04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4659 í B-deild Alþingistíðinda. (4467)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. nefndarinnar undirritaði ég nál. með fyrirvara. Ég tel að þetta frv. sýni glöggt þá hroðvirkni sem viðgengst í afgreiðslu á málum þessa dagana, því að menntmn. Nd. hefur ekki farið betur yfir frv. en svo, að hún hefur ekki athugað að í frv. er meiri háttar prentvilla sem nú leiðréttist að sjálfsögðu. Það er sagt að á kirkjuþingi eigi sæti 21 kjörinn þingfulltrúi en það á að vera 20. Þetta sýnir að það hefur lítið verið farið yfir frv. Því er hent inn hér eða það kemur hingað til Ed. til meðferðar og er ætlast til að tekin verði afstaða til þess á mjög skömmum tíma. Ég tel að þessi vinnubrögð séu einmitt dæmi um það, hvernig farið er með mál nú þessar stundirnar. Í grg. fyrir frv. er sagt að það sé reist á afstöðu kirkjuþings, samþykkt, sem þar var gerð 1976, og ályktun þess í nóv. 1980 um tímabærar breytingar á lögunum. Það kom fram í nefndinni að þarna er skrökvað til að nokkru leyti þar sem bætt er inn í frv. ýmsum atriðum af hendi kirkjuráðs sem ég veit að ýmsir prestar efast um að hafi vald til að breyta ákvörðun eða samþykktum kirkjuþings.

Þá þykir mér mjög vafasamt að guðfræðingar er vinna í þágu þjóðkirkjunnar að sérstökum verkefnum, eins og segir í 2. gr., skuli eiga sérstakan fulltrúa á kirkjuþingi.

Er vægi leikmanna þar með gert minna, en það hefur verið stefna kirkjunnar að auka vægi leikmanna á kirkjuþingi. Svo er orðalagið mjög óljóst þarna. Þetta gæti þýtt að maður, sem væri ráðinn í tímabundið verkefni við að endurskoða sálmabók eða eitthvað slíkt, ætti þarna atkvæðisrétt. Ég hefði talið eðlilegra að t. d. guðfræðideild Háskóla Íslands og guðfræðingar, er vinna í þágu þjóðkirkjunnar að sérstökum verkefnum, hefðu sameiginlega atkvæðisrétt með einum eða tveimur mönnum á kirkjuþingi eða þá að þessir guðfræðingar yrðu færðir í viðkomandi prófastsdæmi og ættu þar atkvæðisrétt. Það var ekki vilji fyrir því í nefndinni að breyta þessu.

Þeir fulltrúar, sem þarna er átt við, munu vera 8–9 manns í dag, menn sem vinna á skrifstofu biskups eða eru í einhvers konar störfum í þágu kirkjunnar, Skálholtsrektor, sjúkraprestur, fangaprestur o. s. frv.

Ég verð að segja það einnig, að mér ofbýður alveg sá kostnaðarauki sem hlýst af þessu frv. Þar segir í 1. gr.: „Kirkjuþing skal halda ár hvert, að jafnaði í október, og starfa allt að 10 dögum.“ Það er upplýst að þessi breyting, að hverfa frá því að hafa þingið annað hvert ár, hefur í för með sér 82% kostnaðarauka. Hlýtur það að vera umhugsunarefni á meðan við erum að draga úr hvers kyns framlögum til annarra nauðsynlegra mála. Það eru að vísu til fordæmi fyrir því í fjárlögum að svona hækkun eigi sér stað. Ég minni á að til hinna ýmsu ráðuneyta var gert ráð fyrir yfir 90% hækkun þótt almennt væri hækkun ekki nema 33%. En þrátt fyrir það ofbýður mér þessi kostnaðarhækkun. Ég hefði talið eðlilegt, að kirkjuþing yrði áfram haldið annað hvert ár, og tel að kristnihald sé ekki í mikilli hættu þótt svo verði áfram.

Menn kunna að spyrja af hverju ég flytji ekki brtt. Ég tel að það sé næsta þýðingarlaust þar sem allir nm. aðrir eru þessu sammála og ég hygg að það sé lítill tími til að vinna þeirri skoðun fylgi á þeim fáu stundum sem eftir eru þings. En ég vildi hér lýsa skoðunum mínum varðandi þetta frv. Ég tel að betur hefði mátt gera í umfjöllun þess, ekki endilega hér í Ed. því að menn reyndu eins og fært var að yfirfara frv. og það hefur verið lagað frá því að það kom úr Nd. En ég tel að það sé mikil ósvinna að henda svona frv. inn allt of seint, sem reyndar gerðist í þessu tilviki, því að ég veit að þetta frv. var að mestu leyti til fyrir sex árum.