04.05.1982
Neðri deild: 79. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4605 í B-deild Alþingistíðinda. (4379)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann hér.

Hér er um mál að ræða sem ég hef mikinn áhuga á. Þegar þetta frv. var flutt á síðasta þingi var það vegna þess að komið hafði í ljós að skattstjórar landsins höfðu hafið sókn gegn félagsheimilum í landinu að því marki að leggja á þau tekju- og eignarskatt og þannig var einnig ástatt með tvö félagsheimili að felldur hafði verið úrskurður um skattskyldu þeirra og annað félagsheimilið, Tjarnarborg á Ólafsfirði, hafði verið auglýst til nauðungarsölu og tilgreindur söludagur. Þar af leiðandi var nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvernig að þessum málum ætti að standa. Úrskurðir skattstjóra voru mjög mismunandi og alls ekki samræmi þar á milli og virtist vera algerlega í lausu lofti hvernig túlkun þeirra er á þessari skattlagningu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir mikið starf sem hefur verið unnið í sambandi við þetta mál og hefur orðið til að skýra þetta mál. Eins og kemur fram í grg., sem hv. frsm. n. las upp áðan, hafa skattstjórar, eins og ég sagði hér fyrr, haft sínar aðferðir við þessi mál, sem alls ekki eru í samræmi við þann skilning sem menn leggja almennt í lög um félagsheimili eða skattskyldu þeirra.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég vænti þess og ég mun beita mér fyrir því, að gerð verði sú úttekt á stöðu félagsheimila gagnvart skattalögum almennt séð sem hér er bent á að rétt sé að gera. Ef ekki verður úr því á næstunni er sjálfsagt að taka þetta mál fyrir á næsta þingi. Þess vegna sætti ég mig við afgreiðsluna eins og hún er. Það leiðréttir að nokkru það misrétti sem við hefur gengist til þessa í þessum málum og var vofandi yfir þeim félagsheimilum sem ég nefndi áðan.