04.05.1982
Neðri deild: 79. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4603 í B-deild Alþingistíðinda. (4374)

303. mál, ábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli frsm. hv. fjh.- og viðskn. er ég því samþykkur, að sú fyrirgreiðsla, sem hér er til umr., verði veitt. En ég vil láta það koma fram sem mína skoðun, að ferjuskip sem þetta er að mínu mati ekki bara bráðnauðsynlegt öllum landsmönnum, heldur vil ég líta á það sem þjóðbraut, sem viðbót við þjóðvegi landsins, og að mínu mati ætti ríkissjóður eða þjóðfélagið í heild að standa undir fjármögnunarkostnaði á þessari þjóðbraut, þó að einkafyrirtæki, eins og Skallagrímur hf. í þessu tilfelli, tæki á sig ábyrgð á rekstrinum.