05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4685 í B-deild Alþingistíðinda. (4518)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm. meiri hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fá að svara hv. 1. þm. Vestf. nokkrum orðum.

Það er að verða árviss viðburður, að hv. þm. stendur hér á fætur og kvartar yfir störfum mínum sem formanns heilbr.- og trn. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu.

Við höfum nú starfað saman í núverandi heilbr.- og trn. tvö þing. Í fyrra má ég segja að hafi verið haldnir 28 fundir, á þessu þingi 20. Allir hafa þeir verið með eindæmum ánægjulegir og skemmtilegir og skemmtilegastur allra hv. 1. þm. Vestf. Það eru mikil forréttindi fyrir formann í þingnefnd að hafa í þeirri nefnd, sem fjallar um heilbrigðis- og tryggingamál, tvo fyrrv. ráðh. í málaflokknum. Það hefur auðvitað styrkt nefndina afar mikið, enda mál gengið mjög vel í nefndinni. Hv. 1. þm. Vestf. leiðréttir mig ef ég fer ekki rétt með það, að annaðhvort er þetta í fyrsta eða annað sinn sem mál fer út úr þessari umræddu nefnd með ágreiningi. Öll önnur mál hafa verið samþykkt einróma og athugasemdalaust.

Ég get fullvissað hv. 1. þm. Vestf. um að ég kem ekki á fund í þessari nefnd án þess að þekkja nokkuð til þeirra mála sem hún skal um fjalla, enda hafði ég haft tækifæri, eins og hann og aðrir, til að lesa þetta frv. á borðinu hjá mér síðan í október í vetur. Enginn hefur sagt að nm. megi ekki líta á mál fyrr en það er komið til viðkomandi nefndar. Ég held þess vegna að allar þær ásakanir, sem hér hafa verið bornar fram, séu með öllu ósanngjarnar. En það er nákvæmlega sama sagan og átti sér stað hér í fyrra. Ég veit ekki hvort Morgunblaðið, málgagn hv. 1. þm. Vestf., er orðið svo örvæntingarfullt um fréttir af umræddum formanni að nú skuli enn búa til litla frétt á 2. síðu Morgunblaðsins. En ég hélt satt að segja að menn væru orðnir leiðir á slíkum málflutningi, einkum að því er mig varðar. Ég vil þess vegna aðeins segja hv. 1. þm. Vestf. það, að ég skal fúslega taka að mér sömu störf á næsta þingi, ef við berum gæfu til að starfa hér áfram, og ég ætla sannarlega að vona að hann starfi í þeirri ágætu nefnd með jafnmiklum ágætum og hann hefur gert. En ég treysti honum til að standa ekki hér upp í þriðja skiptið að vori og klaga formanninn fyrir störf sem hann hefur aldrei nokkurn tíma haft nokkra uppburði til að klaga fyrr, heldur samþykkt nær öll mál og öll vinnubrögð nefndarinnar með glöðu og ljúfu geði, eins og hans er háttur. Ég skil ekki hvað þetta á að þýða, en í skáldsögum er þetta kallað „love-hate“ samband.