04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (4344)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hér er til umr. stórmál sem væntanlega á eftir að fá afgreiðslu með einum vilja og góðri samstöðu hér á Alþingi. Ég ætla við þessa umr. málsins ekki að flytja langt mál þó að segja megi að sú sérkennilega ræða, sem flutt var hér af talsmanni atvmn., gæfi til þess ærið tilefni að aths. væru gerðar til að leiðrétta misfærslur og rangtúlkanir í hans máli, svo að ekki sé minnt á þá sérkennilegu stefnu að nota þetta tækifæri til allsherjarárásar á ríkisstjórn landsins, eins og í hans máli fólst. (SvH: Ég geri það svo sjaldan.) Það gætti siðavöndunar í máli hv. 4. þm. Austurl., en mér fannst sem tónninn í ræðunni endurspeglaði ekki þá umvöndun sem fólst í hans máli. Hv. þm. talar ekki oft úr þessum ræðustól, en stýrir fundum hér röggsamlega. Þó minnast menn ræðna af hans hálfu. A.m.k. ein hefur gengið inn í þingsöguna, hún var nokkuð löng, að mig minnir, og ég geri ráð fyrir að þessi hans ræða muni einnig hljóta þar vissan sess.

Ég vil vekja athygli á því, hversu sérkennilegt það er, þegar mælt er fyrir sameiginlegu nál., þar sem enginn nm. skrifar undir meira að segja með fyrirvara, að velja það sem tilefni til árásar á stjórnvöld, mistúlkana á undirbúningi þess stóra máls sem hér er til umr. Ég vil benda á hversu mjög það er frábrugðið því sem gerðist í Sþ. í gær þar sem hv, varaformaður Sjálfstfl., 10. þm. Reykv., mætti fyrir áliti atvmn. Sþ. um iðnaðarstefnu, sem einnig var sameiginlegt álit frá þeirri nefnd, flutt af prúðmennsku og hógværð og þar sem haldið var eðlilega á máli og áherslum. Það kemur mér því nokkuð á óvart að fá kveðjur frá þessum ágæta þingbróður mínum, þó að ég efist ekkert um að hugur hans til ríkisstj. hafi endurspeglast í hans máli og hann hafi þar verið að þjóna lund sinni.

Það er eitt atriði sem ég vil aðeins víkja að hér vegna þess að það var nokkuð fyrirferðarmikið í þessum málflutningi. Það var að þær virkjanir, sem hér er verið að gera tillögur varðandi röðun á, komi ekki til framkvæmda vegna þess að stjórnvöld í landinu dugi ekki í sambandi við undirbúning að orkunýtingu. Það vill svo til að hv. atvmn. hafði til meðferðar þáltill. frá ríkisstj. þar sem einn þáttur máls var sá, að hraða skuli hagkvæmniathugunum á tilteknum þáttum orkufreks iðnaðar í landinu, og eru þar tilgreindir þættir eins og áliðja, sjóefnavinnsla og fleira sem nafngreint er og að er unnið. En hv. atvmn. taldi sig ekki hafa tíma til þess að fjalla um þessi atriði og vildi ekki bera fram þennan þátt úr till. ríkisstj., þar sem sérstaklega var vikið að orkunýtingunni. Kannske hefur það búið undir hjá einhverjum hv. nm. að víkja einmitt þessu atriði varðandi orkunýtinguna út til að geta síðan vent sínu kvæði í kross og flutt hér árásarræðu á stjórnvöld fyrir að huga ekki að þessum þætti mála og skapa kannske svigrúm fyrir tillöguflutningi eins og þeirri brtt. eða viðaukatillögu, réttara sagt, sem hér er flutt af hv. 4. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Vestf., sem fjallar einmitt um það atriði sem ýtt var út úr þeirri till. sem hv. atvmn. hafði til meðferðar.

Nú vil ég ekkert vera að finna að því þó að þetta atriði ekki í áliti nefndarinnar og tillögum. Í gærkvöld var hér samþykkt þáltill. um iðnaðarstefnu sem breið samstaða hefur tekist um, þ. á m. um orkufrekan iðnað sem eðlilegan þátt í iðnaðaruppbyggingu í landinu og undir forræði Íslendinga. Þetta er því komið fram sem vilji Alþingis og er á sínum stað. Sú viðaukatillaga, sem hér liggur fyrir, er því þarflaus að þessu leyti og auðvitað furðulegt að hún skuli koma fram eftir að hv. atvmn. hefur ekki séð ástæðu til að taka undir áherslur frá ríkisstj. um þetta efni.

Ég vil svo aðeins segja það um þetta mál, að ég vænti þess, að þrátt fyrir þann málflutning, sem hér var viðhafður af hv. frsm. atvmn., verði það ekki til að spilla þeim góða frið sem tókst um málsmeðferð í þessari nefnd, þeim einhug sem birtist í till. nefndarinnar og hér liggur fyrir. Ég vænti þess fastlega, að í þeim stóru málum, sem hér er tekið á, ríki friður við framkvæmdir og þær megi verða landsmönnum öllum til heilla, hvort sem þær taka 10 ár, 12 ár eða 15 ár, uns þær eru til lykta leiddar. Hér er tekið á einhverju allra stærsta máli sem Alþingi hefur haft til meðferðar um langa hríð. Hér er verið að reka smiðshöggið á þau heimildarlög sem samþykkt voru á síðasta degi hv. Alþingis á síðasta þingi, lög um raforkuver, nr. 60/1981, og verið að fullnægja ákvæðum í 2. gr. þeirra laga um röðun virkjana. Ég bæði skora á hv. alþm. og óska eindregið eftir því, að um afgreiðslu þessa máls megi takast friður og samstaða, og ég vil þakka þeim fjölmörgu, bæði heima í héruðum og hér syðra og hér á hv. Alþingi, þar með taldir hv. nm. í atvmnn. Sþ., fyrir viðleitni þeirra til að skapa samstöðu um þetta mál og eðlilegt andrúmsloft í kringum það. Ég vænti að það eigi eftir að ríkja framvegis.