04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4642 í B-deild Alþingistíðinda. (4449)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umr., sem ég hygg að séu fram undan, þakka hv. iðnn. og öllum, sem í henni hafa starfað að þessu máli, fyrir það erfiði sem hún hefur á sig lagt að undanförnu til þess að fara yfir þetta mál. Ég held að óhætt sé að segja að nefndin hefur unnið mikið og gott starf á stuttum tíma. Ég skil afar vel að hér komi fram ábendingar og aðfinnslur yfir því, að nefndinni hafi verið skammtaður stuttur tími með því að mál þetta kom hér síðla fram á þinginu. Það var hins vegar ljóst fyrir löngu að svo mundi fara. Þegar vinna var sett í gang til undirbúnings þessu máli á árinu 1981, snemma á því ári, settu menn sér það mark að ljúka undirbúningi á vegum verkefnisstjórnar í byrjun marsmánaðar í vetur. Þetta markmið náðist, þessi tímaáætlun stóðst, og í framhaldi af því og jafnhliða raunar var undirbúið það frv. sem hér var lagt fram og ég mælti fyrir um miðjan apríl.

Það er auðvitað alltaf álitamál hversu langan tíma menn þurfa til þess að leggja mat á mál, og hér er vissulega um stórt mál að ræða. Ég held að þetta mál eins og mörg önnur raunar, en ekki síst þetta, sýni okkur fram á að til þess að undirbúa stórvirki af þessu tagi á okkar mælikvarða þarf bæði tíma og menn þurfa að skipuleggja vel til þess að ná málum fram til ákvörðunar eins og æskilegt er talið. Það heyrist oft hér í þingsölum gagnrýni á framkvæmdavaldið fyrir það að ákvarðanir skorti í málum, það sé rannsakað og rannsakað og safnað pappír og skýrslum, en engar ákvarðanir komi. Að baki þessu máli liggja þrjár skýrslur gefnar út á vegum verkefnisstjórnar, tvær áfangaskýrslur og lokaskýrsla sem hv. alþm. fengu á sínum tíma og gátu með þeim hætti fylgst með undirbúningi að vissu marki. Þó er þetta aðeins hluti af þeim miklu gögnum sem fyrir liggja, og ég hef sannarlega ekki farið í gegnum vinnugögn á vegum þessara aðila svo og umsagnarskýrslur af ýmsu tagi sem aflað var varðandi markaðsmál og endurmat á þessari greinargerð og vinnu verkefnisstjórnarinnar.

Ég ætla ekki að fjalla hér um einstaka efnisþætti sem gagnrýndir hafa verið af hv. talsmönnum og nm. í iðnn. Ég fagna í rauninni gagnrýni sem fram kemur í sambandi við mál af þessu tagi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn tali þar hreint út og finni að því sem þeim finnst vera aðfinnsluvert. Ef við því er tekið með jákvæðu hugarfari á það aðeins að vera til þess að auðvelda okkur leið að marki, sem allir auðvitað vilja ná, að koma á fót í þessu tilviki nýju atvinnufyrirtæki sem reynist vera arðbært og lífvænlegt til frambúðar.

Ég skal taka hér eitt dæmi sem var það fyrsta sem hv. 6. þm. Reykv. vék að í sambandi við þetta mál. Það eru umhverfisþættirnir sem snúa að svona verksmiðjurekstri. Ég vil taka mjög undir það sem fram kom hjá honum, að í þessu efni þurfa menn að hafa vaðið fyrir neðan sig. Menn þurfa að taka á slíkum þáttum af alvöru og átta sig bæði á staðbundnum aðstæðum og að sjálfsögðu mengunarhættu af viðkomandi iðnrekstri. Það var vikið að því, að kveðið hefði við annan tón í gagnrýni af hálfu talsmanna míns flokks þegar járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var í undirbúningi. Ég held að þetta megi mjög til sanns vegar færa. Hins vegar skulum við minnast þess, að sá rekstur, sem hér er um að ræða, er mjög hliðstæður og menn hafa safnað dýrmætri reynstu af þeim rekstri sem fram hefur farið síðan 1978 í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. En það er ekki einhlítt að færa hana yfir á nýjar aðstæður þar sem líta þarf á staðbundna þætti. Þegar fram koma umsagnir eins og þær, sem hér var vitnað til, af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins, þá er rétt að hafa í huga að þær hefðu getað komið fyrr fram. Hefði mátt telja eðlilegt að þær hefðu komið fyrr fram, og er ég þó á engan veginn að gagnrýna efnislega ábendingarnar sem þar eru. En mér er kunnugt um að verkefnisstjórnin ræddi við þessar stofnanir fyrir alllöngu, má segja á síðasta sumri, og þá hefði í rauninni verið unnt að taka á tilteknum þáttum rannsóknarlega séð sem nú er bent á af festu og ákveðni, en komu ekki fram skilmerkilegar ábendingar um á þeim tíma. En mestu skiptir að tekið sé tillit til aðvarana og ábendinga af þessu tagi og fram fari nauðsynlegar rannsóknir og að nauðsynlegar varúðarráðstafanir séu þá gerðar þegar í hönnun verksmiðjunnar og hennar búnaði eða í kröfum til hráefnis eins og hægt er að koma við að vissu marki.

Ég ætla ekki að fara hér út í fleiri þætti sem vikið hefur verið að. Ég tel, að það sé mjög verðmætt að hafa fengið þær ábendingar sem fram koma frá iðnn. og ég er fyllilega sáttur við þá málsmeðferð sem meiri hl. iðnn. leggur til í sambandi við breytingar á lagafrv. og að ganga ekki lengra en þar er gert. Þessar brtt. gera kleift að halda áfram nauðsynlegum undirbúningi að þessu fyrirtæki og gera það með þeim hætti sem ég tel mestu skipta, að það sé gengið til verka undir ábyrgri forustu, — forustu sem geti haldið verkinu áfram miðað við að niðurstöður frekari athugana verði jákvæðar. Ég vil aðeins tengja þetta því atriði, sem er vissulega matsatriði, en það er hvenær menn setja verk af þessu tagi í hendur stjórnar sem á að undirbúa verkið. Ég held að hluti af þeirri gagnrýni, sem hér er fram borin, byggist á sjónarmiði sem ég vil engan veginn segja að ekki sé fyllilega gilt, en er þó álitamál, að það eigi að vera búið nánast að fínkemba flest vafaatriði og undirbúa áætlanir eins og verkáætlanir mjög ítarlega áður en sett er stjórn yfir undirbúning af þessu tagi. Ég er þeirrar skoðunar, að þarna þurfi menn að rata ákveðinn meðalveg, að sjálfsögðu að vera búnir að vinna ákveðna grunnþætti en ætla sér samt ekki að ganga of langt í þessum efnum. Við þurfum í rauninni að temja okkur það í sambandi við fyrirtæki af þessu tagi og anna verkundirbúning, alveg eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. nefndi í sínu máli, að vera undir það búnir að snúa við, endurskoða þær áætlanir, jafnvel þó að við séum komnir með heimildarákvæði í hendur í sambandi við meiri háttar mannvirki, að endurskoða okkar áform og áætlanir, ef við sjáum við frekari skoðun máls að ástæða sé til að staldra við og breyta um stefnu, hvort sem það varðar mál í heild eða tímasetningu framkvæmda, eins og hlýtur að vera álitamál t. d. í þessu tilviki. Inn í það mál kemur orkan og margt fleira.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á einum þætti þessa máls sem ekki hefur verið ræddur hér og nú sérstaklega, en kom fram við 1. umr. málsins. Það er sá kostnaður sem þessu fyrirtæki er ætlað að bera umfram þau fyrirtæki í orkufrekum iðnaði sem starfandi eru í landinu. Það er sérstaklega raforkuverðið og reyndar auk þess 1% eða allt að því 1% aðstöðugjald eða samsvarandi gjald á aðstöðugjaldsstofn. Þegar við lítum á útreikninga um arðsemi þessa fyrirtækis þurfum við að hafa þetta í huga, að þarna er gert ráð fyrir orkuverði og gjöldum sem eru til muna hærri en í sambærilegum fyrirtækjum sem starfa hérlendis. Ég tel að þær niðurstöður, sem fyrir liggja og auðvitað eru háðar óvissu eins og allt sem varðar framtíðina, séu gildari vegna þess að þar er byggt á eðlilegu orkuverði að mínu mati og við erum með fyrirætlanir um að leggja meiri byrgðar á þetta fyrirtæki í formi opinberra gjalda heldur en gert hefur verið um hliðstæðan rekstur.

Ég tek svo undir það sem kom fram hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur í sambandi við stefnu í uppbyggingu fyrirtækja af þessu tagi. Hún hélt sannarlega fram réttu máli þegar hún vék að nauðsyn þess að dreifa fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði og meiri háttar iðnfyrirtækjum á hina einstöku landshluta, eftir því sem fært þykir, og þá ekki síst landshluta sem búa yfir mikilli orku. Það skiptir auðvitað geysilega miklu máli að slík fyrirtæki verði lyftistöng fyrir viðkomandi svæði. Og þar varðar miklu að undirbúningi verka sé háttað þannig að það verði öðru atvinnulífi á viðkomandi svæði lyftistöng. Til þess þarf að vanda og það þarf tíma til þess að það megi takast. Það er ætlan manna, sem að undirbúningi þessa máls hafa staðið, að svo megi verða í meiri mæli en t. d. var kleift við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, og einnig að íslenskur iðnaður, þjónustu- og framleiðsluiðnaður, geti komið þarna meira að verki en tekist hefur hingað til við ýmsar stórframkvæmdir í landinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég ítreka þakkir til þeirra manna, sem hér hafa lagt hönd á plóg í meðferð þingsins, og ég þakka velviljaða gagnrýni í garð þessa máls. Ég hef látið vera að verja það rn. sem ég stend fyrir og hefur reynt að vinna sem best að þessu máli en lengi má um bæta. Ég vænti þess, að frekari undirbúningur þessa máls eigi eftir að treysta undirstöður þessa fyrirtækis og leiða í ljós að þar verði um arðbært og lífvænlegt fyrirtæki að ræða. Það skulum við vona að komandi sumar leiði í ljós. Og ég vænti þess, að sá stutti tími, sem er til þingloka, nægi okkur til þess að stíga það skref sem hér er stefnt að með áliti og tillögum meiri hl. iðnn.