04.05.1982
Efri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4662 í B-deild Alþingistíðinda. (4471)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú hefð hefur skapast í menntmn. Ed., að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson er að jafnaði valinn til þess að tala fyrir hönd nefndarinnar þegar kemur að málum sem snerta kirkjur landsins og skipan mála á þeim vettvangi, og hann hefur ætíð gegnt því hlutverki með sóma. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að það komi hér fram, úr því að brtt. hefur verið flutt hér um kirkjuþing og tíðni kirkjuþinga, að það sjónarmið kom fram í nefndinni hjá fleiri en einum nm. við umfjöllun um þetta mál, að komið gæti til álita að breyta þessu ákvæði á þann veg, að kirkjuþing væri eingöngu haldið annað hvert ár og þá í tvær vikur í senn.

Á fund nefndarinnar kom séra Jón Einarsson, sem var höfundur að frv, til l. um kirkjuþing á kirkjuþingi 1976, og hann var þeirrar skoðunar, að það gæti verið vænlegra til starfs og árangurs að kirkjuþing sæti aðeins lengur í senn, þá tvær vikur, frekar en það sæti jafnvel á hverju ári og þá skemur, því að það væri nú einu sinni þannig, að ef stofnun væri saman komin og ætti að ljúka afgreiðslu mála, þá gætu 10 dagar eða svo reynst ónógur tími og vænlegra væri að hafa þingið þá tvær vikur þótt það væri annað hvert ár.

Því er ekki að leyna, að innan nefndarinnar vorum við ýmsir sem töldum að það fordæmi, sem þarna væri sýnt með því að hækka útgjöld til eins liðar um 82% á sama tíma og þingið hefði verið aðhaldssamt mjög á fjölmörgum öðrum sviðum, væri alls ekki hið æskilegasta sem þingið gæti gefið. Að vísu kom það fram, eins og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gat hér um, að hækkun til ráðuneyta, — ég veit ekki hvort það voru öll eða hvort það voru einstök rn., nefndin kynnti sér það ekki sérstaklega, — en það kom fram að hækkun til ráðuneyta mundi hafa verið eitthvað svipuð. Þótt við höfum lagt til að frv. yrði samþykkt í þeim búningi sem það birtist deildinni upphaflega, þá er því ekki að leyna, að við erum ýmsir í nefndinni sem teljum að komið geti til greina að færa þetta í þann farveg sem hér hefur verið flutt brtt. um. Að vísu skilaði nefndin ekki áliti með þeim hætti, að einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma, vegna þess að við bjuggumst e. t. v. ekki við því, að það mundi gerast. En ég er þeirrar skoðunar, að það nál., sem hér hefur verið kynnt, sé ekki svo bindandi að það bindi endilega hendur allra nm. varðandi þá brtt. sem hér hefur fram komið. Og það er rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að það eru ýmsar aðrar samkomur á vegum kirkjunnar og þing sem haldin eru árlega. Þessi afstaða byggist á engan hátt á einhverri tregðu við að gera veg kirkjunnar eða hennar störf sem mest. Það er eingöngu spurningin um það, hvort réttlætanlegt sé að gera þá undantekningu sem hér er greinilega verið að gera.