04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4589 í B-deild Alþingistíðinda. (4345)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., en ég vil aðeins taka undir það sem hér hefur komið fram, að það hefur verið óvenjuerfitt að starfa að þessu máli og ýmsum öðrum hér á Alþingi að undanförnu. Mér sýnist hins vegar að það ætli að takast að skapa bærilegan frið um þetta mál, sem hlýtur að vera forsenda þess að hægt verði að ráðast í þetta mannvirki.

Ég vil taka það fram, að hv. frsm. nefndarinnar hafði í framsögu sinni persónulegt ívaf og mælti þá ekki fyrir hönd nefndarinnar allrar. Við stuðningsmenn ríkisstj. samþykktum hér á síðasta Alþingi stefnu sem miðaði að því að efla orkufrekan iðnað. Þessi orð hans eru persónulegt ívaf. Ég er sammála því, að þessi orð hefðu betur átt heima í umr. síðar, en ekki í framsögu fyrir málinu. Hins vegar vænti ég þess, að þetta persónulega ívaf hans verði ekki til þess að skapa miklar umr. í Sþ.

Ég vil taka það fram, að það, sem skiptir mestu máli, er sú túlkun sem frsm. kom hér með og ég stend fyllilega að baki. Ég vil endurtaka hana hér, en hann sagði orðrétt:

„Eins og nú standa sakir er nægjanlegt að vatnsmiðlun Blönduvirkjunar nemi 220 gígalítrum. Verði þörf fyrir aukna vatnsmiðlun í 400 gígalítra síðar skal Alþingi úrskurða í málinu, ef ekki næst fullt samkomulag hagsmunaaðila. Eðlilegt virðist að fela Landsvirkjun að meta þörfina fyrir hina auknu vatnsmiðlun, en lagt er til að samið verði við Landsvirkjun um framkvæmdir.

Atvmn. leggur áherslu á að öll stíflumannvirki verði byggð með sem mesta hagkvæmni fyrir augum, þegar allra þátta virkjunarframkvæmda er gætt. Skal frá upphafi búa í haginn fyrir aukið miðlunarrými í 400 gígalítra, ef nauðsyn krefur aukinnar vatnsmiðlunar að mati virkjunaraðila. Er einnig eðlilegt að fela virkjunaraðila, Landsvirkjun, að ráða mannvirkjagerð miðað við framangreindar forsendur.“

Það hefur komið fram ein brtt. við þetta mál og hún er á þskj. 877. Ég vil taka undir með hæstv. iðnrh. og lýsa nokkurri furðu minni á því, að menn skuli bera fram þessa brtt. nú. Alþingi hefur fjallað um fjölmörg mál er varða það sem um getur í þessari brtt. Atvmn. varð sammála um að víkja þessu máli til hliðar, — ekki vegna þess að menn teldu ekki rétt að takast á við þetta verkefni, heldur einfaldlega vegna þess að menn vildu einbeita sér í störfum nefndarinnar að virkjunarmálinu. Ég skora á hv. flm. að draga þessa till. til baka til að einfalda þær umr. og þá afgreiðslu sem hér þarf að fara fram, en vera ekki að draga þetta mál enn einu sinni inn í umr. hér á Alþingi. Það hafa verið fluttar fjölmargar þáttill. sem varða þetta efni, og ætti málið að hafa fengið nægilega umfjöllun þar. Ég minni á þá afgreiðslu sem iðnaðarstefnan hlaut hér á Alþingi í gær, eins og hæstv. iðnrh. gat um.

Ég vil aðeins ítreka það, að ég vænti þess, að þessi afgreiðsla atvmn. á málinu megi verða til þess að skapa nauðsynlegan frið um þetta mál og skapa þann grundvöll sem þarf til að framkvæmdir geti hafist hið fyrsta.