05.05.1982
Neðri deild: 85. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4675 í B-deild Alþingistíðinda. (4502)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umr. um málefni Norðurlands eystra sérstaklega. Hins vegar tangar mig að fjalla um nokkur atriði í sambandi við það mál, sem á dagskrá er, og það fordæmi, sem telja má með því gefið, og nokkur atriði, sem varða svipuð mál.

Það var vissulega margt til bóta samþykkt áðan við 2. umr. frá því sem var í hinu upphaflega frv. ríkisstj. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Engu síður er það svo, að það atriði, sem margir hv. þm. telja að þeir hafi fengið fram með samþykkt þess frv., þ. e. áframhaldandi undirbúningur kísilmálmverksmiðju, athuganir og slíkt, gat farið fram án lagaheimilda. Vitanlega þurfti þær ekki og þarf ekki. Þessu máli er ekki endanlega lokið, og mér dettur nú í hug að vera bjartsýn, þó að nokkur fiðringur sé kominn í hv. þm. vegna þess hve skammt er til þingloka, að ekki sé með öllu of seint að tefla fram nokkrum rökum.

Það er alveg ljóst, að það var til bóta að ganga svo frá málum að Alþingi kysi stjórn þess tilhlutafélags sem frv. fjallar um. En af hverju það þurfti að vera hlutafélag er annað mál. Vitanlega gat Alþingi kosið undirbúningsnefnd manna til að vinna að þessu máli, eins og raunar var lagt til í till. hv. 5. þm. Suðurl. sem náði alveg nægilega langt, en raunar þurfti ekki heldur lagaheimild um.

Einhvern veginn er það svo, að menn trúðu því í allstórum hópum, að þeir væru að taka þátt í því að stöðva mikilvæga atvinnuframkvæmd í framtíðinni með því að ganga ekki til fylgis við þetta frv. Sá skilningur er að mínum dómi alrangur. Vitanlega getur undirbúningur og athugun haldið áfram í þessu máli þangað til það er komið á það stig að það sé raunverulega orðið tímabært að undirbúa löggjöf um málefnið. Því fer fjarri að svo sé.

Það, sem í raun og veru er í þessu frv. og löggjöf sker úr um, er eignaraðildin. Fjöldi hv. þm., sem greiddu atkv. með þessu frv., er, að því er ég held, í hjarta sínu andvígur þeirri hugmynd sem fram kemur í frv. um eignaraðild ríkisins. Allt að einu töldu menn sig vinna málinu gagn með því að samþykkja frv. Ég tel að það sé á misskilningi reist. Við höfum dæmi fyrir okkur í dagskrármálinu sem afgreitt var á milli 2. og 3. umr. þessa máls áðan, en það var frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Það lítur ósköp sakleysislega út, er tvær greinar og er um stórt og mikilvægt fyrirtæki, engum blandast hugur um það, en það fjallar um stórfellda hækkun á framlagi íslenska ríkisins til þessa fyrirtækis. Af hverju? Af því að rekstrarhorfur þess félags eru slæmar og reksturinn hefur gengið verr en menn ætluðu undanfarin ár. Allnokkrir þm. bentu á þetta atriði og auðvitað margir fleiri sem sáu blasa við að svo gæti auðvitað farið með jafnviðkvæma starfsemi sem byggir á fjarlægum mörkuðum sem við Íslendingar höfum einir lítil tök á. Allmargir bentu vitanlega á að þarna réðist ríkissjóður í að taka á sig mikla áhættu. Nú vitum við að gerð hafa verið frávik, m. a. með járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði og eignaraðild ríkisins þar, frá þeirri stefnu að taka slíka áhættu á ríkissjóð. En þar með er ekki sagt að halda eigi áfram á þeirri braut og allra síst þegar reynslan blasir við. Í grg. frv., sem var afgreitt áðan og ég vil, þó að það sé afgreitt, leyfa mér að vitna í, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess með hverjum hætti ég tel það snerta það mál sem hér er á dagskrá, sagði m. a.:

„Vegna áðurgreindra rekstrarþrenginga var greiðslufjárstaða fyrirtækisins hins vegar orðin veik um síðustu áramót og fyrirsjáanleg frekari veiking hennar á yfirstandandi ári.“ Og annars staðar í skjölum málsins sagði að telja mætti að vissulega væri þetta mjög örðugt fyrir ríkissjóð, en dýrara væri þó að stöðva verksmiðjuna.

M. ö. o.: Alþingi stendur að því er virðist, þegar svona er komið málum eða farið hefur verið af stað með meirihlutaeignaraðild ríkisins í áhættusömum rekstri, andspænis því að velja á milli þess að halda áfram að veita úr ríkissjóði, af skattfé borgaranna, áfram í þau fyrirtæki eða stöðva reksturinn.

Nú kann að vera að ríkissjóður, þó oft sé illa staddur, fari ekki um koll af þeirri ástæðu að slíkt komi til á einum stað. En þegar slíkt er að því er virðist stefna gegnir öðru máli. Við höfum allt of mörg mál hér á borðum okkar sem vitna um þessa stefnu. Það er að vísu ekki að undra, eins og ríkisstjórn Íslands er saman sett núna. Hitt undrar mig meira, hve mikinn hljómgrunn slík stefna virðist eiga meðal fjölmargra alþm. ellegar hve rólega menn ljá því liðsinni sitt að málin séu látin velta áfram með þeim hætti og menn bíði bara og voni, að ekki fari illa, og túlki síðan málin með þeim hætti sem þeir vilja að lokaniðurstaða verði.

Við heyrðum það hér við afgreiðslu þessa máls, kísilmálmverksmiðjunnar, við 2. umr., hvernig hv. þm. túlka aðalágreiningsefni málsins hver með sínum hætti þannig að að mínum dómi túlka menn það svo að innihald málsins sé allt annað en í textanum segir. Ef menn eru sammála um að innihaldið eigi að vera það, af hverju er það þá ekki í textanum? Af hverju stendur þá í textanum að rekstrarfyrirkomulag væntanlegrar verksmiðju eigi að vera svo og svo sem þar greinir, og eignaraðild ríkisins geti þess vegna farið upp í 80 eða 90%?

Það er ósköp skiljanlegt, þegar hvert málefni er skoðað algerlega einangrað út af fyrir sig, að íbúar hinna einstöku staða hafi áhuga á að fá til sín ný atvinnufyrirtæki, því að allir sjá þá brýnu nauðsyn að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsins. Hitt er annað mál, að okkur ber skylda til að líta á þessi mál frá sjónarmiði ríkisheildarinnar fyrir hvaða kjördæmi sem við erum kosin. Ég hygg líka að menn viti dæmi þess, að kjör almennings í löndum hafi orðið rýr vegna þess að fjárfesting hins opinbera tók mikið til sín af því, sem hefði þurft að fara beint til að bæta dagleg kjör fólksins, og ýmiss konar rekstur, sem ekki var hagstæður eða nægilega arðbær, tók til sín peningana í þjóðfélaginu.

Í þessu sambandi vil ég víkja að einu atriði sem mér finnst renna enn einni stoð undir að æskilegra væri að láta þetta mál vera meðal þeirra mörgu sem fá að liggja í friði innan veggja Alþingis, og það atriði er að það er ekki einungis að það standi skýrt og skorinort í 2. gr. þessa frv., að ríkið skuli vera meirihlutaeignaraðili í þessu hlutafélagi. Hv. þm. m. a. sem segja að þrátt fyrir þetta sé hér einungis um undirbúningsfélag að ræða, þetta sé nánast bráðabirgðamálefni, athugi að það eru fleiri ákvæði í þessu frv., eins og því hefur verið breytt, sem negla þetta enn betur. Ég hygg að ekki síst hæstv. iðnrh. og hans flokksbræður og fleiri vilji að gengið sé frá því, að íslenska ríkið leggi til meginhluta fjármagnsins. Í verkefninu, sem þessi undirbúningshópur, sem sumir vilja katla svo, á að hafa með höndum, í þeirri grein sem um það fjallar, er talað um heimild til að leggja fram viðbótarhlutafé í félagið. Þá skyldi maður ætla að viðbótarhlutafé og lagaákvæði um slíkt væri nægilegt að lægi fyrir þegar búið væri að sjá fram á hve mikið aðrir eignaraðilar leggja til. En samkv. þessu skjali, sem við höfum hér fyrir augum, á fyrst að taka ákvörðun um heimild til hlutafjáreignar ríkisins og síðan á að kveðja aðra aðila til samstarfs.

Stjórn hins nýja væntanlega hlutafélags samkv. frv., ef að lögum verður, á að undirbúa samninga um orkukaup, tækniaðstoð og sölu afurða verksmiðjunnar, eftir því sem þurfa þykir. Það kemur ekki fram, að þegar málið kemur næst fyrir Alþingi eigi að leggja fram uppkast að samstarfssamningi, eins og þó hefur verið gert um önnur slík mál. Þannig eru frá mínu sjónarmiði miklu fleiri lausir endar í þessu máli en í fyrstu virðist. Hins vegar er fastara um hnútana búið frá sjónarmiði sósíalistanna í ríkisstj. en mörgum e. t. v. sýnist í fyrstu — eða hvers vegna er í þessu frv. hvert ákvæðið af öðru sem enga nauðsyn ber til að lögfesta nú, nema þá til þess komi að þarna verði fyrst og fremst um ríkisrekstur að ræða? Það kann að vera að allt sé þetta á misskilningi byggt hjá mér og hv. Alþingi raunverulega vilji marka þá stefnu, að öll slík fyrirtæki eigi að vera ríkisrekin, þó að hv. þm. viti ekkert um hvaða samstarfsaðilar komi til með að vera þarna með og upp á hvaða býti. Ef þetta er staðreyndin hafa hugmyndir Íslendinga á Alþingi tekið meiri stakkaskiptum en ég hugði, og ég hygg að þær séu ekki í takt við sjónarmið almennings í landinu sem leggur til fé til rekstrar ríkisins.

Þegar rætt er um þetta atriði, að lögfesting hins endanlega fyrirkomulags geti ekki farið fram, að því er ég tel, fyrr en samstarfssamningur liggur endanlega fyrir, vil ég minna á eitt sem varðar mál þessu skylt og varðar það mál sem afgreitt var hér næst á undan þessu og ætti að vera til varnaðar, en ekki fordæmi. Þegar fyrstu lögin voru samþykkt um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, og raunar stendur það í lögunum eins og þau eru eftir að Elkem tók við hinum erlenda eignarhluta þar, þá stóð í samstarfssamningnum og stendur enn í þeim samningi, sem það fyrirtæki er byggt á lögum samkvæmt, að að 15 árum liðnum sé íslenska ríkið skyldugt til að taka allt það fyrirtæki að'sér eins og það leggur sig ef hinum aðilanum dettur í hug að fara út. Hvernig líst mönnum á það þegar markaðshorfur eru eins og þær eru nú? Síðan lögin voru samþykkt eru nokkur ár og þetta ákvæði er um 15 ár. Þetta atriði eitt minnir okkur á að í slíkum málum, sem vissulega eru mikilsverð, þarf eins og annars staðar að vinna af forsjá. Ég held að það sem geti gerst hjá okkur með þessu áframhaldi, sé að kappið beri forsjána ofurliði. Í málum, sem eru vaxin eins og þetta, eins og það ber að og hæstv. iðnrh. fær hv. alþm. til að trúa því, að nauðsynlegt sé að samþykkja lög um að fyrirtæki, sem er ekki enn búið að stofna, verði að meiri hluta til í ríkiseign, tel ég að slíkt kapp sé íslensku þjóðinni of dýrt. Ef menn verða ekki betur vakandi að þessu leyti sjá menn það fyrir sér eftir nokkur ár, hvernig slíkt muni gerast í fleiri landshlutum. Við sjáum frv. um ýmiss konar ríkisreknar verksmiðjur sem alls ekki hafa fullkomna rannsókn á bak við sig. Við sjáum þau mál í borðum okkar. Mönnum finnst spennandi að reyna eitthvað nýtt. Menn skulu gera það, en ekki hætta til þess þeim peningum sem almenningur á Íslandi vinnur fyrir og verður að greiða í skatt til ríkisins til að tilhljóta nauðsynlega þjónustu. Þetta er ekki verkefni sem hægt er að ætlast til að það fé verði notað í. Það eru engin rök í því sambandi þó að sagt verði: Til þessa og þessa hluta málsins á að taka erlent lán. — Einhvern tíma þarf að borga þau erlendu lán eins og önnur og ríkisábyrgðirnar geta orðið virkar áður en varir.

Þá spyrja menn: Hvernig á þá að framkvæma stóriðjustefnuna ef ekki svona? Ég spyr: Eigum við að framkvæma stóriðjustefnuna þannig að nauðsynlegt sé að hið opinbera virki fyrst, síðan reisi hið opinbera fyrirtæki til þess að það geti staðið í skilum við þá sem komi hið opinbera og borgi hallann af hinu opinbera fyrirtæki til þess að það geti staðið í skilum til þeirra sem annast virkjunina? Mér finnst þetta vera hringur atvika sem er ekki nægilega skynsamlegur til þess að hægt sé að trúa því, að slíkt sé íslensku atvinnulífi og afkomu almennings á Íslandi til framdráttar.

Hitt er svo annað mál og það tel ég vera aðalatriði, að við eigum að leggja miklu meiri áherslu á að virkja þá þekkingu, sem til er í landinu, og hafa þá djörfung til að bera að standa þannig að samningum við samstarfsaðila í slíkum rekstri að það bæti efnahag landsmanna, renni stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf á hinum ýmsu stöðum. Þeir, sem annast reksturinn í þeim fyrirtækjum sem eru allra stærst í sniðum og byggja á allra viðkvæmustu mörkuðunum, skulu vera þeir sem þeim hnútum eru kunnugastir. Ég tel það enga frágangssök, síður en svo, ég tel æskilegra að í þeim tilvikum séu erlendir samstarfsaðilar, en við þá sé samið af því viti, að hagsmunum og yfirráðum Íslendinga yfir öllum sínum málum sé fyllilega borgið. Þetta tel ég að eigi að vera hægt. Til þess ættum við að hafa öll skilyrði í sambandi við orkusölu, aðstöðu á stöðunum, íslenskt vinnuafl, skatta og skyldur o. s. frv. Það eru fjölmörg atriði sem tryggja eiga Íslendingum alla þá stöðu í þeim málum sem þarf án þess að vera að búa sér til vandamál, eins og því fylgir að sitja uppi með ábyrgð á atvinnurekstri sem við höfum mjög takmörkuð skilyrði til að láta bera sig ef illa árar í þeirri atvinnugrein eða þeirri framleiðslugrein sem um er að ræða.

Ég tel sem sagt að hugmyndin um, að nauðsynlegt sé að ríkið sé meirihlutaeignaraðili að slíkum fyrirtækjum, sé byggð á rótgróinni hræðslu og minnimáttarkennd. Ég held að Íslendingar séu, eins og einn hv. þm. hafði hér í gærkvöld eftir enn þá eldri þm., menn til að ganga svo frá málum og samningum við erlenda aðila að hagsmunum okkar Íslendinga sé fyllilega borgið að þessu leyti og við höfum með því að virkja þau verðmæti, sem til eru í landinu og spretta hér upp í iðrum jarðar og á hálendinu, vissulega þau skilyrði að við getum ráðið þeim málum til lykta með því móti að verði til farsældar og atvinnuauka án þess að við þurfum að búa við það að sjá enn þá stærri hluta fjárlaganna en orðið er fastbundinn fyrir fram í verkefnum að því er þetta varðar — í verkefnum sem eru ekki eiginleg og nauðsynleg verkefni ríkisins, en aðrir gætu trúlega miklu betur annast. Við sjáum það líka fyrir okkur, að aukin starfsemi af slíku tagi mundi hafa aukna skattbyrði í för með sér þannig að kallaði á aukið vinnuálag fólks, auknar tekjur þess. Þá væri betur farið að létta heldur byrðar þess þannig að athafnasemi og atorka einstaklinganna nýttist betur, einnig til að taka þátt í slíkum stórverkefnum, m. a. eins og því, sem hér er um fjallað, og ýmsum öðrum iðjufyrirtækjum sem skjöl liggja fyrir um á Alþingi.

Ég vildi, herra forseti, freista þess að koma þessum atriðum hér á framfæri. Ég vil aðeins draga saman einn þátt í því sem ég sagði, ef það mætti verða til þess, að hv. alþm. skoðuðu þetta mál nú enn betur áður en til lokaafgreiðslu kæmi, og það er þetta: Hvaða grundvallarskoðun sem menn hafa á því atriði, sem ég hef lagt höfuðáhersluna á, eignaraðildinni, liggur ljóst fyrir að menn eru sammála um, að ég held, að fram fari frekari athugun á undirbúningi verksmiðju, og um það þarf ekki lög.