14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög, en vil aðeins koma inn á örfá atriði sem hv. 1. þm. Vestf. minntist á, í fyrsta lagi um stjórnarsáttmálann, og það sem þar er sagt um sjávarútveginn. Ég held að eitthvað hafi farið fram hjá hv. þm. af því sem gert hefur verið ef dæma má af orðum hans áðan. Í fyrsta lið er talað um fiskveiðar og fiskvinnslu og lögð áhersla á að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinuöryggi þess fólks sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar. Nú var það svo í fyrra að fiskvinnsla stöðvaðist á nokkrum stöðum, m. a. af aflaleysi yfir sumarmánuðina. Með tilvísun til þessarar greinar skipaði ég menn frá sjútvrn., félmrn. og Byggðasjóði til að kanna hvort ástæða væri til að gera undanþágu frá þeirri meginreglu að flytja ekki inn fiskiskip nema önnur væru tekin úr notkun í staðinn. Þessi nefnd skilaði áliti og taldi m. a. af þessari ástæðu rétt að leyfa innflutning á Djúpavog, til Vestmannaeyja, — sem reyndar var leyst í gegnum Fiskveiðasjóð — í Garðinn og á Akranes án þess að skip væri tekið úr notkun í staðinn. Á þetta var fallist og talið að það tryggði hráefni til þeirra fyrirtækja sem þarna var um að ræða.

Ég skal hins vegar fyrstur manna taka undir það, að koma þarf á betri samræmingu veiða og vinnslu. Um það hefur mikið verið fjallað. Mín skoðun hefur verið svipuð og minna fyrirrennara — að því er mér hefur virst — á því, að þarna þurfi mjög að treysta á þá sem í atvinnugreininni starfa, en ekki gefa út í sjútvrn. boð og bönn í þessu sambandi. Og ég vek athygli á því, að báðir þessir hv. fyrrv. sjútvrh. sátu í nefnd sem starfaði í fyrra og fjallaði einmitt um þau mál. (Gripið fram í.) Nei, það var nefnd sem fjallaði um fiskveiðistefnu og breytingar á henni. Niðurstaðan þar varð sú, að allir urðu sammála um að ekki væri rétt á þessu stigi að breyta í veigamiklum atriðum þeirri fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið, heldur reyna að lagfæra hana.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að menn hafi ekki fengið að vita um fiskveiðistefnuna í tíma. Það er rangt, því að í sambandi við botnfiskveiðar var fiskveiðistefnan fyrir þetta ár gefin út 17. des, minnir mig. Það hefur aldrei verið gert svo tímanlega áður. Og það var eftir að þessi nefnd hafði setið að störfum og eftir að um málin hafði verið fjallað bæði á Fiskiþingi og hjá öðrum hagsmunaaðilum. Frá þeirri fiskveiðistefnu hefur ekkert verið vikið nema aðeins stytt páskastöðum á vertíðinni hér suðvestanlands vegna ógæfta og annarra vandræða framan af vetrinum. Útgerðarmenn og sjómenn hafa því sannarlega vitað tímanlega og fyrr en áður hefur verið hver þessi stefna yrði.

Annar liður fjallar um framleiðni. Ég get upplýst það hér, að þeim peningum, sem ráðuneytið hefur til ráðstöfunar, hefur öllum verið ráðstafað í þessu skyni. M. a. var 15 fyrirtækjum veittur 1.5 millj. kr. styrkur hverju til þess að ráða sjálf til sín ráðgjafa til að leggja fram tillögur um hvernig hagræða megi betur framleiðslu í þessum fyrirtækjum. Þetta starf er í gangi. Ég get einnig upplýst það, að á vegum sjútvn. var gerð mjög ítarlega athugun á því, hvernig mætti hagræða betur en verið hefur starfsemi verksmiðja á Reykjanesi sem hafa átt í verulegum vandræðum af mengunarástæðum o. fl. Út úr því starfi kom að mínu mati mjög athyglisverð skýrsla sem var send þeirri nefnd sem hefur verið skipuð og fjallar um atvinnumál á Reykjanesi. Ég hef heyrt að fiskvinnslumenn á þessu svæði telja að þar sé um mjög áhugaverðar hugmyndir að ræða.

Þriðji liður fjallar um að aukin verði hagnýting þeirra fiskistofna sem eru vannýttir. Í ár var veitt meira fjármagn en nokkru sinni áður til þess að gera tilraun til að nýta kolmunna, sem er sá fiskstofn sem er vannýttur hér, og útgerðaraðilum boðið upp á styrk til að standa straum af olíukostnaði þannig að þeir gætu farið nokkurn veginn skaðlausir úf úr þeim veiðum. Þetta byrjaði sæmilega vel og allmörg skip stunduðu þessar veiðar á Færeyjamiðum. En það verður að segjast eins og er, að mörg þeirra drógu sig til baka, þegar kolmunninn nálgaðist landið, og töldu hann illviðráðanlegan. Aðeins örfá skip stunduðu þessar veiðar áfram, og enn sem áður, því miður, er langt frá því, að við höfum náð tökum á veiðum kolmunna. Það harma ég. Það kemur fljótlega að því, að kolmunnakvóti verður ákveðinn fyrir hin ýmsu lönd á Norður-Atlantshafinu, og þá óttast ég að með þessu framhaldi verði okkar hlutur heldur lítill.

Fjórða liðnum hef ég svarað, um fiskveiðistefnuna, að tilkynna hana snemma. Það var gert.

Um skuldbreytinguna talaði hv. þm., og ég get tekið undir það, að hún hefur gengið hægar en ég vildi. En staðreyndin er sú, að henni hefur þó miðað jafnt og þétt áfram hjá Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði. Byggðasjóður byrjar á þessu nokkru síðar, og eftir síðustu fréttum, sem ég hef fengið, er þessu að verða lokið hjá þeim sjóðum.

Um olíuskuldirnar er það að segja, að útgerðarmenn sjálfir og olíufélögin óskuðu ekki eftir þeirri skuldabreytingu þegar til kom. Hins vegar get ég upplýst að til mín hafa nú komið útgerðarmenn — og reyndar fulltrúi eins olíufélags — og vilja taka upp málið að nýju. Málið er þeim opið. Þeir geta breytt vanskilaskuldum, sem eru með 54% vöxtum, í verðtryggð lán með 1.5% vöxtum, og ég fæ ekki annað séð en það séu allsæmileg kjör. Þarna hefur dálítið staðið á því, hvort olíufélögin vildu ábyrgjast eða skrifa upp á þau skuldabréf sem þannig yrðu gefin út. Bankarnir hafa talið það eðlilegt. Ég fel það sjálfur eðlilegt því að það er að sjálfsögðu með lánum olíufélaganna, sem til þessara skulda er stofnað, og því eðlilegt að þau skrifi upp á slík skuldabréf. Þetta mál er nú að ósk eins olíufélags og útgerðarmanna komið á hreyfingu aftur.

Um tollalækkunina vil ég segja það, að það er misskilningur hjá hv. þm. að ekki hafi verið notað heimildarákvæði í lögum frá því í fyrra um söluskattsniðurfellingu á rafeindavogum. Það er búið og gert. Fjmrh. hefur gert það og það er komið til framkvæmda. Nokkur tollalækkun varð í fyrra á fjórum flokkum hjá fiskvinnslunni. Ég hef rætt þessi mál ítrekað við fjmrh. og óskað eftir því, að nefnd, sem á hans vegum starfar að endurskoðun á tollskránni, taki sérstaklega einmitt til athugunar slíka fjárfestingarvöru sem hv. þm. minntist á. Ég er honum hjartanlega sammála um að vitanlega á að fella niður eða a. m. k. lækka mjög innflutningsgjöld af þeim tækjum og vörum sem til framleiðniaukningar geta orðið. Það hefur miðað smávegis í því, en ég tek undir það, að það mætti vera meira.

Ég upplýsti sjálfur áðan í minni ræðu um gífurlegan vöxt á endurmatsreikningi Seðlabankans, sem ég tel vera óeðlilega mikinn. Um þetta hafa orðið hér miklar umræður. Ég get upplýst það, að ég hef aflað allítarlegra upplýsinga frá Seðlabankanum um framkvæmd afurðalána, hvaða fjármagni er ráðstafað til þess o. s. frv., sem allt skýrir þá mynd töluvert. Ég geri ráð fyrir því og mun leggja til við ríkisstj. að sérstök athugun verði þegar gerð á því, hver er eðlilegur vöxtur bankakerfisins. Ég get vel fallist á það sem hv. þm. sagði, að það sé svipað og verðbólgustigið. Ég hef talið það vera mjög eðlilega viðmiðun í þessu sambandi. Og ég gerði reyndar einnig grein fyrir því áðan, að viðræður eru í gangi við Seðlabankann og hafa þegar leitt til þess, að Seðlabankinn hefur fallist á að endurgreiða 34 millj. kr. vegna leiðréttingar á afurðalánum. Líklega mun upphæðin verða um 41 millj. kr. til endurgreiðslu á þeirri gengisuppfærslu sem í hlut Seðlabankans kom við gengisfellinguna 26. ágúst s. l. Þessi athugun er í fullum gangi.