04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4592 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það liggur í augum uppi, að atvmn. reyndi að velja orðalag sem allra flestir málsaðilar gætu sætt sig við. Það er skýringin á óþarflega óljósu orðalagi að ýmissa mati.

Það hefur hér verið fundið nokkuð að brtt. á þskj. 877, fundið að því, að hún hafi verið lögð fram. Ég vil í því sambandi segja að hún snertir ekki efni þáltill. Þessi brtt. er viðbót og því óþarfi að vera viðkvæmur fyrir því. Það liggur í augum uppi, að það þarf að nota það rafmagn sem framleitt verður.

Hér hefur talsvert verið talað um bókun atvmn. eða meiri hl. hennar. Af því tilefni vil ég segja að ég er ekki andvígur efni bókunarinnar, síður en svo, þótt mér og samflokksmönnum mínum þyki orðalagið varla nægilega ljóst. Það er ástæða þess að ég hef ekki skrifað undir bókunina, ekki að ég sé andvígur efni hennar.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram lagði atvmn. sig í tíma til að finna lausn sem málsaðilar gætu sætt sig við, og ég vona að það hafi tekist. Ég vil að lokum láta í ljós þá ósk, að þm. og landsmenn allir setji niður deilur og taki saman höndum um giftusamlegan framgang þessara virkjunarmála sem og annarra þjóðþrifamála.