14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af svari hæstv. ráðh. Hann svaraði aðallega minni athugasemdum sem fram komu, en vék sér frá því sem er stærst og mest aðkallandi.

Það er gott út af fyrir sig að það hefur verið gerð mjög vönduð skýrsla um mengunarvandamál. En mengun heldur áfram þó að skýrslan sé til. Það eru margar skýrslurnar og ég tala nú ekki um öll ljósritin sem eru framleidd. Ég minnist þess, að tveir þm. fluttu till. um það, tveir af þm. Alþb., að gera stórátak í mengunarmálum. Þessi till. var flutt þegar starfsstjórn Alþfl. var, en síðan gufaði hún upp því að annar þessara þm. fór í ríkisstj. En það, sem hefur gerst, er að það er engu fjármagni varið, ekki sem hægt er að segja að sé fjármagn, til þessa mikla vandamáls. Það er auðvitað sjálfsagt að halda áfram að búa til skýrslur fram yfir árið 2000. Það geta allir verið ánægðir með.

Hæstv. ráðh. sagði að það hefði aldrei verið varið meira fjármagni í veiðar og vinnslu kolmunna. Það var varið miklu fjármagni 1977 miðað við verðlag þess tíma. En útkoman úr þessu er sú, að það verður engin aukning á veiðum eða vinnslu. Ég er ekki að kenna hæstv. ráðh. um það.

En það er með skuldbreytingarnar. Þar er ég ekki hæstv. ráðh. sammála. Hvað eru skuldbreytingar? Skuldbreytingar, sem nauðsynlegt er að gera, eru að lækka verulega útgjöld á fyrirtækjum sem þurfa skuldbreytinga við. Það er töluvert um skuldbreytingar til þriggja ára, en það eru háar upphæðir á fyrirtækjum að breyta lausaskuldum og vanskilaskuldum í þriggja ára lán með milli 50 og 60% vöxtum. Það er sama og pissa í skóinn sinn því að eftir verða alveg sömu erfiðleikarnir. Það er gott ef einn útgerðarmaður er farinn að tala aftur við olíufélagið sitt um að breyta vanskilalánum með 54% ársvöxtum í verðtryggt lán. En ég held að það sé engin trygging fyrir því á meðan staðan er ekki bætt, þó að 54% vaxta láni sé breytt í verðtryggt lán, að það verði ekki eftir sem áður fljótlega í vanskilum. Það verður að vera einhver ákveðin stefna og breyta þessum lánum til langs tíma þannig að greiðslustaða fyrirtækjanna sé ekki með þeim hætti að allt komist á sömu stundinni í bullandi erfiðleika og vanskil.

Mér þykir vænt um að heyra að söluskattsniðurfellingin á tölvuvogum sé komin til framkvæmda, en ég vissi að í allt sumar var tregða á því í fjmrn. Þetta hefur nýlega skeð og þá fagna ég því. (Gripið fram í.) Hvort sem það var í gær eða fyrradag hef ég ekki fengið af því fréttir. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta og ég fagna því, af því að ég var mikill baráttumaður þessa máls og meðflm. þess á s. l. ári og lenti í mikilli rimmu við fjmrh. sem var ekkert glaður yfir samþykkt þessa frv.

En það, sem skiptir höfuðmáli nú og ég gerði að umræðuefni í minni fyrri ræðu, eru í fyrsta lagi erfiðleikarnir á að koma fiskverði á, erfiðleikarnir að ná sæmilegu samkomulagi. Það er vegna þess að það er ekki grundvöllur fyrir rekstrinum. Þess vegna er þetta erfitt. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. félmrh. að koma hér og tylla sér á tá og hafa þó nokkuð hátt um að allt sé í besta lagi, atvinnuástandið sé prýðilegt. Guðmundur Karlsson gerði því góð skil. Ég hef litlu við að bæta. Mér er kunnugt um að í einu kauptúni hafa tekjur fólks lækkað yfir 25% á þessu ári vegna þess að aukavinnan og næturvinnan hafa lagst að mestu leyti niður. Það munar um minna fyrir fólk í 50 eða 60% verðbólgu. Ég vona að það sé fremur í undantekningartilfellum svo gífurlega mikill samdráttur.

En það sem ég sagði, er að ríkisstj., sem núna situr, játaði staðreyndum á árinu 1980 um að breyta gengi krónunnar, — ekki af því að hún vildi endilega gengislækkun, heldur sá hún það og skildi allt fram á gamlársdag 1980 að útflutningsatvinnuvegirnir yrðu að ganga. Þess vegna var gengi krónunnar breytt vegna kostnaðarhækkana innanlands. Breyting á gengi krónunnar er ekki nein lausn á vanda. Það er eingöngu verið að játa þá staðreynd, að það þurfi að halda atvinnulífinu gangandi. Það er þetta sama sem útflutningsiðnaðurinn á núna við að stríða, alveg jafnt þeir, sem eru með einkareksturinn, og þeir, sem eru með samvinnureksturinn. Þeir standa frammi fyrir nákvæmlega sama vandamálinu. Það er þetta sem ég tel að verði ekki hjá komist að taka ákvörðun um.

Ég er enginn talsmaður gengisfellingar, síður en svo. Ég er aftur á móti það raunsær að ég vil játa staðreyndir. Ég öfunda ekki Steingrím Hermannsson af því að sitja í þessari ríkisstj. og eiga að bera fyrst og fremst ábyrgðina á því að greinar sjávarútvegsins haldi áfram sinni starfrækslu, en standa svo frammi fyrir níu meðráðh. sem segja: Við erum staðráðnir í því, þrátt fyrir 50–60% kostnaðarhækkun á framleiðslu, að það skuli ekki verða hreyft við gengi íslensku krónunnar. — Þetta er útilokað. Það er alveg sama hvort okkur líkar það betur eða verr að breyta gengi krónunnar, við verðum að gera það. Það er ekki skemmtilegt hlutverk fyrir sjútvrh. að eiga að berjast við slíka tréhesta sem ekki skilja jafneinfalda hluti og þessa.