10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

323. mál, ellilífeyrir sjómanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta það sem kom fram hjá hæstv. ráðh. og hv. þm. sem situr í flugráði. Ég spyr enn: Er það rangt að mínus hafi verið settur við framkvæmdir við flugvöll í Bolungarvík á næstu fjögurra ára áætlun flugráðs á síðasta fundi? Svari hver sem svara vill og getur. (Gripið fram í: Það er rangt.) Er það rangt? Ég hef þau plögg undir höndum og skal sýna hv. þm. þau á eftir.

Varðandi Gjögur: Ég hef ekki fordæmt það. Eftir stendur, sem ég sagði hér áðan, að af fjárveitingum til Vestfjarða til framkvæmda í flugmálum á árinu 1981 eru 600 þús. — 60 gamlar millj. — ónotuð. Það er full þörf fyrir það framkvæmdafé í þessum fjórðungi og ástæða til að nota það.

Aðeins varðandi Suðureyri. Ég tek undir að á Suðureyri er einn af þeim flugvöllum sem eru hvað lakast settir. Þar var fjárveiting á fjárlögum ársins 1981, en ekkert gert. Af hverju ekki? Ekki var gert snitti þar í framkvæmdum í ár þó að hæstv. ráðh. básúni það hér að þetta sé verst setti og hættulegasti flugvöllurinn. Fjárveitingin var ekki notuð. Það er rétt að tíma tekur að vinna, en það þarf að vinna skipulega og það þarf að vinna fyrir þá fjármuni sem fyrir hendi eru hverju sinni. Þessir fjármunir eru til reiðu, m. a. með hliðsjón af því sem starfsmenn flugmálastjórnar og flugráðs lögðu til og töldu að hægt væri að gera en síðan reyndist á sumum stöðum bara hrein vitleysa vegna mistaka í áætlunum frá sjálfum starfsmönnum flugmálastjórnar og flugráðs, sbr. Bíldudalsdæmið.