10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram hjá þm. við umr. um þetta mál batt landsfólkið miklar vonir við þessa myntbreytingu, enda var látið í veðri vaka að hér væri um mikinn atburð að ræða. Við Alþfl.-menn lögðum fram tillögur við stjórnarmyndunarviðræðurnar haustið 1979 um ákveðnar aðgerðir í efnahagsmálunum sem yrðu að koma á undan myntbreytingunni til þess að hún næði einhverjum árangri. Þær tillögur náðu ekki samþykki og engar slíkar aðgerðir voru gerðar. Þess vegna hefur myntbreytingin farið út um þúfur og orðið eitthvert mesta svindl í efnahagsmálum sem nokkur ríkisstj. hefur nokkurn tíma gert sig seka um, m. a. vegna þess að fólk, sem upphaflega batt vonir við þessar aðgerðir, hefur nú tapað þeirri von.

Það er ekki rétt, hæstv. forseti, að myntbreytingin hafi eingöngu verið notuð sem afsökun til þess að hækka mjög verulega verðlag svokallaðrar smávöru. Ég hef sjálfur reynslu fyrir því sem húsbyggjandi, að byggingarvörur hækkuðu mjög í verði eftir þessi áramót þegar myntbreytingin var gerð, og það voru engar smávörur sem þar var um að tefla. En það hefur nú komið í ljós, herra forseti, að hæstv. ríkisstj. hugsar eingöngu um vísitöluvörurnar. Henni er alveg sama um allar verðhækkanir sem verða í þessu landi, svo fremi að þær verðhækkanir mælist ekki í vísitölu.

Ég vil taka undir fordæmingu hv. síðasta ræðumanns á þessum aðgerðum hæstv. ríkisstj., og ég vil taka undir þau orð hans, sem hann raunar lét ósögð, en lágu undir í öllu hans máli, að þetta myntbreytingarfargan um áramótin síðustu er eitthvert mesta efnahagssvindl sem nokkur ríkisstj. hefur látið frá sér fara.