04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4597 í B-deild Alþingistíðinda. (4355)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 878, sem er undirritað af meiri hl. atvmn., öllum nm. að undanskildum hv. 5. þm. Vestf., er gerð grein fyrir áliti meiri hl. n. Í nefndinni var til umr. till. til þál. á þskj. 472 um steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn og brtt. frá flestum þm. Norðurl. v. og e. um að steinullarverksmiðju skuli reisa á Sauðárkróki.

Á fundi nefndarinnar, sem voru fjölmargir, komu fulltrúar Steinullarfélagsins, Jarðefnaiðnaðar, Iðntæknistofnunar, steinullarnefndar ráðuneytisins og Skipaútgerðar ríkisins. Nefndin fékk í hendur fjölda gagna, sem ekki er ástæða til að gera grein fyrir hér, enda er málið öllum hv. þm. kunnugt, svo mikið hefur verið rætt um það og ritað.

Meiri hl. hv. atvmn. Sþ. leggur til að tillgr. breytist, og brtt. hljóði þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að:

1. Heimild í lögum frá 4. júní 1981, um steinullarverksmiðju, 1. gr. laganna, verði eigi nýtt að sinni, en áhugaaðilum um byggingu slíkrar verksmiðju gefinn hæfilegur tími til að leggja fram fjármagn sjálfir, sem talið er nægjanlegt, án þátttöku ríkisins.

2. Takist slík söfnun hlutafjár verða heimildir samkv. 2. gr. laganna, 2. og 3. lið, nýttar.“

3. Fyrirsögn þáltill. breytist. Í stað „Till. til þál. um steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn“ komi: Tillaga til þingsályktunar um steinullarverksmiðju.

Það skal strax tekið fram, að þar sem segir í brtt. að gefinn verði hæfilegur tími segir í nál, að sá tími skuli vera sex mánuðir og er hann að sjálfsögðu til viðmiðunar, en það er álit meiri hl. n. að sex mánuðir séu eðlilegur tími fyrir þá aðila sem um þetta mál fjalla.

Til nefndarinnar barst svohljóðandi bréf frá Jarðefnaiðnaði hf., með leyfi forseta:

„Á stjórnarfundi Jarðefnaiðnaðar hf. var gerð eftirfarandi bókun þann 19. apríl s. l.:

Með bréfi þann 28. júní 1979 tilkynnti iðnrh. Jarðefnaiðnaði hf. að undirbúningur steinullarverksmiðju yrði í höndum iðnrn. þar til staðarvali verksmiðjunnar væri lokið. Hluthafafundur Jarðefnaiðnaðar þann 29. mars 1981 samþykkti að félagið skyldi stefna að því að reisa steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn án eignaraðildar ríkisins.“ — Og ég skýt því hér inn til áherslu að hér stendur: „án eignaraðildar ríkisins“.

„Iðnrh. hefur ekki enn sleppt hendinni af staðarvali steinullarverksmiðjunnar og stjórn Jarðefnaiðnaðar hefur þar af leiðandi beðið árangurslaust á annað ár eftir að reyna til fulls á þá sannfæringu sína, að félagið hafi styrk til að ráðast eitt sér í þessa framkvæmd.“

Hér lýkur tilvitnun í þetta bréf. Það er óþarfi að lesa meira úr því, en það er undirritað af framkvæmdastjóra fyrirtækisins Ófeigi Hjaltested.

Meiri hl. hv. atvmn. leggur áherslu á það, sem kemur fram í þessu bréfi og hefur verið ítrekað síðan, að áhugaaðili telur sig geta reist verksmiðju án eignaraðildar ríkisins og enn fremur hefur heyrst frá öðrum að til greina komi að slíkt eigi við um fleiri aðila en Jarðefnaiðnað.

Þá vill meiri hl. hv. nefndar einnig benda á að öruggra viðskiptasamninga hefur ekki verið aflað, en í bráðabirgðaákvæði laga nr. 61/1981 segir, með leyfi forseta:

„Ekki er ríkisstj. heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags samkv. 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem tilhlutafé samkv. i. tölul. 2. gr. né veita ríkisábyrgð eða taka lán samkv. 2. tölul. 2. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% af hlutafé væntanlegs félags og aflað hefur verið öruggra viðskiptasambanda.“ Ég legg áherslu á orðin „öruggra viðskiptasambanda“.

Óþarfi er að fjölyrða um nál. meiri hl. n. Það er öllum auðskilið, en þó þykir mér rétt að taka fram eftirfarandi.

1. Með brtt. er ekki tekin afstaða til staðarvals, heldur aðeins bent á að nýjar upplýsingar krefjist þess, að málið skoðist á ný af þeim sem þegar hafa lýst ákvörðun um staðarvatnstillögu til hæstv. ríkisstj.

2. Undirbúningsaðilar hafa báðir unnið gott og mikið starf. Þrátt fyrir það er undirbúningsstarfi ekki lokið þannig að nýta má tilgreindan umþóttunartíma til frekari undirbúnings, t. d. með því að gera tilraunir með steinull í samstarfi við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og iðnaðarmenn og finna þannig út hvernig steinull framleidd hér á landi reynist við hlið og í samanburði við önnur einangrunarefni. Þá má einnig nýta umþóttunartímann til að kanna hverjir gætu orðið hugsanlegir sameignaraðilar þeirra sem hyggjast stofna til steinullarverksmiðju.

3. Fulltrúi í steinullarnefnd iðnrn. upplýsti á fundi nefndarinnar að framlegð útflutnings sé mjög lítil, óeðlilega hátt verð sé í Bretlandi, en möguleikar virðist vera fyrir markað fyrir lausa steinull í Þýskalandi. Þess vegna er hugsanlegt að lítil verksmiðja með útflutningsmöguleika sé betri kostur en stór verksmiðja.

4. Munur á arðsemi á verksmiðju byggðri á Sauðárkróki eða reistri í Þorlákshöfn er óverulegur.

Meiri hl. n. telur mikilvægt og leggur á það áherslu, að aðrir en ríkið leggi fram áhættufjármagn til uppbyggingar atvinnurekstrar. Meiri hl. n. vill láta á þetta grundvallarsjónarmið reyna og telur sig stuðla að því með brtt. sínum. Við teljum þetta ákaflega mikilvægt fordæmi, því að það gerist æ tíðara að leitað sé til ríkissjóðs til að leggja fram áhættufé. Þannig stefnir í einskonar alræði ríkisins í atvinnuuppbyggingu og er það að áliti meiri hl. öfugþróun sem dregur úr framtaksþrótti heimamanna. Hitt er svo annað mál, að ýmislegt þarf að gerast til að aðrir en opinberir aðilar hafi möguleika á að stofna til iðnrekstrar af þeirri stærð sem hér um ræðir. Í því sambandi má vitna til nýsamþykktrar iðnaðarstefnu sem full samstaða náðist um hér á Alþingi. Þar eru ótal atriði nefnd sem eru mikilvæg þeim fáu sem enn treysta sér til að leggja áhættufjármagn í atvinnurekstur.

Þrír þm. í meiri hl. n. hafa undirritað nál. með fyrirvara, auk mín þeir hv. 3. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Austurl. Fyrirvari minn byggist á því, að ekki eru tök á því fyrir nm. að gera sér glögga grein fyrir rekstrargrundvelli steinullarverksmiðju, þótt vonir standi til að verksmiðjureksturinn geti gefið arð. Eitt dæmi vil ég nefna í þessu sambandi.

Í áætlunum áhugaaðila er gert ráð fyrir að steinull framleidd hér á landi keppi á innanlandsmarkaði við önnur einangrunarefni, þ. á m. glerull. Sá hængur er á verðsamanburði innlendrar steinullar og innfluttrar glerullar, að í verði glerullar er gert ráð fyrir 24% vörugjaldi, en ekki í verði steinullar framleiddrar hér á landi, en glerull er mjög mikið notað einangrunarefni sem kunnugt er, Sést á þessu að markaðsforsendur eru ekki allar sem sýnast. Skylt er þó að taka fram að ekki er vörugjald á einangrunarplasti framleiddu hér á landi. Af ástæðum eins og þessari og reyndar fleiri ákváðum við þrír nm. að skrifa undir með fyrirvara þótt við styðjum till. með áðurgreindum brtt. sem ég hef lýst.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að flytja lengra mál, enda koma sjónarmið okkar í meiri hl. n. skýrt fram í nál. Sjálfsagt taka margir til máls og verður deilt um málið, enda eru allir þingflokkar klofnir í afstöðu til málsins. Vegna mikilvægis málsins er þó nauðsynlegt að það fái afgreiðslu á þessu þingi þannig að hægt verði að taka endanlega ákvörðun í málinu á grundvelli nýrra upplýsinga sem fram hafa komið.