04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4623 í B-deild Alþingistíðinda. (4434)

299. mál, ábyrgð vegna norrænna fjárfestingalána

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara meira út fyrir efni ræðunnar en hæstv. fjmrh. gerði áðan. En ég vil aðeiðs bera blak af honum og láta þess getið sem rétt er, að hann fór mörgum og fögrum orðum um það, hversu óraunhæfur og vitlaus stjórnarsáttmálinn væri, einkanlega í skattamálum, þar sem of mörg járn væru nú í eldinum og það, sem þar væri lofað, væri alls ekki hægt að framkvæma samtímis. Það gekk meira að segja svo langt, að hann gat ekki einu sinni heitið því, að staðgreiðsla skatta yrði tekin upp innan þriggja ára, hvað þá tveggja, auk þess að hann sagði að þessi athugasemd, að ætla að breyta söluskatti í skatt með virðisaukasniði innan tveggja ára, væri út í hött þar sem tvær svo stórfelldar breytingar á skattkerfinu gætu ekki gerst samtímis.

Ég vil bera blak af hæstv. fjmrh. og láta þetta koma fram, sem sýnir að hann er þó ekki alvondur og hittir stundum naglann á höfuðið.