05.05.1982
Neðri deild: 85. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4682 í B-deild Alþingistíðinda. (4511)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég harma að brtt. okkar hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar um breytingu á eignaraðild frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, var felld hér. Ég tel einsýnt að sú þröngsýni og minnimáttarkennd sem kemur fram í afstöðu þeirra sem eru fælnir við allt það sem heitir erlent fjármagn til stuðnings íslensku atvinnulífi sé okkur óhagstæð og beinlínis hættuleg í efnahagslífi okkar. Þrátt fyrir að svona fór og með því einnig að frv. hefur tekið feiknalegum og raunar gerbreytingum frá því það var upphaflega lagt fram, með því einnig að ég tel þetta gott mál, sem muni koma atvinnulífi og efnahag Austfirðinga vel og þjóðinni allri, þá segi ég já.