05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4687 í B-deild Alþingistíðinda. (4521)

30. mál, lyfjadreifing

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hér hefur komið fram af hálfu nm. heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar að nefndin hefur ekki haft þetta mál til meðferðar nema í raun og veru í örfáa daga og aðeins á einum fundi sem tók eina klukkustund, að því er mér hefur skilist. Það liggur fyrir að nál. frá heilbr.- og trn. Ed. kom fram fyrir viku. Það liggur fyrir að hér er um að ræða ágreiningsefni sem nm., bæði í heilbr.- og trn. Ed. sem og í heilbr.- og trn. Nd., telja sig ekki hafa haft ráðrúm til að kanna og komast að niðurstöðu um á þeim skamma tíma sem til umráða var. Hvað má þá segja um þá þm. sem ekki eiga sæti í þessum nefndum og hafa þurft á þessum skamma tíma, síðan t. d. nál. heilbr.- og trn. Ed. kom fram, að taka afstöðu til og fjalla um margvísleg önnur mál, eins og gerist og gengur í þinglok?

Raunar vil ég segja að nú við þessi þinglok hefur örtröð mála verið meiri en nokkru sinni áður og öngþveitið slíkt að forsetar þingsins hafa jafnvel ekki áttað sig frekar á meðferð og gangi mála en þm. sjálfir. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Vestf. að ég tel slíka málsmeðferð algerlega fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. félm.- og trmrh., að hann sýni nú sáttfýsi, skilning og samkomulagsvilja og fallist á að þm. gefist kostur til frekari meðferðar þessa máls. Við, sem verðum uppistandandi að hausti og sjáumst þá hér í sölum vonandi öll, erum áreiðanlega tilbúin að hraða meðferð málsins þá þannig að málið geti náð afgreiðslu og væntanleg lög tekið gildi um næstu áramót, eins og tilætlunin er, með þeim fyrirvara sem aðilar, er framkvæma eiga lögin, þurfa til þess að svo verði.

Sem sagt, herra forseti, beini ég þeim vinsamlegu tilmælum til hæstv. félm.- og trmrh., að hann sýni þann skilning og þann samkomulagsvilja að fallast á að sanngjarnt sé að þm. hafi þann tíma sem nauðsynlegur er til að fjalla um svo viðamikið mál sem hér um ræðir. Ég þykist vita að hann vilji fallast á þessa beiðni mína.