10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er rétt, að við Alþfl.-menn stóðum með Alþb. og Framsfl. að afgreiðslu laga um myntbreytingu, enda gerðum við þá ráð fyrir, ásamt sumum samstarfsmönnum okkar í þáv. ríkisstj., að sú myntbreyting kæmi í kjölfarið á efnahagsráðstöfunum sem þáv. ríkisstj. væri búin að gera. Það náðist hins vegar ekki fram og því lögðum við sjálfir fram í stjórnarmyndunarviðræðunum haustið 1979 tillögur um aðgerðir, sem við töldum óhjákvæmilegar, ef myntbreytingin ætti að ná tilætluðum árangri, og jafnframt um aðgerðir sem ættu að fylgja í kjölfarið. Ekkert af þessum tillögum okkar var samþykkt, eins og atþjóð veit, og ekki heldur náðist samkomutag í hæstv. ríkisstj. um neinar aðgerðir í efnahagsmálum fyrr en eftir þau áramót sem myntbreytingin var gerð. Ættu menn að minnast þess, sem hlustuðu á áramótaræðu hæstv. forsrh. í sjónvarpinu á gamlárskvöld, þegar hann í fyrsta skipti lýsti yfir einhverri stefnu af hálfu ríkisstj. Þegar við Alþfl.-menn sáum fram á að engar aðgerðir yrðu gerðar í efnahagsmálum til þess að tryggja hina nýju mynt, þá lögðum við til að myntbreytingunni yrði frestað. Á það var hins vegar ekki fallist. Nú skulum við, hæstv. viðskrh., láta reynsluna dæma.