10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

323. mál, ellilífeyrir sjómanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég held að þetta sé óþarfastormur hjá hv. fyrirspyrjanda sem hann magnaði hér upp. Ég verð að vekja athygli á því, að í þáltill. er eingöngu talað um athugun á vissum þáttum í almennu upphafi hennar. Hins vegar er verið að fjalla um það miklu víðtækar, með hvaða hætti verði tryggðar sem bestar og öruggastar flugsamgöngur. Vitanlega hefur fjölmargt fleira verið skoðað en segir í þessari takmörkuðu till., eins og ég vakti athygli á áðan. Vilja menn ganga fram hjá t. d. framkvæmd eins og á Suðureyri þar sem að mati flugfróðra manna er öryggi talið fyrir neðan lágmarkskröfur? Ég hef talið skylt að hlusta á slíkt þegar frá sérfróðum mönnum um öryggismál kemur. Niðurröðun framkvæmda hefur verið ákveðin með sérfróðum mönnum.

Ég vek athygli á því gamalkunna, að Róm var ekki byggð á einni nóttu og þeir eru fáir sem stökkva í fullum herklæðum út í veröldina, neina þá kannske helst hv. fyrirspyrjandi. Vitanlega tekur nokkurn tíma að vinna að þessum málum.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég fagna því hvað vel hefur verið tekið í að ráða bót á öryggismálum Vestfjarða. Að því hefur verið unnið af töluverðum krafti. Vitanlega mætti það vera meira, en það er staðreynd, að meiru hefur verið ráðstafað til þeirra mála á Vestfjörðum en annars staðar um landið í hlutfalli. Ég hef talið það vera eðlilegt og verjanlegt með tilliti til þess öryggisástands og ástands í samgöngumálum sem þar ríkir.