05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4682 í B-deild Alþingistíðinda. (4516)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm. meiri hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 898 um frv. til l. um lyfjadreifingu. Frv. þetta er gamalkunnugt hér í þinginu. Það var lagt fram á 100., 102. og 103. löggjafarþingi og er nú lagt fram í fjórða sinn sem 30. mál þingsins. Það má því segja að mál sé til komið að það hljóti afgreiðslu.

Heilbr.- og trn. hv. Ed. hefur unnið mikið starf að breytingum á frv. og fengið sér til ráðslags fjölda aðila. Ingotf Petersen deildarstjóri og lyfjafræðingur vann með nefndinni allan tímann og hann kom einnig til fundar við nefnd hv. Nd.

Megintilgangur þessa frv. er að með því er í raun lokið endurskoðun á lyfjalögum nr. 30 frá 1963, og falla nú úr gildi þeir kaflar þess sem eftir voru í gildi. Þá fellur einnig úr gildi II. kafli laga nr. 63 frá 1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf.

Herra forseti. Ég skal ekki fara löngu máli um aðrar meginbreytingar sem frv. felur í sér, en örfá atriði hlýt ég þó að nefna.

Með frv. er ákveðið að staðarval og stofnun lyfjabúða eða útibúa þeirra skuli ákveða með reglugerð samkv. skiptingu landsins í héruð, sbr. ákvæði laga nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu. Stefnt er að því, að lyfjasala fari úr höndum lækna og þriggja manna nefnd undir forustu lyfjamálastjóra ríkisins fjalli um lyfsöluleyfi. Þá eru þau nýmæli í frv. að ríkið hafi heimild til að standa að menntun tæknimenntaðs aðstoðarfólks við lyfjagerð og lyfjaafgreiðslu, en í reynd hefur Lyfjatækniskóli Íslands starfað frá árinu 1974. Þá fellur Lyfjaverslun ríkisins undir stjórn heilbr.- og trmrn. og henni er skipuð stjórn undir forustu lyfjamálastjóra og staða lyfjaverslunarinnar þannig styrkt. Þá eru settar hömlur gegn því, að starfandi læknar og lyfjafræðingar séu umboðsmenn lyfjaframleiðenda og eigi þannig hagsmuna að gæta þegar lyf eru valin. Þá skal Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum vera háð ákvæðum lyfjalaga nr. 49 frá 1978.

Vegna þess hvað stutt lifir nú þings vil ég ekki tíunda lið fyrir lið þær breytingar sem minni háttar eru og margar hverjar eru samræmingaratriði.

Meiri hl. n. telur að ástæða sé til að afgreiða frv. nú fyrir þinglok, en frá Ed. kom frv. fyrir fáeinum dögum. Einn nm. meiri hl., hv. þm. Jóhann Einvarðsson, skrifaði undir álitið með fyrirvara þar sem hann taldi sig ekki hafa haft tíma til að kynna sér það nógu vel, en hafði hins vegar rætt málið við nm. þingflokksins í Ed. Hv. þm. Matthías Bjarnason og Ragnhildur Helgadóttir skila áliti á sérstöku þskj.

Nauðsynlegt var að bera fram brtt. sem hér liggur frammi á þskj. 899. Sú prentvilla, sem ég leyfi mér að kalla svo, hafði slæðst inn í þskj. 771, sem á voru brtt. heilbr.- og trn. Ed., og síðar aftur í frv. á þskj. 801, sem er frv. svo breytt frá Ed., að orðið „ekki“ hafði fallið niður í upphafi 29. gr. Þar sem þetta litla orð gerbreytir merkingu greinarinnar tilhlýtur frv. að þurfa að fara aftur til Ed. Svo augljóslega er þetta prentvilla að treysta má að leiðrétting þessi tefji ekki framgang málsins, en starfsmenn þings tjáðu mér að ekki yrði við þessu gert öðruvísi en málið hlyti meðferð aftur í Ed.

Herra forseti. Um þetta mál skal ég ekki segja meira, en meiri hl. n. hvetur til að málið verði nú afgreitt.