skynsamlegt, þá á auðvitað að stíga skrefið til fulls. Þá á þetta að vera byggðamálaráðuneyti. Yfirmaður þess á að vera byggðamálaráðherra og hann á að sitja í ríkisstjórn sé það vilji Alþingis. Alþingi á að geta vikið honum með vantrausti, ef því sýnist svo, og umfram allt á bann að fara með ríkisstjórninni ef um stjórnarskipti er að ræða. Þessi gæsatapparáðherra á ekki að sitja alveg óháð því, hvernig kosningar fara í landinu. Það er það sem er gersamlega óeðlilegt. Og sannleikurinn er auðvitað sá, hvernig sem á er litið, að þessi stofnun er leifar frá gömlum tíma. Hún er í fyrsta lagi endurtekning á skömmtunarkerfinu og fjárhagsráðakerfinu og því öllu, vegna þess að þarna er um að ræða lánafyrirgreiðslu í langflestum tilfellum til atvinnuveganna. Og taki menn eftir því, að það er ekki banki litla mannsins sem hér er um að ræða. Þetta er endurtekning á skömmtunarkerfinu, vegna þess að þarna er skammtað gjafafé sem menn eiga ekki kost á annars staðar.

Í þriðja lagi er eftirtektarvert að þegar löglega kjörin stjórnvöld, ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á framkvæmdum, hefur verið að baksa við að koma hér á gerbreyttu peningamálakerfi í formi verðtryggingarstefnunnar, þá hreyfir þessi stofnun sig ekki. Hún er með lán sem eru niðurgreidd að hálfu. Að þessu leyti er þarna um að ræða furðulegar leifar frá gamla tímanum, gömlu skömmtunarspillinguna í sinni verstu mynd. Og því er nú verr og miður að einhverjir alþm. fást til að sitja þarna í stjórn. Ég endurtek: því er nú verr og miður, og á þá við alla flokka sem hér eru. En verra er hitt, að smám saman hefur þessi stofnun verið að taka á sig form ráðuneytis. Þetta er í raun og veru eitt ráðuneytið til, nema á þeirri verulega breyttu forsendu varðandi ráðherra í þessu ráðuneyti, að það skiptir engu máli hvort stjórnir koma eða fara því að þeir eru ráðnir með 12 mánaða uppsagnarfresti. Horfum hér í kringum okkur. Við getum hugleitt hvort þetta form ætti að eiga við víðar, að ríkisstjórnir væru skipaðar með þeim hætti að menn verði ráðnir með 12 mánaða uppsagnarfresti.

Það er náttúrlega óheyrileg ósvífni í þessum inngangi þegar rifjuð er upp gagnrýni af hálfu Sjálfstfl., en ekki minnst á að Alþfl. gagnrýndi þetta líka á þeim tíma. Hann gagnrýndi „kommissarakerfið“. Og nú halda menn að ekki sé tengur ástæða til gagnrýni þegar sú ein breyting hefur verið gerð, að „kommissarar“, sem eru nákvæmlega jafnpólitískir og hinir voru, hafa verið æviráðnir. Hvað sem má segja um þá vinstri stjórn sem setti þessa stofnun á laggirnar, þá var hún þó gædd því siðferðisþreki, að „kommissararnir“ komu, en þeir voru látnir víkja með henni. Breytingin, sem gerð var 1976, var sú, að þeir voru æviráðnir. Hafi verið stígið eitt skref aftur á bak 1971, þá var bætt við 10 þarna 1976.

Það þarf ekki annað en sjá skekkjurnar í stjórnkerfinu. Hér gerist það að framkvæmdastjóri þessarar stofnunar stendur upp fyrir ári eða svo og tilkynnir um mikla fjármuni til vegagerðar og kemur samgrh. í landinu alveg í opna skjöldu í þessum efnum. Og þetta er auðvitað gert í smáu og stóru. Þarna hefur vaxið upp „sjálfstætt, peningalegt skrímsl“ í þjóðfélaginu sem lýtur ekki lýðræðislegum lögmálum. Það er það sem er hættulegt. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig á því stendur. Það er auðvitað augljóst hvað hefur gerst. Breytingin, sem gerð var 1976, var sú, að Framsfl. og Sjálfstfl. skiptu þessari stofnun með sér. Það var breytingin sem gerð var á stofnuninni.

Mig hefur oft undrað geðleysi t.d. Alþb.-mannanna í núv. ríkisstj. Þess skal að sönnu getið, að formaður flokksins, Svavar Gestsson, hefur oft staðið hér upp í umr. eins og þessari og lýst almennum skoðunum í þessum efnum. En það hefur ekkert breyst.

Menn skyldu horfa víðar yfir þetta svið. Halda menn að þeir fjármunir, sem þarna fara um hafi ekki áhríf á fjármálastjórn ríkisins, — fjármunir sem lánaðir eru út, sem kallað er, á stórkostlega niðurgreiddum kjörum? Hin hrikalega mynd af skorti á arðsemi, af títlum tengslum milli lána annars vegar og arðsemi hins vegar, blasir þarna við. Ég fullyrði að það eru engin þau verkefni unnin í Framkvæmdastofnun sem deild í Landsbankanum gæti ekki annast. Það er rangt að halda öðru fram. Þetta er gagnslaus stofnun að öllu öðru leyti en því, að hún útvegar mönnum pólitísk völd til að hygla vinum sínum, því er nú verr og miður. Og ég endurtek það sem ég hef stundum sagt, að þegar á reynir, þá reynist stofnun eins og Landsbankinn vera banki litla mannsins, vera banki mannsins sem á láni þarf að halda. Hér er ekki um slíkan banka að ræða. Hér er um að ræða banka sem lánar fáeinum útvöldum vinum í atvinnurekstri. Þetta er ekkert umfram það. Því má svo bæta við, að það verða auknar röksemdir fyrir því að hlusta á vikuleg útvarpsviðtöl við formann stjórnarinnar, Eggert Haukdal, sem er náttúrlega gangandi siðferði þessarar stofnunar í smáu og stóru, og láta svo allt annað vera.

Annað af tvennu eiga menn að gera: Menn eiga að leggja þessa stofnun niður eða á hinn bóginn að stíga skrefið til fulls og viðurkenna þetta sem nýtt ráðuneyti. En munurinn á því að viðurkenna þetta sem nýtt ráðuneyti er þá líka sá, að þeir sem veita því forstöðu, bera þá sömu ábyrgð og aðrir hæstv. ráðh. gera. Þeir verða að víkja við vantraust. Það er hægt að spyrja þá hvenær sem er er um starfsemi þeirra ráðuneyta. Það er ekki hægt hérna. Og það sem meira er, verði stjórnarskipti í landinu, þá víkja yfirmenn þarna líka. Hvers vegna var breytingin gerð 1976 þegar Sjálfstfl. var kominn inn í kerfið? Af hverju negldi hann sig með þessum hætti? Af hverju gerði hann gys að öllu því sem gagnrýnendur höfðu sagt 1971–1974? Af hverju var Magnús Jónsson frá Mel hæddur og spottaður með þessum lögum frá 1976? Og af hverju horfir sá siðmenntaði fjórðungur, sem enn þá er til, a.m.k. hér á þingi, í gaupnir sér þegar þessi umr. fer fram? Það er kannske skiljanlegast af öllu.

Sannleikurinn er sá, að þessu stofnun er spegilmynd af því versta í fjármálalegri fortíð þjóðarinnar. Ég nefni fjárhagsráðin, ég nefni „kommissarakerfið“ það ýkta, kommissarakerfi“ sem gamla „kommissarakerfið“ skóp af sér, og ég nefni vaxtastefnuna sem þarna er rekin. Það eru út af fyrir sig, má segja, pólitísk hyggindi að koma völdum sínum svo fyrir, að maður sé óháður kosningum. Það út af fyrir sig eru pólitísk hyggindi að koma völdum sínum svo fyrir. En Alþingi á náttúrlega ekki að láta bjóða sér það með þessum hætti. Og menn eiga aftur og aftur að rifja upp það sem Sjálfstfl. sem stofnun hefur sagt um þessi mál. Menn eiga aftur og aftur að rifja upp það sem ungir sjálfstæðismenn í eina tíð sögðu um þessa stofnun og menn eiga enn og aftur að rifja upp hvernig þessi flokkur hefur gengið inn í sig aftur og aftur að því er þessa stofnun varðar. Það er ekki svo að hér sé um neitt gamanmál að ræða. Þessi stofnun er dýr. Hún skekkir efnahagsstefnu stjórnvalda, hver sem hún kann að vera. Hún rekur fjárlög við hliðina á fjárlögum í þessum efnum. Hún sendir löglega kjörnum stjórnvöldum langt nef, þegar þau af einhverjum ástæðum hafa orðið að segja nei við kröfum frá Framkvæmdastofnun, og snýr við ákvörðunum sem rétt kjörin stjórnvöld hafa tekið. Ekki hef ég samúð með þeirri ríkisstjórn og þeim þingmeirihluta sem hér situr. En samt vil ég horfa á þetta með „prinsip“-augum og undirstrika það, að hér er komin svo alvarleg skekkja í þetta stjórnkerfi að við svo búið má ekki láta standa öllu lengur. Það, sem er svo áhugavekjandi eða ógleðivekjandi, eftir því hvernig menn vilja á það horfa, er sá inngangur sem forstjórinn skrifar fyrir þessari skýrslu, þar sem hann flytur vörn fyrir afstöðu Sjálfstfl. Hann er að segja það eitt í þessum inngangi, að Sjálfstfl. er ekki að ganga inn í sjálfan sig síðan 1971. Ég segi: Alfa og omega þessa inngangs er rangt frá rótum.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að benda á nokkrar staðreyndir um Framkvæmdastofnun ríkisins. ég vil segja það að lokum, að ég vænti þess, að þetta verði síðasta þingið sem horfir á þessa stofnun ögra sér með þeim hætti sem verið hefur í vaxandi mæli að undanförnu. Síðasta litla málið um vegarspottann þarna fyrir sunnan, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum, er aðeins lítill angi af stóru vandamáli. Þar er um það að ræða að löglega kjörin stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun sem getur verið erfið, ekki vegna þess að hún sé ekki sjálfsögð, heldur vegna þess að hún er dýr. Og þá kemur þessi stofnun aftan að kerfinu eina ferðina enn og reynir að stilla löglega kjörnum stjórnvöldum upp við vegg. Við viljum, þeir vilja ekki. Við verðum að hafa einhverja forsendu til að byggja á í þessu stjórnkerfi.

Ég er sannfærður um það einnig, að þessar síðustu ögranir hafa verið með þeim hætti að á næsta þingi, hvernig svo sem það verður saman sett, ættu að hafa skapast forsendur til að breyta um í þessu kerfi, leggja þessa stofnun niður í núverandi mynd, gera annað af tvennu: að færa hana og starfsfólkið á annan stað í stjórnkerfinu, til bankanna t.d., eða gera þetta að sérstöku ráðuneyti, en þá með þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem því fylgja. Hitt gengur ekki, að þarna starfi stofnun sem stöðugt sé með pólitísk yfirboð og stöðugt sé með rýtinginn í bakinu á þeim stjórnvöldum sem löglega eru kjörin hverju sinni. Það er það sem hefur verið að gerast.