04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4590 í B-deild Alþingistíðinda. (4346)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Við nm. í atvmn. höfðum talað okkur saman um að setja ekki á langar tölur umfram það sem fram kynni að koma í ræðu frsm. En þar sem oft er litið til þess sem frsm. segir í svona mikilsverðum málum, sem að efni til á að styðjast við í túlkun á viðkomandi tillögum, hlýt ég að gera ofurlitla aths. Það er ekki aths. um að ræðan hafi ekki verið góð, skemmtileg og vel flutt, heldur vegna þess að þriðjungurinn af henni var um allt annað. Hv. frsm. þurfti endilega að koma að þeim sjálfsagða þætti að hans mati að ráðast á hæstv. forsrh. og sjálfstæðismennina í ríkisstj. Þetta er aðeins hluti af þeim innanlandsdeilum sem hafa lengi átti sér stað í Sjálfstfl. og er ekkert að því að heyra það einu sinni enn. En slíkur texti á varla heima í framsögu um orkumál og orkunýtingu.

Að sjálfsögðu notaði hv. frsm. einnig tækifærið til að baða sig á sérstakan hátt í kjördæmistilgangi — það er best að orða það þannig — og reyna að koma höggi á hæstv. iðnrh., en svo vill til að hann er einn af þm. Austfirðinga. Þetta er sá liður í ræðunni sem hvorki er fluttur með vitund né vilja annarra nm. Það er nauðsynlegt að taka það fram.

Það er mín skoðun, að framsöguræður eigi auðvitað fyrst og fremst og eingöngu að snúast um það málefni sem um er að tefla. Menn hafa mörg tækifæri til að skamma ríkisstj., og er það út af fyrir sig gott og göfugt málefni hjá þeim sem hafa eitthvað við hana að athuga, sem ég hef auðvitað ekki eins og öllum er kunnugt. En það vildi svo til að hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, stakk upp á því, að hv. þm. Sverrir Hermannsson yrði frsm., og flutti hjartnæma ræðu í því skyni í atvmn., þannig að það hefur verið þm. Framsfl. sem sá til þess, að hv. þm. Sverrir Hermannsson gæti komið þessum árásum á ríkisstj. á framfæri. Engin ástæða et til að liggja á því úr því sem komið er.

Ég verð hins vegar að segja að samstarfið í þessari einkennilegu nefnd, atvmn., hefur verið með ágætum. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að allir nm., að engum undanskildum, hafi reynt að ná landi í þessu máli þannig að sem flestir gætu vel við unað. Í því efni hafa menn auðvitað lagt á sig bæði langar og stífar fundarsetur, en auk þess reynt til hins ítrasta að haga þannig orðum að enginn væri meiddur af. Það hefur verið tilgangurinn og ég tel að eftir atvikum hafi það tekist vel. Svo nákvæmt var orðalagið orðið á tillögum atvmn. að þar var engu raunar hægt að breyta, ekki hægt að víkja við orði, bæta við eða fella burt, svo að ekki væri hætta á að allt færi í loft upp á nýjan leik. Þess vegna finnst mér afar slæmt að á sama tíma og við getum ekki fellt út forsetningu eða bætt við leiðréttingu einu sinni, vegna þess að menn töldu það geta stefnt málinu í hættu, skuti endilega koma fram heil brtt., ekki um eitt orð, heldur um heilmikið efnisatriði, og það er þeim mun verra sem öll nefndin er sammála um að henni hafi ekki gefist tóm til að fjalla um orkunýtingarmálin. Tíminn var knappur sem við höfðum haft við meðferð málsins, og það er ekki af neinum illum hvötum sem við höfum ekki treyst okkur til að fjalla um orkunýtingarmálin. Þar er ekki um neitt pólitískt bragð að ræða, sem hefur verið vikið að, heldur er ósköp einfaldlega þarna um að ræða tímaskort. Það þurfti að nota hverja mínútu til að ná því fram sem þó náðist og varð að láta orkunýtinguna vera að miklu leyti utan við textann.

Þó vil ég vekja athygli á því, að í nál. er að nokkru vikið að orkunýtingarmálum. Þó að það sé í tiltölulega fáum orðum segir það að mínum dómi allmikið í þeim efnum. En um nákvæma útfærslu á því mikla máli gat alls ekki verið að ræða. Vegna þessarar niðurstöðu nefndarinnar um orkunýtingarmálin finnst mér, ef brtt. verður haldið til streitu, að það sé verið að veitast að því grundvallarsamkomulagi sem hér liggur fyrir. Ég vil biðja menn, sem standa að þessari till., að huga vel að því, að þeir séu ekki að gefa þetta spark í málið á þessu síðasta og viðkvæmasta stigi. Það er alvörumál, ef menn leyfa sér að koma með svo fastákveðna till. einmitt í þessu efni nú á þessari stundu, og gæti orðið slæmt fyrir samstöðuna í málinu. Ég er ekki með þessu að hóta einu eða neinu. Það má vera öllum ljóst, að það hefur verið talsvert nákvæmnisverk að ná þessu fram, og þess vegna slæmt að fá þessa viðbót nú á þessum síðasta fundi.

Hv. frsm. Sverrir Hermannsson las upp í ræðu sinni kafla þar sem var tillaga að bókun lögð fram í nefndinni. Ég hélt að um þetta hefði náðst nokkurn veginn samkomulag, en svo kom í ljós að einn nm. treystist ekki til að skrifa undir þetta plagg, og fleiri nm. höfðu þá skoðun, að nægilega mikið væri komið af bókunum og þær væru óþarfar, en gátu samt eftir atvikum fallist á að undirrita þennan texta ef það gæti orðið til þess að ná fullu samkomulagi. Ég vil vekja athygli á því, þó að ég t. d. hafi ýmislegt við þessa bókun að athuga, t. d. eins og fyrstu setninguna þar sem segir: Eins og nú standa sakir, 4. maí, er nægjanlegt að vatnsmiðlun Blönduvirkjunar nemi 220 gígalítrum. — Þessa dagana þurfum við ekki á nokkurri vatnsmiðlun að halda, þannig að þessi setning er auðvitað nákvæmlega einskis virði og óþörf. Það má auðvitað leyfa svona löguðu að fylgja með, vegna þess að setningin gerir hvorki gagn né vinnur tjón, en er að mínum dómi óþarfi.

Þar næst finnst mér dálítið einkennilega og fast að orði kveðið þegar talað er um fullt samkomulag hagsmunaaðila án þess að það sé skilgreint. Í texta, sem nefndin gekk frá, var auðvitað vísað til þess tiltekna og fyrir fram ákveðna aðila, þar sem er samráðsnefnd, og það er auðvitað skilningur okkar að það sé undanskilið, en alls ekki að þarna verði um nýja samninga að ræða.

Afgangurinn af þessu er að mínum dómi viðunandi, og raunar get ég sagt að ég hafi látið menn vita af því að ég væri tilbúinn að skrifa undir þennan texta sem allir væru með. En eins og hv. frsm. sagði er þessi bókun aðeins hugsanlega væntanleg, en ekki frágengin. Það er best að hafa þetta allt nákvæmlega á hreinu.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að eyða löngum tíma í þetta, enda ekki nokkur leið að gera þessu máli og afgreiðslu þess viðhlítandi skil í stuttu máli. En ég vil aðeins finna að mjög föstu orðalagi frsm. varðandi þann hluta nál. sem fjallar um nýja iðnaðarkosti og orkufreka iðnaðarkosti. Hann notaði þar orð, sem ég hefði ekki notað, og áherslur, sem ég hefði vikið mér undan.